25.10.1971
Sameinað þing: 6. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Forseti (EystJ):

Haraldur Guðmundsson, fyrrv. alþm. og ráðh., andaðist í sjúkrahúsi hér í borg s. l. laugardag, 23. okt., 79 ára að aldri. Mun ég leyfa mér að minnast hans með nokkrum orðum.

Haraldur Guðmundsson var fæddur 26. júlí 1892 í Gufudal í Barðastrandarsýslu. Foreldrar hans voru Guðmundur prestur þar, síðar ritstjóri á Ísafirði Guðmundsson bónda á Litlu-Giljá í Húnavatnssýslu Eiríkssonar og kona hans Rebekka Jónsdóttir bónda og alþm. á Gautlöndum Sigurðssonar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri árið 1911 og stundaði síðan farkennslu á vetrum, en vegavinnu, síldarmat o. fl. á sumrum árin 1912–1919. Hann var gjaldkeri í útibúi Íslandsbanka á Ísafirði 1919–1923, blaðamaður í Reykjavík 1924, kaupfélagsstjóri í Reykjavík 1925–1927 og ritstjóri Alþýðublaðsins 1928–1931. Á árunum 1931–1934 var hann útibússtjóri Útvegsbanka Íslands á Seyðisfirði. Árið 1934 varð hann atvmrh. í rn. Hermanns Jónassonar og gegndi því starfi fram í marzmánuð 1938. Síðar á því ári varð hann forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og hafði forstöðu hennar með höndum fram á árið 1957, þegar hann var skipaður sendiherra Íslands í Noregi, Tékkóslóvakíu og Póllandi með aðsetri í Osló. Á árinu 1963 lét hann af sendi herrastörfum vegna aldurs og átti eftir það búsetu í Reykjavík.

Jafnframt umsvifa- og ábyrgðarmiklum aðalstörfum gegndi Haraldur Guðmundsson margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum um ævina. Hann var skipaður í ríkisgjaldanefnd 1927, í Landsbankanefnd 1928–1936 og í mþn. um tolla- og skattamál 1928. Árið 1938 var hann kosinn í Þingvallanefnd og sama ár í mþn. til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar. Árið 1942 tók hann sæti í mþn. um stjórnarskrármálið og mþn. um tryggingamál. Hann var bæjarfulltrúi á Ísafirði 1920–1924 og bæjarfulltrúi í Reykjavík 1926–1931 og 1942–1946. Í stjórn Alþýðusambands Íslands var hann 1924–1936 og 1938–1940. Hann var alþm. á árunum 1927–1946 og 1949–1957, var fyrst þm. Ísfirðinga, síðar Seyðfirðinga, þá landsk. þm. og loks þm. Reykv. Sat hann alls á 34 þingum. Hann var forseti Sþ. 1938–1941 og 1942–1943 og formaður Alþfl. var hann 1954–1956.

Haraldur Guðmundsson átti ættir að rekja til fjölhæfra gáfumanna og ólst upp á gagnmenntuðu heimili. Hann hreifst ungur af hugsjónum jafnaðarstefnunnar og stóð löngum í fararbroddi, þar sem barizt var undir hennar merki. Honum var trúað fyrir miklu í þeirri forustusveit, og hann vann heils hugar að sigri þess málstaðar, sem barizt var fyrir. Í sveitarstjórnum og á Alþ. fékk hann vettvang fyrir sína baráttu og lá þar ekki á liði sínu. Félagslegt öryggi var eitt helzta áhugamál hans og hann flutti snemma á Alþ. till. um alþýðutryggingar og á ráðherraárum sínum gafst honum kostur á að koma þeim málum á góðan rekspöl. Hann var athafnamikill og mikilhæfur ráðh. og hafði m. a. með höndum félagsmál og atvinnumál á tímum gagngerðra þjóðfélagsbreytinga. Það féll í hans hlut að hafa forustu um setningu fyrstu alþýðutryggingalaganna, sem mörkuðu tímamót í þeim efnum, og standa fyrir nýrri stórsókn í atvinnumálum til þess að vega á móti áhrifum kreppunnar miklu, eins mesta vandamáls þeirra tíma. Í forstjórastarfi Tryggingastofnunarinnar vann hann ötullega að umbótum á tryggingakerfinu og eftir að hann lét af sendiherrastörfum vann hann á vegum stjórnarvalda að könnun á stofnun lífeyrissjóðs fyrir alla landsmenn.

Sem stjórnmálaleiðtogi lét Haraldur Guðmundsson óteljandi mál til sín taka á Alþ. og utan þess, og var tvímælalaust áratugum saman einn af áhrifamestu mönnum í stjórnmálalífi landsins. Hann var afburða mælskumaður, skapmikill og heilsteyptur baráttumaður, rökfastur og hreinskilinn. Með einlægni sinni, góðvild og samningalipurð vann hann sér traust bæði samherja og andstæðinga, þótt oft stæði um hann styrr í hita baráttunnar. Við andlát hans á þjóðin á bak að sjá mikilhæfum stjórnmálaleiðtoga.

Ég vil biðja hv. þm. að minnast Haralds Guðmundssonar með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum.]