28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það gleður mig stórum, að hv. fyrirspyrjandi, 9. landsk, þm., hefur safnað svo miklu liði hér á pallana sem raun ber vitni um til þess að hlusta á þessa fsp. sína. En að ástæðulausu var að spyrja, því að þetta gat hv. þm. fengið að vita alveg án þess að halda svo langa ræðu sem raun bar vitni um. Eitt af því, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. gerði á síðustu dögum sínum, var að skipa í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna til næstu sex ára. Mörgum fannst það nokkur tíðindi, að það skyldi gert af ríkisstj. eftir að hún hafði þá raunverulega misst völdin. Um þetta urðu nokkrar umr. í blöðum. Ég tók hins vegar ekki þátt í því í sambandi við skipun þá, sem gerð var fyrir hönd fjmrn., þó að það orkaði mjög tvímælis með hana eins og aðra skipun, ekki af því að ég hafi út á mennina að setja, en hitt var ljóst, að þessir fulltrúar voru valdir með tilliti til pólitískra skoðana sinna og þess vegna orkaði þetta tvímælis. Í lok ágústmánaðar kom sá fulltrúi sjóðsstjórnarinnar, sem er fulltrúi fjmrh., Baldvin Tryggvason, til mín og lagði fyrir mig þá grg. og þá till., sem þeir höfðu að gera í sambandi við námslán á árinu 1972. Eins og ég skýrði honum þá frá, var búið að ganga frá fjárlagafrv., eins og áformað var að leggja það fram, og ég sagði honum því, að við mundum taka þetta mál til meðferðar við afgreiðslu fjárlaga á Alþ. Ég sagði frá því í fjárlagaræðunni, að svo hefði verið og dró enga dul á það, að þetta mál yrði þar tekið til meðferðar og skal lýsa því yfir fyrir hönd íslenzku ríkisstj., að hennar hugsun hefur aldrei verið önnur en sú, að þessi till. yrði tekin og afgreidd í fjárlögum ríkisins 1972. Þess vegna þurftu engir af því áhyggjur að hafa, og ef sjóðsstjórnin hefur haft slíkar áhyggjur sem hv. 9. landsk. þm. lýsti hér áðan, þá hefði það nú verið ómaksins vert fyrir þá að hafa samband við annaðhvort hæstv. menntmrh. eða fjmrh. til þess að fá vitneskju um það frá þeirra hendi, hvað þeir hugsuðu sér í málinu. (Gripið fram í.) Nei, það hefur ekki verið haft samband við mig nema það, eins og ég sagði áðan, þegar Baldvin Tryggvason lagði fyrir mig þessa áætlun, og ég hygg, að hann muni bera það, að það kom ekkert fram í okkar samtali, sem gaf það til kynna, að þessi áætlun yrði ekki tekin til greina. Þess vegna held ég, að sjóðsstjórnin hafi byggt á því, að hún yrði tekin til greina og þess vegna ekki verið á ferðinni út af málinu. Það hefur hins vegar komið fyrir oftar og t. d. þykist ég muna það, að á árinu 1970 voru hækkuð framlög til námslána á miðju því sumri, þó að fjárlög væru þá frágengin, svo að þess vegna þarf engan að undra, þó að slíkt mál sem þetta sé til meðferðar í fjvn. og þurfi ekki að vera að fullu afgreitt í fjárlagafrv., ekki sízt þegar áætlun, sem á þurfti að byggja, lá ekki fyrir, þegar frv. var samið. Ég vil því endurtaka það, að af hálfu ríkisstj. verður séð um það, að fjárveiting af hálfu ríkisins á árinu 1972 til Lánasjóðs ísl. námsmanna verði sú, sem farið er fram á í þessari tillögu stjórnar lánasjóðsins.