29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

Húsnæðismál menntaskóla o.fl.

Halldór S. Magnússon:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tíma þm. mjög lengi, enda finnst mér satt að segja, að þessar umr. hér utan dagskrár séu orðnar nokkuð hjákátlegar á stundum. Ég verð að taka undir það, sem hæstv. menntmrh. sagði, að þessi fsp. hefði vissulega átt heima í eðlilegum fyrirspurnatíma, en ekki hér utan dagskrár. Engu að síður skal ég viðurkenna, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. En ég gat ekki stillt mig um að tefja tíma alþm. örstutta stund, þar sem umr. eru nú hvort sem er búnar að tefjast mjög lengi, einkum og sér í lagi vegna ummæla hæstv. fyrrv. menntmrh.

Ég var svo lánsamur að stunda nám í viðskiptadeild Háskóla Íslands, þar sem hv. þm. hefur verið prófessor og á nú inni umsókn um prófessorsembættið að nýju, en það komst aldrei inn í minn koll, meðan ég stundaði þar nám, að hægt væri að blanda saman útgjöldum, rekstrarútgjöldum, og þjóðartekjum. Hann sagði eitthvað á þá leið í sinni ræðu hér áðan, að hlutdeild fræðslumála í þjóðartekjum hefði vaxið úr 4% í 6% á þeim tíma, sem hann var menntmrh. og máli sínu til sönnunar sagði hann, að kostnaður (rekstrarútgjöld) við menntaskólana hefðu vaxið um þessi sömu prósent. Ég held, að svona rökstuðningur gangi ekki inn í okkur viðskiptafræðinga almennt og ekki heldur aðra landsmenn. (Gripið fram í.) Það kann vel að vera, að þeir séu svona á sérstöku sviði, já.

Mig langar líka til að benda á það, að hæstv. fyrrv. ráðh. gat um það hér áðan, að sjálfsagt hefði verið að stofna í skyndi skóla annaðhvort í Austurbænum í Reykjavík eða Hafnarfirði. Og ég vil leyfa mér að benda á mismuninn, sem er þar á vinnubrögðum, sem hann hefði viljað viðhafa í því efni, og þeim vinnubrögðum, sem hæstv. núv. menntmrh. hefur viðhaft um stofnun nýs menntaskóla. Hæstv. menntmrh. hefur skipað nefnd til þess að gera tillögur um staðsetningu menntaskóla í Reykjaneskjördæmi. Hæstv. fyrrv. menntmrh. vildi ákveða strax, að sá skóli yrði staðsettur í Hafnarfirði. Hér er um gerólík vinnubrögð að ræða, og ég verð að segja, að mér finnst öllu viðfelldnari vinnubrögð hæstv. núv. menntmrh. í því efni.