29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

Húsnæðismál menntaskóla o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í þessar umr., sem hér hafa farið fram, enda hefur hv. 7. þm. Reykv. lýst yfir því, að hann vilji gjarnan ræða þessi mál nánar við mig síðar, og ég er reiðubúinn til þess. En það var aðeins eitt atriði í hans síðari ræðu, sem ég vildi leiðrétta. Hv. þm. sagði í fyrri ræðu sinni, að framlög til menntaskólabygginga á þessu ári væru ekki nema 12 millj. Þetta leiðrétti menntmrh. og upplýsti, að þessi framlög væru 66 millj. Þá stóð hv. 7. þm. Reykv. hér upp aftur og sagðist verða að hafa það sér til afsökunar, að þessi tala, sem hann hefði farið með, væri tekin úr forustugrein Tímans í dag. Og það er það, sem ég ætla að leiðrétta. Ég ætla að lesa það upp, sem stendur í Tímanum um þetta atriði. Þá verð ég nú að lesa þessa setningu líka, sem hafði farið í taugarnar á hv. þm., en ég vona, að það verði samt ekki til þess að hann springi hér aftur. En þetta hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Þess ber vitanlega einnig að gæta, að þótt húsnæðismál menntaskólastigsins séu í ólagi, gildir það ekki síður um önnur stig skólakerfisins. Sum þeirra eru enn verr á vegi stödd. Núv. ríkisstj. tók við þessum málum í algeru öngþveiti, og því var framlag til skólabygginga stóraukið á fjárlögum þessa árs. Þannig var byggingarframlagið til Kennaraskólans aukið um 103%, til iðnskóla um 90%, til héraðsskóla um 80%, til barnaskóla og gagnfræðaskóla um 37%, en til menntaskóla um aðeins 12%, því að þörfin var talin enn meiri á öðrum stigum skólakerfisins.“

Það, sem stóð í Tímanum um þetta efni, þar sem þessi tala 12 kom fyrir, var, að framlög til menntaskólakerfisins höfðu verið aukin á fjárlögum þessa árs um 12% frá fyrra ári, en þetta gerir hv. 7. þm. Reykv. að því, að framlagið hafi aðeins verið 12 millj., og ég vænti þess vegna, að hann verði drengur til þess að leiðrétta þetta hér á eftir.