18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (EystJ):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf: „Reykjavík, 17. nóv. 1971.

Formaður þingflokks Alþb. hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Samkv. beiðni Magnúsar Kjartanssonar, 3. þm. Reykv., sem nú dvelst í sjúkrahúsi, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður Alþb. í Reykjavík, Jón Snorri Þorleifsson trésmíðameistari, taki sæti á Alþ. í forföllum hans.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Gils Guðmundsson,

forseti Nd.

Samkv. þessu hefur farið fram í hv. kjörbréfanefnd athugun á kjörbréfi varamannsins.