22.11.1971
Efri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Þessa frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, eins og fram hefur komið. Ég vil fyrir mitt leyti segja, að ég er mjög ánægður með, að frv. er komið fram og það þetta tímanlega. Þetta er mikið og stórt mál, sem hefur þurft að undirbúa mjög vandlega og orðið að líta í mjög horn, áður en frv. var samið.

Ekki þurfti heldur lengi að bíða viðbragða stjórnarandstöðunnar, einkum Sjálfstfl., við þessu frv. Við höfum lesið það í Morgunblaðinu, og við hlustuðum á það nú hjá hv. 2. þm. Norðurl. e.

Hv. þm. Ragnar Arnalds hafði ekkert við það að athuga, þótt nokkur hrollur færi um hv. 2. þm. Norðurl. e., en satt að segja er mér ekki vel við það. Það er e.t.v. vegna þess að við erum sessunautar. Ég ætla mér því í fáum orðum að reyna að fara yfir nokkur þau atriði, sem hann minntist á, ef ég mætti með því móti draga nokkuð úr þeim hrolli.

Satt að segja sýndist mér, að nota mætti sömu orð um málflutning hans og hann notaði um málflutning hæstv. forsrh. Mér fannst hann ræða mjög mikið um ýmislegt annað en í frv. er að finna. Mér virtist hann í raun og veru sjá grýlu í hverju horni.

Hv. þm. talaði um það, að hann sæi ekki annað en að þrátt fyrir frv. yrðu þeir, sem þurfa að sækja fjármagn í opinbera sjóði, að ganga frá einum til annars. Mér sýnist, að í 14. gr. þessa frv. sé a.m.k. gerð mjög virðingarverð tilraun til þess að reyna að koma í veg fyrir slíkt, þar sem lánadeildinni er falið að reyna að útvega fjármagn til framkvæmda, svo að nægilegt sé hverju sinni. Það er orðað svo, ef ég má lesa það, með leyfi forseta:

„Áður en lánveiting er samþykkt, beitir lánadeild sér fyrir að tryggja það með samningum við aðra fjárfestingarsjóði og lánastofnanir, að nægileg stofnlán fáist til framkvæmdarinnar og að eðlileg rekstrarfyrirgreiðsla fáist hjá viðskiptabanka.“

Ég tel þetta mjög mikilvægt ákvæði og einmitt til þess fallið að draga úr þeirri pílagrímsgöngu, sem svo mjög hefur tíðkazt hjá sjóðum hins opinbera upp á siðkastið, þar sem sá siður hefur yfirleitt verið á hafður að skera niður lánveitingar um verulegan hluta, a.m.k. helming, og láta svo þar við sitja og umsækjanda sjá um að afla þess, sem á vantar. Staðreyndin er áreiðanlega sú, að þær lánveitingar, sem þannig hafa orðið til, hafa ekki alltaf, og satt að segja mjög oft, ekki komið að tilætluðum notum.

Ég hef ritað hérna hjá mér, að hv. þm. taldi, að deildirnar yrðu fimm. Það vil ég leiðrétta. Þær eru þrjár. Þær eru rannsóknadeild, áætlanadeild og lánadeild. En þetta skiptir að sjálfsögðu engu máli. (MJ: Má ég skjóta fram í. Ég átti við sjóðina líka.) Já, það er rétt.

Ræðumaður fann að því, að í frv. væru engin ákvæði um það að afla fjár til hinna ýmsu framkvæmda og ýmsu sjóða. Mér sýnist þó, að í 12. gr. frv. sé þetta einmitt tilgangurinn, en þar segir:

„Lánadeild vinnur að því að samræma útlán allra opinberra stofnlánasjóða og að skipuleggja fjármagnsöflun til framkvæmda með sérstöku tilliti til þeirra framkvæmda, sem forgang þurfa að hafa samkv. áætlunum stofnunarinnar.“

Einnig er rætt um það, þegar frv. er gagnrýnt, að engin samræming sjóða eigi sér þar stað. Þetta tel ég, að sé víðs fjarri. Víða kemur fram í frv. og ekki sízt t.d. í 12. gr., sem ég las áðan, og víðar reyndar, að starfseminni er einmitt ætlað að taka upp mjög náið samstarf við hina ýmsu sjóði, sem starfandi eru í landinu, og koma þannig á þeirri samræmingu, sem mjög hefur verið ábótavant hjá okkur upp á síðkastið. Þetta tel ég vera eitt af merkari ákvæðum þessa frv. og vænti mikils af.

Einnig fannst mér nokkuð á því bera, þar sem í frv. eru lagðar linur, ef svo má að orði komast, að því sé slegið föstu sem einhverri grýlu, ef ég má nefna það svo, t.d. segir í 12. gr.: „Framkvæmdastofnunin getur sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar.“ Þetta var túlkað þannig, að Framkvæmdastofnunin setji reglur um það, hvort þessa byggingu megi reisa og aðra ekki. Ég skil ekki frv. þannig. Ég skil það eins og þarna stendur skrifað. Mér virðist það fullljóst, að stofnunin setur, eins og þarna segir, almennar reglur um framkvæmdir í landinu. Sýnist mér, að það hefði raunar fyrr mátt gera og sé mikilvægt ákvæði.

Einnig var að því fundið, að lánadeild annist rannsóknir á arðsemi og þjóðhagslegu gildi nýrra atvinnugreina og fyrirtækja, sem fyrirhugað er að setja á stofn, sem segir í 13. gr., og þótti mér það satt að segja undarlegt. Ég trúi því varla að athuguðu máli, að unnt sé að finna að þessu ákvæði. Er ekki nauðsynlegt, og hefur því ekki raunar verið mjög ábótavant hjá okkur, að fyrirtæki, sem leita til banka og sjóða um stofnlán, hafi í fyrsta lagi lagt fram sjálf nægilega ítarlegar athuganir á arðsemi þeirra fyrirtækja, sem setja á á stofn, og í öðru lagi að aðstaða væri til þess hjá sjóðum eins og t.d. Atvinnujöfnunarsjóði, þar sem hv. þm. hefur verið í formennsku lengi, að athuga arðsemi þessara fyrirtækja? Hefur það oft leitt til mikilla og stórra vandræða. Ég trúi því ekki að athuguðu máli, að nokkur geti fundið að því, þó að þessari stofnun sé falið að veita fyrirtækjum, veita einstaklingum, veita öðrum, sem vilja koma af stað fyrirtæki, þessa sjálfsögðu aðstoð við stofnsetningu fyrirtækisins.

Á það hefur einnig verið minnzt, að ekki sé mikla samræmingu um að ræða eða fækkun sjóða. Ég skal viðurkenna það, að ég fyrir mitt leyti hefði gjarnan viljað sjá sjóðunum fækkað meira en þarna er gert ráð fyrir. Hins vegar bind ég miklar vonir við það ákvæði, sem er að finna í frv., að að því skuli stefnt, að sjóðunum verði fækkað fremur, og sömuleiðis það ákveðna ákvæði, sem þar kemur fram, að stofnun skuli beita sér fyrir langtum nánara samstarfi á milli þessara sjóða en hefur verið til þessa. Á þetta hefur skort, og vitanlega er þar ekki skrefið stigið til fulls, en mikilvægt skref í þá átt, að sjóðirnir starfi betur saman sem ein heild.

Á það var minnzt, að vísindamenn mundu varla vilja starfa undir slíku bákni, eins og mig minnir, að það hafi verið orðað. Ég á ákaflega erfitt með að trúa því. Í þessu frv. er að finna ýmis ákvæði, sem t.d. ættu að geta orðið athyglisverð eftirbreytni fyrir aðra sjóði. Gert er ráð fyrir því, að lagt verði fram verulegt fjármagn til alls konar rannsókna, sem nauðsynlegar eru til undirbúnings nýjum atvinnugreinum og nýjum fyrirtækjum. Mér reiknast svo til, að ákvæði, sem er í 24. gr., geti þýtt a.m.k. 20 millj. kr. framlag á ári til slíkra rannsókna, og margir fleiri sjóðir, sem eru utan þessa kerfis, fara að þessu fordæmi.

Ég vil einnig leyfa mér að draga það mjög í efa, að í þessu frv. sé að finna ákvæði eða vinnubrögð, sem hvergi tíðkist annars staðar. Ég vil t.d. benda á mjög athyglisverða stofnun, sem Frakkar settu á fót fyrir nokkrum árum og fjallar um áætlanagerð þár, og hefur hún þótt afar mikið til fyrirmyndar og er mjög áhrifamikil, ekki sízt í sambandi við forgangsröðun framkvæmda í þessu auðvaldslandi. Og ég get bent á stofnanir einnig í Svíþjóð og víðar, sem starfa mjög í þessum anda. Þó er það skoðun mín, að óvíða sé nauðsynlegra en hjá okkur, þar sem fjármagn er af afar skornum skammtí, að þessi vinnubrögð, skipulagshyggjan, séu viðhöfð.

Ég hygg, að segja megi um hv. 2. þm. Norðurl. e., að rétt sé það, sem hann sagði, að í stjórnarandstöðu segja menn eflaust meira en þegar þeir eru í stjórn, og mér sýnist að hann hafi tekið upp þau vinnubrögð nú þegar.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um gagnrýni hv. þm. á frv. Ég vil aðeins segja við hann að lokum, að ég vona það, að við nákvæmari lestur frv. muni hann sjá, að það eru ekki svo margar grýlur þar í hverju horni sem hann þykist sjá á þessari stundu, og ég vona, að hrollurinn fari þá fljótlega úr honum.

Ég vil lýsa ánægju minni með þann stuðning, sem kom fram hjá hv. 1. landsk, þm., við frv. Þótti mér vænt um að heyra það. Greinilega kom fram, að hann og hans félagar vilja skoða frv. málefnalega. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að við ýmis ákvæði frv. má gera einhverjar breytingar, einhverjar lagfæringar, og skal ég með ánægju taka þátt í því.

Ég vil svo segja það að lokum, að ég hygg, að andstaðan gegn þessu frv. sé að ýmsu leyti á mjög miklum misskilningi byggð. Ég held, að hún sé byggð á þeim rótgróna misskilningi, sem víða ríkir hjá auðvaldsfyrirkomulagi og þeim flokkum, sem því fylgja, að enn skuli fylgt hinni gömlu reglu um, að framboð og eftirspurn skuli ráða efnahagsþróun. Staðreyndin er vitanlega sú, að þessi gamla grundvallarkenning er fyrir löngu úrelt orðin, jafnvel í þeim ríkjum, sem auðugust eru og lengst hafa haldið í einstaklingsframtakið og framtak fyrirtækja og stórathafnaraðila. Það er staðreynd, að hin risastóru iðnaðarfyrirtæki hafa fyrir löngu kollvarpað öllum slíkum kenningum. Kemur það glöggt fram í ýmsum ritum og ræðum fræðimanna, sem um þetta hafa talað. Þetta kemur einnig glöggt fram t.d. í ýmsum aðgerðum, sem jafnvel Bandaríkjaforseti, sem ekki þykir sérstaklega frjálslyndur eða vinstrisinnaður í skoðunum, hefur orðið að beita í sínu landi, einmitt til þess að beina þróuninni inn á þær brautir, sem eðlilegri eru fyrir þjóðina í heild.

Það er einnig staðreynd, að eins og þróunin er orðin, hefur þessi óheillaþróun, ef ég má kalla hana svo sýnt sig að hafa svo örlagarík áhrif á fjölmargt, sem snertir hvern einasta einstakling, m.a. umhverfi hans, t.d. í sambandi við mengun, sem er orðin stórkostlegt vandamál víðast um heim, að óhjákvæmilegt hefur verið, að hið opinbera grípi í taumana með meiri og minni beinum aðgerðum. Ég held þó, að hér á landi hafi það sannazt einna gleggst, að við getum alls ekki farið eftir slíkri happa- og glappastefnu. Okkar land er tiltölulega stórt miðað við fámennið. Við byggjum dýrt land tiltölulega, höfum tiltölulega lítið af fjármagni, og það er ekki sízt með tilliti til þeirrar reynslu, sem fékkst í stjórnartíð síðustu ríkisstj., að langtum skipulagðari vinnubrögð verða að koma til. Raunar hefur þetta sannazt af aðgerðum hennar sjálfrar, t.d. í sambandi við vaxandi áætlanagerð, sem hefur verið notuð við ýmsar framkvæmdir, og áætlanagerð í sambandi við landshluta. Hér liggur t.d. nú skýrsla um skipasmíðar. En það er eftirtektarvert, að þessar áætlanagerðir hafa margar hverjar ekki komið til framkvæmda vegna þess, að því er mér virðist, að skort hefur aðila í landinu, sem ber að taka þær og framkvæma þær eða sjá um, að þær verði framkvæmdar. Það er enginn vafi á því, að þarna hefur skort að mjög verulegu leyti samræmingu.

Mér sýnist að þetta hafi einnig vel sannazt í þeim fjölmörgu sjóðum, sem hér voru taldir upp áðan, og settir hafa verið á stofn í tíð fyrrv. ríkisstj. Það hefur sýnt sig, að sú ríkisstj. fann sig knúða til þess að nota sjóði og aðrar opinberar aðgerðir til þess að beina fjármagninu inn á ákveðnar brautir fram hjá þessu svo kallaða frjálsa framtaki, sem svo mikið er talað um. Þannig hefur það hér á landi verið margbrotið og eðlilega.

Ég vil leggja áherzlu á, að ég tel mig ekki síður vera málsvara heilbrigðs einstaklingsframtaks heldur en t.d. hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég tel það vera einn máttarstólpann í þjóðfélagi okkar. En ég lít einmitt á þetta frv. sem mjög mikilvæga tilraun til þess að aðstoða einstaklinginn og fyrirtæki hans á þeirri braut, sem þeir vilja fara, veita þeim alls konar þjónustu með útreikningum m.a. á arðsemi, reyna að tryggja fjármagn til þeirra framkvæmda, sem sérfræðingar telja, að séu skynsamlegastar hverju sinni. Ég er sannfærður um, að þessi stofnun, ef hún fær að þróast, eins og ég geri mér fyllilega vonir um og að er stefnt, verði fljótlega talin ein meginmáttarstoð þess framtaks, sem við erum að tala um, hins frjálsa framtaks einstaklingsins og fyrirtækja hans.