29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

Húsnæðismál menntaskóla o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta mál skuli hafa borið á góma hér á hinu háa Alþ., því að sannarlega er hér um athyglisvert vandamál að ræða. En ummæli í ræðu hæstv. menntmrh. gefa mér tilefni til dálítillar leiðréttingar.

Eins og honum er eflaust eins vel kunnugt og mér, þá setti ég, meðan ég veitti menntmrn. forstöðu, bráðabirgðareglugerð varðandi framkvæmd á nýju menntaskólalögunum í ársbyrjun 1971. Í þeirri reglugerð sjálfri voru ákvæði um það, að fullnaðarreglugerð skyldi samin og taka gildi í byrjun yfirstandandi skólaárs. Það var talið nauðsynlegt. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefði unnizt tími til þess að ganga frá reglugerðinni, en þetta leyfi ég mér að draga í efa. Það hefði verið nógur tími til þess, ef nægum starfskröftum hefði verið til þess beitt að fullsemja reglugerðina, þannig að hún hefði getað tekið gildi fyrir byrjun þessa skólaárs.

Þá fannst mér það ekki koma nægilega fram í svari hæstv. ráðh. við fsp. þm., hver er raunverulega ástæðan fyrir því húsnæðisvandamáli, sem nú hefur komið upp á þessu skólaári í Menntaskólanum í Reykjavík, stærsta menntaskóla landsins. En ástæðurnar eru tvær. Annars vegar mikil fjölgun nemenda á menntaskólaaldri, sem sótt hafa í elzta menntaskóla landsins, og hins vegar sú ráðstöfun eldvarnaryfirvalda í Reykjavík að svipta gamla Menntaskólann efstu hæðinni í menntaskólahúsinu af brunavarnarástæðum. Ég vek athygli á því, að hvort tveggja þetta lá ljóst fyrir, þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum. Þá var annars vegar vitað um þann fjölda, sem mundi sækja til menntaskólanáms, og þá lá þegar fyrir sú fyrirætlun eldvarnareftirlitsins að taka efstu hæð menntaskólahússins úr notkun, og þar með var alveg fyrirsjáanlegt á miðju s. l. sumri, að til vandræða mundi koma í húsnæðismálum Menntaskólans í Reykjavík. Það, sem ég tel, að þá hefði átt að vinda bráðan bug að, var að taka ákvörðun um stofnun nýs menntaskóla, annaðhvort í Austurbænum í Reykjavík eða í Hafnarfirði. Hvort tveggja hefði verið jafngott og hvort tveggja hefði leyst þann vanda, sem nú dynur yfir, nú er við að etja, með sama hætti. Ég vek athygli á því, að nú þarf ekki lagaákvæði til stofnunar menntaskóla, nú dugar ákvörðun menntmrh. Auðvitað er mér ljóst, að nýr menntaskóli í Austurhænum í Reykjavík eða í Hafnarfirði hefði ekki verið byggður á sumarmánuðunum eða fram að hausti, en ákvörðunina hefði átt að taka. Það hefði sætt nemendur miklu betur við erfiðleika í vetur og auk þess hefði verið vandalaust, það fullyrði ég, vandalaust að leigja húsnæði í Austurbænum eða í Hafnarfirði til nauðsynlegrar menntaskólakennslu og hafa það á leigu, þangað til bygging væri risin í Austurbænum eða í Hafnarfirði.

Ég endurtek, að ég fullyrði, að hægt hefði verið að fá nýtt nothæft húsnæði til menntaskólakennslu á leigu, meðan bygging stæði yfir, einkum og sér í lagi, ef ákvörðun hefði verið tekin um það í sumar að reisa nýjan menntaskóla í Austurbænum eða í Hafnarfirði.

Ég vek athygli á því, að á óskalista menntaskólanemendanna eða áskorun þeirra er það mjög athyglisvert, að kröfur þeirra eru ekki um nýja löggjöf. Löggjöfin er til ný og viðurkennt af öllum, að hún er mjög fullkomin. Óskirnar eru um það, að gildandi lögum sé framfylgt, og það er nokkuð sérstakt, að óskir nemenda eða aðila skuli vera með þessum hætti og það sýnir, að nemendurnir hafa ábyrgðartilfinningu. Þeir vita, um hvað er verið að tala. Það er ekki þörf á endurskoðun á löggjöfinni sjálfri. Hún er mjög fullkomin, í hópi þeirra fullkomnustu, sem um er að ræða í nálægum löndum, en það hefur gengið of seint að framkvæma löggjöfina, einkum og sér í lagi fyrir byrjun þess skólaárs, sem nú er nýhafið.

Ég minni á það, að fyrir 15 árum var ástandið í menntaskólamálum þjóðarinnar vægast sagt hörmulegt. Það voru þrír menntaskólar til í landinu, einn 100 ára gamall skóli í Reykjavík, einn 30 ára gamall skóli á Akureyri og lítill þriggja ára gamall skóli á Laugarvatni. En síðan hefur það gerzt, að byggt hefur verið við Menntaskólann í Reykjavík húsnæði, sem er stærra en gamli skólinn. Það hefur verið byggt húsnæði á Akureyri, Möðruvellir, sem er stærra en gamli skólinn. Það hafa verið byggðir nokkrir áfangar af stærsta og fullkomnasta menntaskóla landsins, einum fullkomnasta menntaskóla á Norðurlöndum, sem er Hamrahlíðarskólinn. Það hefur verið stofnaður nýr menntaskóli í Reykjavík, Menntaskólinn við Tjörnina, heimavistir við Menntaskólann á Laugarvatni hafa verið stórauknar og þegar hefur verið hafin fyrir nokkru bygging menntaskóla á Ísafirði. Í málefnum menntaskólanna hefur því verið sérstaklega á undanförnum 10 árum gert stórkostlegt átak, miklu stórkostlegra átak en á nokkrum 10 árum öðrum í sögu menntaskólakennslu á Íslandi. Um þetta má nefna mjög einfalda tölu. Ég skal ekki þreyta hv. þm. utan dagskrár með talnalestri eða miklum upplýsingum, en fyrst málið ber á góma á annað borð, þá tel ég rétt, að þingheimur og þjóð og nemendur skólanna, sem þetta mál snertir sannarlega, viti, hvað hefur verið að gerast í málefnum menntaskólanna, að þeim hefur síður en svo verið gleymt á undanförnum árum.

Stofnkostnaður menntaskóla var 1960 eða fyrir 10 árum á verðlagi 1971 12.5 millj. kr. Þá var varið til byggingar menntaskóla 12.5 millj. kr. Á s. l. ári var varið til byggingar menntaskóla 56.9 millj. kr. eða fjórum til fimm sinnum meira en fyrir 10 árum. Þetta ber vissulega vott um, að hagsmunum menntaskólanemenda og menntaskólanna hefur ekki verið gleymt. Ég vek athygli á því, að því miður eru á fjárlögum þessa árs aðeins 12 millj. kr. ætlaðar til byggingar menntaskóla miðað við 56.9 millj. kr. á s. l. ári. Ég geri ráð fyrir því, að þessi staðreynd sé ein af þeim, sem veldur óróanum meðal menntaskólanemenda. Þetta voru tölur um stofnkostnað menntaskólanna. Alveg sama verður uppi á teningnum, ef athuguð eru útgjöld ríkisins til rekstrar menntaskólanna. Fyrir 10 árum, 1961, var reksturskostnaður menntaskólanna 27.8 millj. kr. á verðlagi ársins 1971. Hversu miklu skyldi hafa verið varið til rekstrar menntaskólanna á s. l. ári í krónum með sama verðgildi 115.1 millj. kr. Það er um það bil sexföld aukning á einum áratug. Þetta er sannarlega staðreynd, sem allir, sem láta sig mál menntaskólanna skipta, þurfa að hafa í huga. Auðvitað má ekki gleyma því, að menntaskólanemendum hefur stórfjölgað. Þeir voru 1961 769, þeir voru í fyrra orðnir hvorki meira né minna en 2 717. En aukning útgjalda til rekstrar hefur samt vaxið miklu meira en nemendafjöldanum nemur. Ef rekstrarkostnaði menntaskólanna er deilt á nemendur, þá er niðurstaðan þessi, að 1961 var kostnaður við menntaskólana á nemanda 22 900 kr. á verðlagi 1971, en í fyrra var varið í rekstrarkostnað á hvern nemanda menntaskólanna 42 400 kr. eða næstum tvöfaldri þeirri upphæð. M. ö. o., þjónusta við nemendur í krónum reiknuð hefur verið næstum tvöfölduð á einum áratug. Mér er að sjálfsögðu ljóst, að gildi kennslu þarf ekki að fara eftir aukinni fjárhæð, en það hlýtur að vera, að þjónusta við nemendur í bættri kennslu hafi aukizt mjög verulega við svo gífurlega aukningu á rekstrarútgjöldum menntaskólanna.

Herra forseti. Að síðustu, fyrst ég er á annað borð kominn í stólinn, get ég ekki stillt mig um að nefna það, að í dagblaði hæstv. forsrh. er í morgun grein einmitt um menntaskólamálið. Og þar er m. a. tekið svo til orða, að núv, ríkisstj. hafi tekið við íslenzkum skólamálum í fullkomnu öngþveiti. Ég held nú satt að segja, að varla sé hægt að hugsa sér öllu fáránlegri öfugmæli, eiginlega öllu hneykslanlegri öfugmæli vegna þess, hve auðvelt er að sýna fram á, að þau eru algerlega úr lausu lofti gripin, og mun annað tækifæri verða notað til þess að reka þetta rækilega ofan í þetta dagblað hæstv. fjmrh. og hlakka ég mjög til þess tækifæris, sem ég kem til með að fá. Á þessu stigi skal ég aðeins láta mér nægja að minna á það, — nú tala ég ekki bara um menntaskólana eina, heldur um rekstrarútgjöld til fræðslumála í heild, — að þau voru fyrir 10 árum, 1961, enn í sambærilegum krónum við 1971 518 millj. kr., en í fyrra voru þau 1 371 millj. og ég hefði gaman af að vita um nokkurn annan áratug í íslenzkri skólasögu, þar sem hefur orðið jafn stórkostleg, aukning á rekstrarútgjöldum til fræðslumála og einmitt á s. l. áratug. Og það sama verður uppi á teningnum, ef við berum útgjöld til fræðslumála saman við þjóðarframleiðsluna. Fyrir 10 árum voru útgjöld til fræðslumála, 1961, 4% af þjóðarframleiðslunni: Í fyrra, 1971, voru útgjöld til fræðslumála komin upp í 6% af þjóðarframleiðslunni. M. ö. o., hlutdeild fræðslumálanna í þjóðarframleiðslunni hafði aukizt um 50%. Það eru ekki mörg lönd, sem geta sýnt fram á jafnmiklar framfarir og jafn stórkostlega aukningu fræðslumálanna í þjóðartekjum og Ísland getur á undanförnum áratug. Af þessu vona ég, að menn sjái, hversu mikið ég hlakka til að tala við vissa þm. um þessi mál.