28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 1. þm. Reykv. vil ég segja það, að þessar till. eru dags. 26. ágúst, en það mun hafa verið komið eitthvað fram í sept., þegar Baldvin Tryggvason kom og lagði þær fyrir mig og ræddi um þær við mig. Ég man ekki svo nákvæmlega dagsetninguna. En eins og ég áðan sagði, var þá búið að ganga frá fjárlagafrv., svo að hann vissi það einnig, að þetta yrði ekki tekið með. Og mér kemur það mjög á óvart, ef stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur haft af þessu miklar áhyggjur, að hún skuli þá ekki hafa lagt á sig það ómak að hafa samband við t. d. fjmrh. um það, hvort ætti að taka tillit til þessara tillagna eða ekki. Það kemur mér mjög á óvart og ég tel, að það séu óeðlileg vinnubrögð, ef þeir hafa verið í einhverjum vandræðum, því að það er ekki fyrr en í dag, eins og hæstv: menntmrh. sagði frá, sem frá þeim kemur bréf, þar sem þeir spyrjast fyrir um þetta, sem þeir hefðu getað fengið svar út á strax. Og ég er sannfærður um það, að Baldvin Tryggvason fór með það viðhorf af okkar fundi, að hann leit svo á, að tillögurnar yrðu teknar til greina.