15.03.1972
Sameinað þing: 49. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég stíg ekki hér í stólinn til að gera aths. við kjörbréf þeirra þm., sem taka nú sæti, heldur til að vekja athygli forseta á því og alls þingheims, að nú mun það vera í 43 skipti, sem átt hefur sér stað, að varaþm. hafi komið inn, og 15 fjarvistir hafa verið boðaðar. Hitt eru þm. í opinberum erindum.

Það var á það minnzt í Ed. fyrir skömmu, hversu hægt nefndastörf hefðu gengið, og mér sýnist, að ekki muni rætast mjög vel úr því, ef áfram heldur svo, að stór hluti þm. eru varaþm. Það er ekki sagt þeim til vanvirðu, heldur vegna þeirrar staðreyndar, að fyrir þinginu liggja mörg stórmál sem varla er hægt að ætlast til, að maður, sem situr hér í tvær vikur, geti sett sig fyllilega inn í, og ég varð var við það í þingnefnd í gær hjá varaþm., er ég fór fram á það, að mál hæstv. ríkisstj. yrði betur athugað. Ég var ekki á móti málinu í sjálfu sér, en ég fór fram á það, að það yrði mjög rækilega athugað, vegna þess að það frv. gerði ráð fyrir vissri skattlagningu. Fyrir þinginu liggur annað frv., sem gengur í þveröfuga átt, og ég vildi athuga innbyrðis áhrif þessara frv.

Ég vildi spyrja hæstv. forsrh.: Hvað hugsar ríkisstj., að þinghald standi lengi? Ef þinghald á að vera stutt, þá má áreiðanlega hvetja sumar n. til þess að hefja störf. Hver dagur þingsins kostar mikið fé úr ríkissjóði, þó að við höfum hér til meðferðar skattafrv., sem kannske gætu séð fyrir vaxandi útgjöldum í stórum stíl.

Mér telst svo til, að skipting milli þingflokka hafi átt sér stað á varaþm. þannig: Alþfl. hefur þrisvar tekið aukamenn inn, SF fimm sinnum, Sjálfstfl. 8 sinnum, Alþb. 11 sinnum og Framsfl. 16 sinnum.

Ég vek aðeins máls á þessu vegna þess, að þessi tala er orðin há og hlýtur að hafa áhrif á störf þingsins, a. m. k. nefnda þess.