28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þingsköp leyfa mér ekki að flytja hér langa ræðu, en ég vil þó þakka þann sérstaka heiður, sem mér er sýndur, að tveir ráðh. sjá ástæðu til þess að standa hér upp og svara minni fsp., svo að greinilegt er, að mikið liggur við. Ég stóð nú ekki hér upp til þess að safna liði og halda einhverja auglýsingaræðu, ég hefði að sjálfsögðu líka getað gengið á fund ráðh. og óskað eftir upplýsingum fyrir sjálfan mig, en vegna þess að ég hef ekki hagsmuna að gæta í þessu máli, heldur sá hinn mikli fjöldi manna, sem stundar nám bæði hérlendis og erlendis, taldi ég það miklu mikilvægara, að fram kæmi hér á þessum vettvangi svar ráðh., en ekki í prívatsamtali við mig undirritaðan. Ég var heldur ekki hér að spyrja um pólitískar skoðanir þeirra manna, sem setið hafa í stjórn lánasjóðsins, og ég get ekki séð, að það skipti neinu máli. Því er ekki að neita, að þegar lagt er fram fjárlagafrv. ríkisstj. eftir alllanga setu hennar, þá er eðlilegt, að maður geri ráð fyrir því, að í því komi fram, hver stefna ríkisstj. sé í hinum einstöku málum. Það fer ekki á milli mála — og sérstaklega með tilliti til þeirra miklu umr., sem fram fóru um námslán á síðasta þingi — þá fer það ekki á milli mála, að það var búið að móta mjög ákveðna og skýra stefnu varðandi námslán, og þess vegna var það alvarlegur hlutur og vakti mikla athygli, þegar í ljós kom, að þessari áætlun og þessari stefnumörkun var ekki fylgt í fjárlagafrv. Það var líka eðlilegt, að menn hefðu áhyggjur af þessu, þegar tillit er tekið til þess, að lagt er fram fjárlagafrv. með aðeins 48 millj. kr. greiðslumismun, en hér er um að ræða upphæð um 90 millj. kr., svo að það er eðlilegt, að fólk spyrji: Hvar á að taka þessa peninga, sem þarna vantar, á að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla?

Ég vil enn fremur undirstrika það, að það er ekki að ástæðulausu, sem ég stend hér upp. Ástandið hefur vissulega verið mjög alvarlegt í fjármálum námsmanna og lánamálum þeirra. Það hefur skapazt mikil óvissa í þeirra röðum, ringulreið hjá lánasjóðnum. Hann hefur verið að úthluta eftir fyrirfram ákveðinni áætlun sinni, en svo kemur í ljós, að hún er ekki sett inn í fjárlög. Námsmenn, sem nú þegar eru komnir til náms erlendis, hafa gert ráð fyrir því að fá lán samkv. þessari áætlun og þeir hafa staðið frammi fyrir þeim augljósa möguleika, að þær áætlanir, sem þeir sjálfir hafa gert varðandi sín fjárhagsmál, mundu ekki standast og fjárhagsafkomu þeirra yrði stefnt í voða. Af þessu öllu má sjá, að það var mjög þýðingarmikið og full ástæða til þess að spyrjast fyrir um það hér á þessum vettvangi, hvernig ríkisstj. hygðist grípa á þessu máli. Það mundi ekki hafa staðið á mér — og ég geri ráð fyrir því, að það hafi ekki staðið á öðrum hv. alþm. að láta í ljós vilja sinn í þessu máli með því að samþykkja þáltill. til stuðnings fjvn. og til stuðnings fjmrh., ef þörf hefði verið og þess hefði verið óskað, ef svarið hefði ekki verið mjög tvímælalaust hjá ráðh. í þetta skipti.

Nú hefur fjmrh. gefið mjög ánægjulega yfirlýsingu, tekið alveg af skarið með það, að hann og ríkisstj. í heild hyggist beita sér fyrir því og sjá til þess, að áætlun lánasjóðsins sé tekin að fullu inn í fjárlög. Þetta er það, sem ég bað um. Þetta er það, sem skiptir máli, og þetta er það, sem ég tel að íslenzkir námsmenn geti fagnað, og þess vegna tel ég, að þessi fsp. mín hafi borið fullan árangur.