15.05.1972
Sameinað þing: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur haft með rannsókn tveggja kjörbréfa að gera. Í fyrra lagi hefur hún tekið til athugunar kjörbréf Halldórs Þ. Jónssonar lögfræðings, sem er talinn 3. varamaður á lista Sjálfstfl. í Norðurlandskjördæmi vestra, en hann kemur inn á þing í forföllum Pálma Jónssonar, hv. 5. þm. kjördæmisins, en fyrir kjörbréfanefnd lá skeyti frá 2. varamanni Sjálfstfl. í þessu kjördæmi, Jóhannesi Guðmundssyni, þar sem hann tjáir sig ekki hafa aðstæður til þess að taka þátt í þingstörfum. En 1. varamaður Sjálfstfl. í þessu nefnda kjördæmi hefur þegar tekið sæti í forföllum 2. þm. þessa kjördæmis.

Í öðru lagi var rannsakað kjörbréf Hilmars Péturssonar, sem er 2. varamaður Framsfl. í Reykjaneskjördæmi. Hann kemur inn á þing í forföllum Jóns Skaftasonar, hv. 2. þm. Reykn., en fyrir n. lá bréf frá 1. varamanni Framsfl. í þessu kjördæmi, Birni Sveinbjarnarsyni hrl., þar sem hann kveðst ekki geta vegna anna tekið þingsæti að þessu sinni. Kjörbréfanefnd samþykkir einróma að mæla með því, að kosning þessara tveggja varaþingmanna verði metin gild og kjörbréf þeirra beggja samþykkt.