09.05.1972
Neðri deild: 73. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

Athugasemdir um þingstörf

Forseti (GilsG):

Áður en ég slít fundi, vil ég af marggefnu tilefni taka þetta fram:

Til þess að auðvelda þingstörf hef ég gjarnan haft þann hátt á að fresta atkvgr. um ágreiningsmál til næsta fundar, eftir að umr. fór fram, og hafa atkvgr. þá sem eitthvert fyrsta mál á öðrum fundi, sem þá hefur verið boðaður með prentaðri dagskrá. Þetta er einkum gert til þess að auðvelda hv. þdm. að vera viðstaddir atkvgr., svo að raunverulegur vilji meiri hl. þd. megi koma fram í hverju máli. Þá hef ég og hyllzt til þess, eins og löngum hefur verið háttur, að taka fyrir snemma á fundartíma þau mál, sem enginn ágreiningur er um og ætla má, að hægt verði að þoka áfram umræðulaust eða umræðulítið. En til þess að hægt sé að viðhafa þessi vinnubrögð, sem ég held, að séu skynsamleg, verður að ætlast til þess af hv. þdm., að þeir mæti vel og stundvíslega nema í algerum undantekningartilfellum og hafi þá tilkynnt forföll.

Jafnframt þessu vil ég leyfa mér að beina því til hv. þdm., að þeir hugleiði í fullri alvöru, og raunar beini ég því til hv. þm. Ed., sem mál mitt heyra, hvort ekki sé rétt að koma á þeirri reglu, að alþm. séu alls ekki til viðtals og svari alls ekki í síma, t. d. á tímabilinu kl. 2–3 þá daga, sem þingfundur er haldinn. Nú styttist óðum til þingloka. Enn eru allmörg mál óafgreidd, sem mér skilst þó, að þurfi að hljóta afgreiðslu á þessu þingi. Ég vil nú heita á hv. þdm. að stuðla að því með góðri fundarsókn og fundarsetu, að störfin geti gengið með eðlilegum hætti.

Mér þótti rétt að taka þetta fram, þegar svo vel er mætt eins og nú er.

Þá er dagskrá þessa fundar tæmd. Fundinum er slitið.