29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

Húsnæðismál menntaskóla o.fl.

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að blanda mér í þessar umr. Mér fannst þessi fsp. ósköp eðlileg og svar við henni sömuleiðis. En þegar farið er að lesa hér upp úr leiðurum dagblaðanna í ræðustól utan dagskrár, þá held ég, að það sé kannske ástæða til að gera örlitlar aths. við þá leiðara, sem eru orðnir svo mjög að umræðuefni. Ég skal reyna að stilla máli mínu í hóf og reyna sem allra sjaldnast að ræða leiðara dagblaðanna, og þá mun dagblaðið Tíminn ekki vera þar undanskilið. En ég vil minna hv. 4. þm. Reykv. á það eftir sinn upplestur hér áðan, að staðreyndir skipta mestu máli í sambandi við þær tölur, sem með er farið, en á fjárlögum ársins 1970 var varið 206 millj. 860 þús. til byggingar skólamannvirkja í landinu á barna- og gagnfræðaskólastigi. En á árinu 1971 hækkaði þessi liður upp í 288 millj. 91 þús. eða um 39%. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga, fjárlaga fyrir 1972, þá hækkar þessi langstærsti liður skólamála úr 288 millj. 91 þús. í 394 millj. 360 þús. eða um 37%. Hlutfallið er minna heldur en frá árinu 1970–1971 á þessum langstærsta lið. Hitt er auðvitað þægilegt að taka út úr einstaka skóla, sem hafa auðvitað lítið að segja í sambandi við heildarfjármagnið, en þar sem menntaskólarnir hafa fyrst og fremst verið gerðir að umræðuefni hér út af þessum leiðara í dagblaðinu Tímanum, þá þykir mér rétt að benda á, að á árinu 1970 var framlag til menntaskóla á landinu, þ. e. stofnkostnaðarframlög menntaskóla, 38 millj. 242 þús., en við fjárlagaafgreiðslu ársins 1971 var framlag til menntaskóla 59 millj. 270 þús. og hækkunin á milli þessara ára var þá þar með 21 millj. 28 þús. til stofnkostnaðar menntaskóla. Mig minnir, að hæstv. menntmrh. hafi sagt, að hækkunin nú hafi numið eitthvað á milli 12 og 13 millj. kr. og það er þá mun minna að krónutölu heldur en var varið til framkvæmda við menntaskóla frá árinu 1970 til ársins 1971. Það kemur því úr hörðustu átt að tala um að taka við einhverju kerfi í rúst, sem þurfi að byggja upp, þegar uppbyggingin er með þeim hætti, að það er stórlega dregið úr framlögum til þessara mála.