22.11.1971
Efri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hef hlustað með mikilli athygli á ræðu hæstv. forsrh., enda er hún með einstæðari ræðum, sem ég hef heyrt fluttar í sambandi við mál hér á þingi, ekki vegna þess að hún væri ekki í samræmi við þá prúðmennsku, sem hann alltaf viðhefur, heldur vegna þess að höfuðinnihald hennar var að leggja áherzlu á, hvað ekki væri í þessu frv. Ég hef ekki heyrt, að ráðamenn, allra sízt forráðamenn ríkisstj., hafi áður talað fyrir frv. af jafnmikilli óttatilfinningu um það, hvað menn mundu leggja í frv. Hæstv. forsrh. taldi í lok ræðu sinnar upp ótal atriði, sem í frv. væru, og sagði: „Hver vill vera á móti því?“ Flestu af því eru menn alls ekki á móti. En hann hljóp líka yfir ákaflega einkennilega margar setningar, sem eru í frv., og spurði ekki: „Hver vill vera á móti því.“ Sannleikurinn er líka sá, að ef þetta frv. væri í samræmi við þá ræðu, sem hæstv. forsrh. hélt, þá þyrfti þetta frv. aldrei að hafa verið flutt. En einmitt vegna þess að frv. er um allt annað efni en hæstv. ráðh. vill vera láta, er nauðsynlegt að flytja það.

Efni frv. er að mörgu leyti ákaflega fallegt, eins og hæstv. ráðh. líka flutti ákaflega fallega tölu um alls konar atriði, sem suðvitað enginn getur verið á móti, að sé nauðsynlegt að gera í þjóðfélaginu. En þetta eru raunverulega aðeins umbúðir til þess að fela raunverulegan tilgang þessa máls. Og allir vita, hver er tilgangur málsins, hvað sem hæstv. forsrh. segir. Ef það væri ekki tilgangurinn, væri málið óþarft. Ef skoða á það, sem hæstv. ráðh. sérstaklega taldi, að væri einkennandi fyrir frv., er allt slíkt að finna í þjóðfélaginu í dag. Hann rakti réttilega einmitt í ræðu sinni margt af því, sem gert hefur verið á undanförnum árum í jákvæða átt, bæði í áætlanagerð, í skipulagningu lánveitinga og heilbrigðum stuðningi við atvinnuvegina, og taldi það hið brýnasta nauðsynjamál, sem það vissulega líka er. Það er ekkert nýtt, að stundaðar séu hagrannsóknir, sem vissulega hafa grundvallarþýðingu fyrir þjóðfélagið. Þessum hagrannsóknum var komið í skipulegt horf í tíð fyrrv. ríkisstj. með því að setja Efnahagsstofnunina á laggirnar, en sú stofnun hefur æðioft orðið fyrir barðinu á hv. núv. stjórnarflokkum og stundum á það bent, að hún væri dæmi um skriffinnskubákn, sem fyrrv. ríkisstj. hefði komið á laggirnar. Efnahagsstofnunin hefur stundað hagrannsóknir í lengri tíma, og það er ekkert nýtt að finna í þessu frv. um það hlutverk, þó að það eigi að færast frá henni til þessarar nýju stofnunar. Það er heldur ekkert nýtt fyrirbæri, að gerðar séu áætlanir. Þeim var komið í gang einmitt í tíð fyrrv. ríkisstj. með skipulagsbundnum hætti, margvíslegum áætlanagerðum bæði til langs tíma og til skamms tíma, almennum áætlunum um þróun einstakra atvinnuvega, áætlunum um þróun og framkvæmdir í ýmsum greinum, sem ríkið stendur að, svo sem áætlunum í skólamálum, hafnamálum og margvíslegum öðrum slíkum áætlanagerðum, árlegum fjárfestingaráætlunum fyrir ríkið sjálft og áætlunum um eflingu ýmissa einstakra atvinnugreina. Ekkert af þessu er nýtt. Og það hefur þróazt með heilbrigðum hætti án beinna afskipta, sem hæstv. forsrh. fordæmdi líka í ræðu sinni, af einstökum aðilum í þjóðfélaginu, heldur til að vera upplýsandi um stöðu þjóðfélagsins að þessu leyti, um stöðu atvinnuveganna, og má þar nefna mikilvægasta þáttinn, sem ég tel vera að mörgu leyti, í starfi Efnahagsstofnunarinnar, en það er fjölþætt upplýsinga- og gagnasöfnun, sem átt hefur sér stað í þágu atvinnuveganna til að auðvelda kjarasamninga, til að auðvelda ákvörðun bæði búvöruverðs og verð sjávarafurða, sem byggt hefur verið að verulegu leyti á gögnum Efnahagsstofnunarinnar. Með þessum hætti hefur á jákvæðan hátt verið stuðlað að geysilega mikilvægri gagnasöfnun í þjóðfélaginu og jafnframt stuðlað að því, að bæði einstaklingar og ekki sízt félagasamtök gætu átt aðgang að hlutiægum upplýsingum, sem væri hægt að leggja til grundvallar í kjarasamningum og ákvarðanatöku í ýmsum framkvæmdagreinum. Þetta hefur hvort tveggja verið til. Það er ekkert nýtt fyrirbæri.

Það er heldur ekkert nýtt fyrirbæri starfsemi Framkvæmdasjóðsins, sem er einn þáttur þessa máls og hæstv. ráðh. fór að vísu ekki mörgum orðum um, en hann benti á, að þetta væri í samræmi við það, sem hefði þegar gilt um nokkurt árabil. Framkvæmdasjóðurinn hefur haft það hlutverk, sem hæstv. ráðh. lagði áherzlu á að væri mjög mikilvægt, að greiða fyrir fjáröflun til hinna ýmsu sjóða atvinnuveganna, og það er ekkert nýtt, sem á að gerast með þessum lögum varðandi það atriði. Það er ekki gert ráð fyrir nema samvinnu við aðra sjóði, ekki neinum samruna þeirra við þessa nýju stofnun, heldur aðeins samstarfi og að Framkvæmdasjóðurinn hafi áfram það hlutverk, eða þessi nýja stofnun, að útvega fé til stofnsjóða atvinnuvega. Þetta er því ekki nýtt, og það getur enginn verið á móti þessu.

Um Byggðasjóð hafa gilt lög um Atvinnujöfnunarsjóð, en einmitt sá sjóður var stofnsettur í tíð fyrrv. ríkisstj., og hann hefur verið efldur smám saman mjög verulega og síðast mest með ákvörðuninni um árgjaldið frá Straumsvík, sem rennur í sjóðinn, og vissulega skal ég taka undir það með hæstv. forsrh., að þessi sjóður hefur unnið mjög mikið gagn, og það ber fúslega að þakka, að það er ætlunin að efla þennan sjóð með þessu frv., sem reynslan verður þó að leiða í ljós, ef ætlunin er að leggja á sjóðinn auknar kvaðir, sem ég vænti þó, að verði ekki, þ.e. með þeim hætti, að sjóðnum verði ætlað að taka að sér hlutverk, sem aðrir aðilar gegna nú. Byggðaáætlanir hafa verið gerðar á undanförnum árum, og þær hafa sannarlega ekki orðið nein pappírsplögg, heldur hafa þær verið framkvæmdar jafnóðum og þeim hefur verið lokið. Að undanförnu hefur verið unnið að margvíslegum áætlanagerðum fyrir einstaka þætti mála varðandi einstök byggðarlög, einstaka framleiðslugreinar og ýmsa aðila í þjóðfélaginu, eftir því sem efni hafa staðið til hverju sinni. Ekkert af þessu er því nýtt — það hefur vissulega með öllum þessum aðgerðum verið reynt að greiða fyrir einkaframtakinu og efla þróun atvinnu- og efnahagslífs í þjóðfélaginu, eins og hæstv. forsrh. sagði, að væri brýn nauðsyn, þannig að ekkert af því er heldur nýtt.

Skoðun mín er því ákveðið sú, að ef ekki felst eitthvað annað en þetta, sem hæstv. ráðh. fór um langflestum orðum í þessu frv., þá sé það gersamlega ástæðulaust og þarflaust. Það er talað um nauðsyn þess að sameina sjóði. Það kemur á daginn, að enga þá sjóði á að sameina með þessu frv., sem réttlæta það, að um það sé flutt sérstakt frv., svo sem hér liggur fyrir framan okkur. Varðandi þá tvo sjóði, sem er ætlunin að sameina hér, þá hafa aldrei orðið árekstrar á milli þeirra, og þeir hafa alveg sérstöku og sérhæfðu hlutverki að gegna. Annar er sjóður sjóðanna, hann aflar fjár einmitt fyrir aðra stofnsjóði, sem ætlunin er, að hann geri áfram. Hinn sjóðurinn, Atvinnujöfnunarsjóður, hefur starfað undir þingkjörinni stjórn að alveg ákveðnum verkefnum, þar sem hann hefur leyst einmitt af höndum verk, sem ekki hefur fallið undir aðra sjóði að gera, og hefur haft með höndum framkvæmd byggðaáætlana. Það er ekki gert ráð fyrir því í rauninni, að nein breyting verði á þessu, þó að hér sé látið heita svo, að verið sé að sameina þessa tvo sjóði undir þessari stofnun. Byggðaáætlanir hafa verið á vegum Efnahagsstofnunarinnar og Atvinnujöfnunarsjóðs, að svo miklu leyti sem ríkisstj. sjálf hefur ekki að því staðið. Að því mætti áfram vinna fullkomlega eins og gert hefur verið og verður naumast unnið með meiri hraða að þeim en gert hefur verið til þessa með núverandi skipulagi. Það þarf því enga nýja löggjöf til þess að koma þessu við. Og með þessari löggjöf sem slíkri, ef annað felst ekki í henni varðandi sjóðina, er ekki stuðlað að neinni samræmingu, sem hæstv. forsrh. gat um, þannig að menn þurfi ekki að ganga milli Péturs og Páls til þess að fá lausn sinna fjármála, sem vissulega er hárrétt hjá hæstv. forsrh., að er mikill galli. En það leysist ekki með því að sameina undir þetta kerfi hér Framkvæmdasjóð Íslands og Atvinnujöfnunarsjóð. Það þarf jafn mikla Kanossagöngu eftir sem áður milli annarra sjóða, og í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að sameina aðra sjóði. Hæstv. forsrh. sagði að vísu um þetta atriði eins og ýmislegt annað, að það væri í athugun og ætti að gerast eftir því sem reynslan leiddi í ljós, en það er a.m.k. ekki lagt til hér, þannig að Kanossagangan milli allra þeirra mörgu sjóða, sem hann sjálfur taldi upp í ræðu sinni, mun halda áfram eftir sem áður, nema eitthvað annað felist í þessu frv. en hann vill vera láta.

Þetta er um umbúðir málsins, sem hæstv. forsrh. lagði mesta áherzlu á, en þá er að víkja að því, sem hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri í frv. Af hverju skyldi hæstv. ráðh. leggja svona óskaplega áherzlu á að svara því fyrir fram, áður en nokkur hefur hafið máls á þessu frv. a.m.k. hér á hinu háa Alþ., hvað ekki væri í frv., nema af því að hann sé hræddur um, að þar séu einhverjir hlutir, sem hinn almenni þjóðfélagsborgari óski ekki eftir, að sé leitt í lög, en sem kunni að vera í þessu frv. og í ýmsum setningum frv., sem hæstv. ráðh. las ekki og forðaðist að gera að umtalsefni í sinni ræðu? Og ég held, að það sé kjarni málsins, að það hafi verið full ástæða fyrir hæstv. ráðh. að leggja svo ríka áherzlu á, hvað ekki væri í frv., því að þar sé nefnilega að finna atriði, sem eru í hrópandi mótsögn við alla ræðu hans, í hrópandi mótsögn við áhugann á eflingu atvinnulífsins, í hrópandi mótsögn við stuðninginn við einstaklingsframtak og frjálst félagaframtak í landinu. Það skyldi nú ekki vera, að einmitt þetta væri í frv.? Má vera, að ég hafi lesið þetta frv. skakkt og lagt í það skakkan skilning, enda er það harla auðvelt, vegna þess að sannleikurinn er sá, að frv. er fjarri því að vera samið á þann hátt, að auðvelt sé að skilja það. Hvort það er viljandi gert eða af klaufaskap, skal ég láta algerlega ósagt. Sumt er að vísu af klaufaskap, eins og það, að það kemur fram sums staðar, að höfundarnir þekkja ekki gildandi lög. En sleppum því. Höfundarnir eru óþekktir eins og höfundar Íslendingasagna. Hvort þeir fá sömu frægð af þessu frv. sínu eins og höfundar Íslendingasagna af þeim merku bókmenntum, skal ég láta ósagt. Þar mun reynslan skera úr. En það er kannske heppilegt fyrir þá að fela nöfn sin og heppilegt fyrir ríkisstj. að skýra ekki frá því, hverjir helzt hafi komið hér við sögu.

Skilningur minn á þessu frv. er allt annar en skilningur hæstv. forsrh. Samkv. mínum skilningi er með þessu frv. verið í fyrsta lagi að setja á laggirnar geysilegt skrifstofubákn algerlega að óþörfu. Í öðru lagi er verið að framkvæma slíkan samruna valds á einni hendi, að ég efast um, að áður hafi verið meira á mestu haftatímum, sem við höfum búið við. Og í þriðja lagi, sem er að vísu tengt þessu öðru atriði, er í frv. að finna möguleika til stórfelldra ríkisafskipta, ef ekki er beinlínis gert ráð fyrir þeim, þó að reynt sé að fela það, jafnvel stórfelldari ríkisafskipta en við áður höfum búið við. Og það skyldi nú ekki vera, að hrollvekjan sé loksins komin á dagskrá og felist í þessu frv., hrollvekjan fyrir allan landslýð og ekki sízt fyrir þá, sem hæstv. forsrh. virtist helzt bera fyrir brjósti, mennina, sem legðu áherzlu á að vinna að eflingu atvinnulífs, framtaks og framfara í þjóðfélaginu.

Ég skal nú víkja að einstökum atriðum þessa máls. Það er alveg ljóst, að þessi stofnun mun verða geysilega dýr, ef henni er ætlað að starfa eins og frv. gerir ráð fyrir og setja skal á laggirnar alla þá starfsemi, sem þar er um fjallað. Nú er þetta starf unnið með tiltölulega litlum kostnaði. Efnahagsstofnunin er að vísu nokkuð dýr stofnun, en bæði Framkvæmdasjóður og Atvinnujöfnunarsjóður eru tengdir bönkum, Framkvæmdasjóður Seðlabankanum og Atvinnujöfnunarsjóður Landsbankanum, og eru reknir mjög hagkvæmt báðir. Það er að vísu gert ráð fyrir því, að í stað tveggja stjórna, sem nú eru yfir þessum sjóðum, verði stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins ein, skipuð sjö mönnum. En það segir ekki nema litla sögu. Forstöðumenn eiga að sjálfsögðu að vera fyrir hverri deild stofnunarinnar. Og þær deildir eru fimm. En það, sem skiptir þó meginmáli, eru hinir pólitísku kommissarar. Það eru mennirnir þrír, sem eiga öllu að ráða. Af hverju skyldu þeir vera þrír? Af hverju máttu þeir ekki vera tveir eða fjórir? Það skyldi þó ekki vera af því, að ríkisstjórnarflokkarnir eru þrír? Hér er að finna gleggsta dæmið um pólitíska óbragðið af þessu máli. Hér eru settir á laggirnar, eins og ég kallaði þá, kommissarar af því að þetta minnir ákaflega mikið á skipulag í vissum hópi ríkja, sem eiga ráðamestu aðdáendur í hæstv. núv. ríkisstj. Og það er eftirtektarvert, eins og einmitt er um kommissara í þeim ríkjum, að það verður ekki séð, hvaða hlutverki þeir gegna. Ég býst að vísu ekki við, að það verði eins og stundum í rússnesku sendiráðunum, að það sé bilstjórinn, sem ræður og sé æðstur, það er ekki reynt að fela það. En mér er óskiljanlegt í rauninni, hvað þessir menn hafa hér að gera, ef þeir eiga ekki að vera hér sem pólitískir eftirlitsmenn, sem sjái til þess, sem stofnununum er ekki treystandi til, að ekkert gerist, nema það sé í anda ríkjandi stjórnarflokka. Það eru forstöðumenn fyrir hverri deild, og siðan er stjórn yfir stofnuninni. Af hverju þurfa þessir menn að vera hér? Hvað eiga þeir að gera? Það er ákaflega óljóst, hvað þessir menn eiga í rauninni að gera. Og það verður dálítið afkáralegt, þegar það er borið saman við rök, sem er að finna í grg. frv., að allt eigi þetta að stuðla að því að gera leiðina til keisarans skemmri, ef svo má segja, að hraða ákvarðanatöku og sjá til þess, að Kanossagangan verði ekki allt of löng. Er nú líklegt, að það hraði ákvörðun frá því, sem nú er, að fyrst þurfi mál að ganga til deildarstjóra viðkomandi stofnunar, svo að við sleppum nú starfsliðinu. Síðan þarf það að ganga til kommissaranna. Þá þarf það að ganga til hinnar stjóraskipuðu nefndar, a.m.k. ef kommisörunum þóknast það, og síðan á það að ganga til rn. Ég held, að þetta sé orðin nokkuð löng og torsótt ganga og í litlu samræmi við það, að þessu frv. sé ætlað að auðvelda framtaksmönnum í þjóðfélaginu að koma góðum hugmyndum á framfæri.

Þetta læt ég nægja um hina pólítísku kommissara, en legg aðeins áherzlu á það, að þeir fara að sjálfsögðu með valdið, enda er ekki farið dult með það í rauninni í grg. Þeir eiga að vera gæzlustjórar ríkisstj. um það, hvernig þróunin í þjóðfélaginu verður og hvað menn fái að gera og fái ekki að gera. Nú er það að vísu ekki ljóst, sem hæstv. forsrh. vafalaust getur þó upplýst, þar sem hér er um algerlega pólitískt ráð að ræða, hvort ætlunin sé, að þessir menn séu embættismenn eða hvort þeir eigi að fylgja ráðherrum úr sínum stóli, eins og aðstoðarráðherrar eiga að gera.

Ég álít, að fyrirhuguð breyting á Efnahagsstofnuninni sé mjög til hins verra. Það hefur verið reynt að byggja Efnahagsstofnunina upp sem ópólitíska stofnun. Hún er að vísu undir sérstakri stjórn, en sú stjórn er ópólitísk, þ.e. embættismannastjórn, og stjórn þeirra aðila, sem mest hafa skipti við stofnunina, eða fulltrúa frá þeim aðilum, sem mest hafa skipti við stofnunina, og einmitt sett á laggirnar til þess að samrýma og samræma starfsemi Efnahagsstofnunarinnar og þessara annarra þjóðfélagsstofnana, bæði fjmrn., Hagstofu og Seðlabanka. Og ég álit, að mesti kosturinn við að koma Efnahagsstofnuninni á laggirnar og hvernig hún hefur starfað, sé fyrst og fremst sá, að það hefur verið reynt að skipa þannig málum, að stofnunin hefði ekki pólitískan blæ. Auðvitað vinnur hún að áætlanagerð fyrir ríkisstj., alveg eins og hér er gert ráð fyrir. Og ég álít, að það sé þjóðarnauðsyn, að slík stofnun sé svo hlutlaus í mati sínu á staðreyndum, að hinir ýmsu aðilar í þjóðfélaginu, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, hvort sem þeir eru vinnuveitendur eða launþegar eða aðrir hópar, geti treyst því, að upplýsingar hennar séu réttar. Þess vegna álít ég, að hér sé stígið spor aftur á bak að setja þessa stofnun undir þennan pólitíska hatt, sem hér er gert ráð fyrir, enda gersamlega óþarft, nema það þurfi að gera þetta til þess að skapa umbúðir um málið, og er mjög leitt, að til þessa úrræðis skuli hafa verið gripið í því efni.

Ég álít einnig, að það sé skakkt að leggja niður Hagráð. Það hefur kannske ekki unnið neitt óskapagagn, en þar koma saman fulltrúar bæði stjórnmálaflokka og atvinnuvega úr öllum greinum þjóðfélagsins til þess að hera saman ráð sín, og Efnahagsstofnunin hefur sem ópólitískur aðili verið látin leiða starfsemi Hagráðs og undirbúa skýrslur fyrir fundi þessa, og ég fullyrði það, að margt gott hafi komið út úr þeim skoðanaskiptum, sem þar hafa átt sér stað. Nú er slíkt úr sögunni. Þarna var um frjáls skoðanaskipti að ræða, sem höfðu veigamikla þýðingu. Nú er ljóst, að um það getur ekki orðið að ræða, þar sem Hagráð er úr sögunni og Efnahagsstofnunin er orðin pólitísk deild nánast undir hæstv. ríkisstj. og undir stjórn þessara pólitísku kommissara, sem ég vék að.

Varðandi það atriði, sem ég gat um, að svo virtist sem þeir, sem sömdu þetta frv., hafi ekki verið ýkja fróðir um ýmsa löggjöf, þá sýnist mér, að þeim ágætu mönnum hafi láðst að gera sér grein fyrir því samkv. 9. gr. frv., að það er önnur stofnun nú en Efnahagsstofnunin, sem vinnur að áætlanagerð fyrir opinbera aðila í sambandi við framkvæmdaáætlanir hvers árs. Það er fjárlaga- og hagsýslustofnunin, og það er gert ráð fyrir því í lögum um Stjórnarráð Íslands. Það hefur kannske farið fram hjá mér, en það virðist gengið út frá því í grg., að það sé Efnahagsstofnunin, sem gerir þessar áætlanir.

Hitt er annað mál, sem ég sé nú lítið um í þessu frv. og raunar hvergi nokkurs staðar minnzt á, held ég, það er hver eigi að annast tekjuáætlun. Væntanlega er þó ætlunin að fá einhverja peninga til að starfa með í öllum þessum deildum og stofnunum, þó að það hafi að vísu láðst hjá hæstv. ríkisstj. til þessa að leggja mikla áherzlu á að sjá fyrir fé. En það má nú væntanlega skilja það af eðli málsins, að áætlanir eigi einnig að ná til fjáröflunar. Ég skal nú ekki ræða meira um það.

Hæstv. forsrh. fannst nafnið á IV. kafla kannske ekki alveg heppilegt eða ná því, sem væri efni kaflans, að kalla hann lánadeild, og ég er honum ákaflega sammála um það, því að þetta nafn er mjög fráleitt. Það er hins vegar áferðarfallegt, að menn geti fengið lán. En þessi kafli ætti frekar að heita eftirlitsdeild eða skipulagningardeild. Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja, þó að menn geri sér grein fyrir því, alveg eins og gert er í dag og hefur verið gert undanfarin ár, hvaða framkvæmdir séu mikilvægastar í þjóðfélaginu. Og hinir ýmsu sjóðir, sem starfa í þágu atvinnuveganna, sinna verkefnum í samræmi við þetta. Og ég sé í rauninni ekki, að það út af fyrir sig breytist neitt, eins og ég gat um áðan, með þessu frv., þar sem allir þessir sjóðir eiga að nafninu til að vera sjáifstæðir áfram. En það, sem er andstætt vilja manna, og það skilur hæstv. forsrh. mjög vel, er það, að upp verði tekið nýtt hafta- og leyfakerfi. Hæstv. ráðh. segir, að það felist ekki í þessu frv. Ég skil nú satt að segja ekki, hvað frv. felur þá í sér. Það er talað í því um heildarstjórn fjárfestingarmála, og það er lögð rík áherzla á, að hér eigi nú að verða alger breyting á frá því, sem nú sé, vegna þess að það eigi að taka upp heildarstjórn á fjárfestingarmálum, og það á að vísu að vinnast með því að koma undir eina stjórn stofnunum og sjóðum, sem til þessa hafa starfað sjálfstætt. Það virðist að vísu svo sem höfundur grg. hafi ekki vitað, hvað stóð í frv. sjálfu, vegna þess að þar er ekki um neina slíka samræmingu eða sameiningu sjóða að ræða, eins og ég hef áður vikið að. Og stofnunin á að hafa frumkvæði í atvinnumálum. Allt getur þetta verið gott og blessað. Samræming útlána opinbetra stofnlánasjóða og samvinna við þá, þetta er allt ágætt. En þetta er það, sem Framkvæmdasjóður annars vegar og Seðlabankinn hins vegar vinna að nú. Og það er hægt að ná þessu markmiði með almennum reglum alveg án þess að setja ný lög. Hér er auðvitað ekkert launungarmál, að stefnt er að því að vega að Seðlabankanum. Skal ég láta ósagt, hvort það sé til góðs eða ills. Sennilega hlýtur að koma eitthvað í framhaldi af því um Seðlabankann, vegna þess að í 15, gr. frv. segir, að stefna framkvæmdavaldsins, kommissaranna, skuli miða að því að verða til eflingar íslenzku efnahags- og atvinnulífi. Og það er víða talað um efnahagslíf. Ég held, að það geti ekki farið fram hjá neinum. Það er hægt út af fyrir sig að tala um framkvæmdir, en skipulag efnahagslífsins og stjórn þess er lögum samkv. nú í höndum Seðlabankans, þ.e. stjórn peningamálanna og samræming í starfi opinberra sjóða og banka. Hér er gert ráð fyrir því, að þessi nýja lánadeild taki upp samvinnu við aðra sjóði um hagræðingu og tilhögun lána. Er ætlunin að taka þetta vald af Seðlabankanum? Á kannske að leggja Seðlabankann niður? Eða hvernig á að samræma? Þarna finnst mér vera augljós skortur á samræmingu, þótt látið sé liggja á milli hluta, hvort þetta er gott eða illt. Og hér hlytu að koma til mjög verulegir árekstrar eða a.m.k. hætta á árekstrum, og hvorir skulu þá ráða, kommissarar eða Seðlabankinn? Hér er sagt í 12. gr., að Framkvæmdastofnunin geti sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgöngu umfram aðrar. Sennilega er þetta nú rúsínan í þessu öllu saman, þó að það sé Ljóst, að þetta beri ekki jafn góðan ávöxt og rúsínur. Hæstv. forsrh. segir, að þetta eigi ekki að merkja það að hafa eftirlit og hafa höft. En hvernig er hægt að útfæra þessar almennu reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar? „Skulu þá opinberir sjóðir og lánastofnanir haga lánveitingum í samræmi við það. Engri stofnun er þó skylt að veita lán, sem hún ekki telur eðlilega tryggð.“ Það er merkileg setning. E.t.v. ætlar hæstv. forsrh. að gæta þess jafnvendilega og hann gerði í sinni ræðu, að kommissararnir misstigi sig ekki og fari ekki að taka sér of mikið vald. Eftir þessu að dæma er nú hægt að ganga nokkuð langt í að setja reglur um, að tiltekin mannvirki skuli ekki leyfð á tilteknum stöðum, og það er hægt að gera þetta án þess beinlínis að banna þetta ákveðnum aðilum eða hafa leyfaveitingar. Ég vil í þessu sambandi minna á, að við settum löggjöf, sem var mjög svipuð þessari, beinlínis með það í huga að geta ráðið yfir því, hvaða atvinnufyrirtæki væru sett á laggirnar, og það var í sambandi við EFTA. Og þá voru allir hjartanlega sammála um, að það væri hægt að ná þessum tilgangi með svipuðu orðalagi og hér er um að ræða, að hindra það, að fyrirtækin væru sett á laggirnar, sem við vorum þá sammála um, að rétt væri að gera gagnvart útlendingum, ef valdhöfunum þætti það ekki henta, þannig að hér er auðvitað hægt að ná með þessum ákvæðum algerlega því markmiði, sem ég vil halda fram, að sé aðalatriði þessa máls, þ.e. að ráða yfir því, að hvaða framkvæmdum er unnið í landinu og hverjir fá að vinna að þeim. Auk þess segir 13. gr., að lánadeildin annist rannsóknir á arðsemi og þjóðhagslegu gildi nýrra atvinnugreina og fyrirtækja, sem fyrirhugað er að setja á stofn, í samráði við hagdeildir bankanna o.s.frv. En hlýtur þá ekki matið á þessu að verða þannig, að ef þessir voldugu kommissarar telja ekki rétt að setja þessar nýju atvinnugreinar á laggirnar, þá er a.m.k. alveg ljóst, að með þessu ákvæði hafa þeir í hendi sinni líf og dauða alka þeirra, sem hugsa sér einhverjar nýjungar? Þetta rekst að vísu dálítið einkennilega á ákvæði 7. gr. hjá áætlanadeildinni, að hún eigi að gera áætlanir um uppbyggingu og þróun mikilvægustu atvinnugreina og heildarþróun atvinnulífsins, en lánadeildin á að annast rannsóknir á arðsemi og þjóðhagslegu gildi nýrra atvinnugreina. Hvor á að ráða, ef þarna ber á milli? Líklega kommissararnir.

Þá er enn ein ástæða til þess að óska eftir upplýsingum um ákveðið atriði, vegna þess að ég get ekki fundið það í frv., — kannske er það skilningsleysi mitt, — en það segir í 3. mgr. 12. gr., að Framkvæmdastofnunin geti sett almennar reglur. Hvað er Framkvæmdastofnunin í þessu tilfelli? Er það framkvæmdaráðið, svo að ég noti nú það fina orð, eða er það stjórn stofnunarinnar? Ég fæ ekki séð gerla, hvað við er átt með þessu, þó að þetta skipti nú kannske ekki öllu máli.

Þá hef ég áður vikið að því, sem hæstv. forsrh. ræddi einnig um í máli sínu, að til þess að ná samvinnu um lánveitingar til mikilvægra framkvæmda, sem við erum algerlega sammála um, þá sé samstarf æskilegt milli hinna ýmsu lánastofnana í landinu. Ég hef áður leitt rök að því, að þetta frv. leysir ekkert í þeim efnum, ekki neitt, því að það nær ekki til nema tveggja sjóða. Annars vegar er sjóður annarra sjóða, Framkvæmdasjóðurinn, og hins vegar Byggðasjóðurinn, sem aldrei hefur lent í árekstrum við aðra sjóði og sem kannske einna mest allra sjóða í landinu hefur lagt áherslu á að efna til samstarfs við aðra sjóði. En allur sá fjöldi sjóða, sem starfandi eru, er enn utan við þetta kerfi. T.d. vil ég nú benda á eitt atriði, sem hlýtur að hafa komið til álita og mér þykir ótrúlegt, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki tekið til sérstakrar meðferðar, og það er að setja reglur um ráðstöfun á fé lífeyrissjóða. Það eru heldur engar reglur ákveðnar um ráðstöfun á fé Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég veit ekki, hvort ætlunin er t.d., að Atvinnuleysistryggingasjóður ráðstafi áfram í samráði við Atvinnujöfnunarsjóð, eða svokallaðan Byggðasjóð, þeim fjórða hluta af tekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem hann ráðstafar nú og er raunverulega hluti af núverandi tekjum Atvinnujöfnunarsjóðs. Það verður ekki séð af þessu frv. En lífeyrissjóðirnir eru að verða svo geysilegt bákn í þjóðfélagi okkar, að burtséð frá þessu máli út af fyrir sig væri alveg brýn nauðsyn að gera sér grein fyrir því, hvert þetta mikla fjármagn eigi að stefna til uppbyggingar í íslenzku þjóðfélagi, því að Atvinnuleysistryggingasjóður og lífeyrissjóðirnir munu smám saman safna til sín svo geysilegu fjármagni, að það hlýtur að verða nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið að setja um það ákveðnar reglur, hvert það skuli beinast.

Varðandi það, að ætlunin sé, sem vissulega er fallegt og gott, eins og margt annað, sem hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, að hvetja til þess, að sem flestir vísindamenn og lærðir sérfræðingar í þjóðfélaginu vilji ganga til starfa hjá ríkinu, þó að það hafi nú að vísu hingað til verið kallað útþensla í ríkiskerfinu, þegar aðrir hafa átt hlut að máli, — sleppum því, ég skal ekki nota það orð og ekki ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir það, þó að hún bæti við nokkrum sérfræðingum, — held ég sannast sagna, að þetta frv. sé hægasta leiðin til að koma í veg fyrir, að þeir vilji koma þar til starfa. Því að hvaða maður vill starfa undir þessu skipulagi, sem hér er gert ráð fyrir? Það eru settir sérfræðingar yfir þessar deildir, sem hér eru nefndar í þessu frv., svo sem gerist um margar aðrar stofnanir, og við erum svo heppnir að hafa nú mjög færa menn t.d. í Efnahagsstofnuninni, sem veita deildum þar forustu, Framkvæmdasjóði líka og Seðlabankanum, marga mjög færa menn. En halda menn nú, að það verði sérstakur hvati fyrir þessa menn, þegar þeir eiga að fara að hafa yfir sér sérstaka kommissara, sem a.m.k. með allri virðingu fyrir þeim mönnum, hverjir sem þeir kunna að verða, eru ekki líklegir til að hafa mikla sérþekkingu á öllum þeim málum, sem hér koma til meðferðar. Er það líklegt, að þetta verði fremur til að laða að slíka menn en það mundi hafa verið eins og er nú, að þessir menn eiga beinan aðgang að sínum rn. milliliðalaust, og einmitt lög um Stjórnarráð Íslands, sem voru sett hér með samþykki allra flokka, beindust að meginefni til í þá átt, að stofnanirnar ættu sem mest beint undir rn. að sækja, milliliðalaust, og þess vegna voru nn. efld. Nú er ekki sjáanlegt, að það sé ætlunin hjá hæstv. ríkisstj. að draga úr eflingu rn., nema síður sé. Þar hefur bæði verið bætt við mönnum, og ég tala nú ekki um aðstoðarráðherrana. En í ofanálag eiga svo þessir milliliðir að koma til, stjórn þessarar stofnunar, þetta framkvæmdaráð eða kommissararnir, sem hér verða nýir milliliðir milli þessara sérfræðinga stofnananna og rn., en að lokum þarf að koma til þeirra kasta, því að væntanlega ætlar ríkisstj. ekki að afhenda þessum mönnum vald sitt. Það þarf þá að komast í gegnum þessar hindranir allar til þess að ná til hins æðsta valds, þ.e.a.s. ríkisstj. Ég held þess vegna, að einnig á þessu sviði sé með þessu verið að setja nýja þröskulda, skapa nýja erfiðleika og auk þess sé verið að seinka öllu og draga úr möguleikum til þess, að endanlegar ákvarðanir verði teknar í málum, eftir því sem milliliðunum fjölgar.

Eins og ég sagði áðan, þá ber vissulega að þakka eflingu Byggðasjóðs, sem hann á nú að heita, ef, eins og ég sagði, það er ekki ætlunin, að fé hans eigi að nota að einhverju leyti til þess að fullnægja þörfum, sem eðlilega er nú fullnægt af öðrum aðilum. Þetta sést ekki á þessu frv., og ég skal ekki vera með neinar getgátur um það, en ég segi, að það er aðeins með þessum fyrirvara, sem ber að þakka það. Það hefur að vísu dregið nokkuð úr þeim till., sem uppi hafa verið í þessu efni, um það, að 2% af ríkistekjum rynnu til sjóðsins, en látum það vera. Það er nú eins og annað, sem menn segja í stjórnarandstöðu, sem verður dálítið minna úr, þegar menn komast í stjórn, og skiptir minnstu máli í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð mín miklu fleiri. Árið 1960 var stefnt inn á nýjar brautir í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar, frá höftum til frjálsræðis. Þetta hefur haft í för með sér mesta framfaratímabíl í sögu íslenzku þjóðarinnar. Á þessum tíma hefur verið unnið bæði að áætlanagerð, hagrannsóknum, byggðaáætlunum og fjármögnunum hinna ýmsu stofnsjóða atvinnuveganna, eins og ég hef hér áður vikið að, og upphafið að flestu þessu er að finna á þessu stjórnartímabili frjálsræðis í landinu, sem ríkt hefur síðustu 12 árin. Með þessu frv., sem hér er lagt fram, er a.m.k. mikil hætta á, ef ekki víst, að horfið verði mörg ár aftur í tímann og tekin upp vinnubrögð, sem ekki eru tíðkuð í þróuðum þjóðfélögum nú á dögum. Áætlanagerð út af fyrir sig og höft og bönn út af fyrir sig eru vissulega, eins og hæstv. forsrh. sagði, tvennt, sem ekki þarf að fylgjast að, en mér sýnist eftir efni þessa frv., að það óhreina barnið, sem hæstv. forsrh. ekki sýndi í sinni ræðu, sé það barnið, sem eigi að ráða og marka stefnuna. Þess vegna óttast ég, að með þessu frv. sé horfið áratug aftur í tímann og frv: þetta geti orðið til að vera lamandi á allt framtak og framfarir í þjóðfélaginu. Það hefur aldrei verið til happs að setja upp pólitískar nefndir með jafn stórkostlegu valdi og gert er ráð fyrir, að þetta framkvæmdaráð eða hinir pólitísku kommissarar hér hafi, og þegar á að fara að stjórna vandamálunum eingöngu út frá flokkspólitískum línum, þannig að ekki hallist á milli flokka, eins og hér er tvímælalaust stefnt að, þá hefur það ætið leitt til ills. Sjálfstfl. er fylgjandi áætlanagerð, og hann er fylgjandi flestum þeim atriðum, sem hæstv. forsrh. taldi í sinni ræðu, að menn ættu að fylgja, og í rauninni flestu því, sem hann sagði í sinni ræðu. En hann er algjörlega andvígur því, sem er efni þessa máls, en sem hæstv. forsrh. sagði, að væri ekki efni málsins. Sjálfstfl. hefur alltaf hvatt til skynsamlegra vinnubragða, og það er þróun tímans, að í öllum atvinnurekstri sé tekin upp hagstjórn meiri en verið hefur, og hann hefur sýnt það með forgöngu sinni um þær stofnanir, sem hæstv. forsrh. vék að mjög rækilega og réttilega, þegar þær hafa verið settar á laggirnar. Hann er fylgjandi öllu þessu starfi og telur það horfa til góðs. En hann er á móti því og telur reynsluna hafa sannað það, að þegar gripið er til hafta, þegar gripið er til algerrar ríkisforsjár, þegar fáum mönnum er ætlað að ráða yfir öllu þjóðfélaginu og þróun þess og ákveða, hvað megi gera og ekki gera, þá hefur það leitt til ills, og þessu er Sjálfstfl. á móti. Sjálfstfl. telur, að hægt sé að ná öllu því góða, sem þarf að ná, öllu því, sem er til bóta og sem hæstv. forsrh. vék að í ræðu sinni, með gildandi lögum um þetta efni, e.t.v. með ýmsum minni háttar lagfæringum, en þetta mál hér stefni í algjörlega öfuga átt við það, sem hæstv. forsrh. gat um. Einmitt með hliðsjón af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að væri skoðun sín á því, hvernig ætti að vinna að þessum málum, þá teljum við sjálfstæðismenn, að við gerum honum beztan greiðann með því að vera á móti þessu frv. og væntum þess, að það takist hér í Alþ. að upplýsa svo málið, sem virðist ekki vera alveg ljóst fyrir hæstv. forsrh., að hann geri sér grein fyrir því, að með því að samþykkja það, þá er hann að vinna gegn því, sem hann telur þó að eigi að vera höfuðtilgangur heilbrigðra ríkisafskipta.