29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

Húsnæðismál menntaskóla o.fl.

Forseti (EystJ):

Ég vil aðeins taka það fram út af umr. utan dagskrár, að í rauninni er ekki gert ráð fyrir þeim í þingsköpum, en það hefur ævinlega verið leyft, að umr. færu fram utan dagskrár. En það hefur líka ævinlega verið gert í því trausti, að hv. þm. tækju ekki upp umr. utan dagskrár, nema um sérlega aðkallandi mál væri að ræða, sem ekki þyldu þinglega bið, ef svo mætti að orði komast, og enn fremur í því sérstaka trausti, að hv. þm. takmörkuðu mál sitt, töluðu stutt. Vona ég, að svo verði framvegis, að þannig geti þetta orðið. Það er aðeins gert ráð fyrir 5 mínútna ræðutíma við þinglegar fsp. og ætla ég, að hv. þm. hljóti að láta sér skiljast, að í rauninni á ræðutími í sambandi við fsp. utan dagskrár helzt ekki að vera nema tilsvarandi. Ég vona, að góð samvinna verði um þessi efni framvegis eins og verið hefur hingað til — að kalla má.