08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í framsöguræðu hjá hv. frsm. meiri hl., skrifaði ég undir nál, með fyrirvara, en það byggðist fyrst og fremst á því, að ég gat ekki fellt mig við anda 4. gr. frv., og ætla ég nú lítillega að fjalla um málið þess vegna. Ég hef leyft mér á þskj. 150 að koma fram með brtt., sem orðast svo:

„4. gr. orðist svo:

Framkvæmdaráð Framkvæmdastofnunar ríkisins skal skipað forstöðumönnum deilda, og annast það daglega stjórn stofnunarinnar.“

Frsm. meiri hl. vék að þessu nokkuð og sagði, að ekkert hindraði það í sjálfu sér, að þessir menn væru skipaðir í þetta framkvæmdaráð. Ef á að skilja þetta sem svo, að hann sé því hlynntur, að forstöðumenn deilda taki þetta verk að sér, því þá að halda svo fast við það, sem sett var fram í frv. og er ekkert annað heldur en að tryggja, að þrír pólitískir fulltrúar starfi þarna sem eins konar eftirlits- og yfirmenn? Það er mjög óæskilegt, vegna þess að það hefur verið margundirstrikað af talsmönnum hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh., að hér eigi að gera átak í hagrannsóknum, átak í áætlanagerð og að tryggja eðlilega og skipulega lánastarfsemi. Og til þess að slíkt átak megi verða eins gott og menn geta gert, þá hlýtur að vera eðlilegt, að stjórn slíkra mála sé falin hæfustu mönnum, sem um er að ræða. Forstöðumenn viðkomandi deilda eru að mínu mati þeir hæfustu, sem völ er á í þessu tilfelli, þó að eðlilegt sé, að slík stofnun sem þessi eigi stjórn yfir sér og hún sé, eins og sagt er í 2. gr., skipuð sjö mönnum, sem kosnir séu hér á Alþ. Það er mikill munur á því að hafa embættismenn í þessu eða pólitíska fulltrúa, ég tala nú ekki um, þegar í hlut á stofnun eins og þessi, sem á að fjalla um svo mikilvæga þætti í þjóðarbúskapnum, eins og gert er ráð fyrir að verði, þegar þetta hefur náð fram að ganga og orðið að lögum, sem á að verða um n.k. áramót. Enginn hefur dregið dul á það, að hagrannsóknir eru hér lífsnauðsyn. Hagrannsóknir eiga að vera óháðar og þess verðugar, að þær veki traust beggja aðila, vegna þeirra átaka, sem eiga sér stað um kaup og kjör í þessu landi. Einnig hefur það verið undanfarið, að Efnahagsstofnunin hefur verið fengin til aðstoðar við úrskurð á fiskverði og hefur þá lagt fram margvísleg gögn, sem báðir aðilar hafa tekið alvarlega og tekið sína afstöðu í samræmi við það. Þetta má ekki verða svo litað pólitík, að menn tapi trausti á slíkri starfsemi. En það er mjög hætt við því, að svo fari, verði 4. gr. samþ., eins og talsmenn ríkisstj. vilja. Þá koma þar inn því miður pólitískir fulltrúar, sem eiga lítið erindi inn í þessa stofnun. Ef ríkisstj. vill hafa áhrif, þá á hún, hver sem hún verður, sinn meiri hl. tryggan í gegnum stjórnina, auk þess sem stofnunin heyrir beint undir hana, og hún mun áreiðanlega koma sjónarmiðum sínum fram eins og hún hefur tök á hverju sinni í gegnum sinn meiri hl.

Það er von mín, að hagrannsóknir geti eflzt hér, vegna þess að það er undirstaða undir því, að við tökum skynsamlegar ákvarðanir. Áætlanagerðin sem slík er oft pólitískt mat og útlánastarfsemi er afleiðing af því. Það er oft erfitt að meta rétt á Íslandi. Minna má á staðsetningu síldarverksmiðja og margra annarra fyrirtækja og jafnvel minkabúanna, sem meiri hl. Alþ. stóð að hér fyrir skömmu, að sett yrðu á stofn, og eiga nú erfitt uppdráttar. Það rýrir þó engan veginn, að hagrannsóknir séu góðar og þar af leiðandi áætlanir, sem byggðar eru á þeim. Það rýrir það ekki, að við vöndum sem mest val manna til þess að sinna þessu, og því vil ég mjög undirstrika það, að menn meti það, að hinir hæfustu menn skipi framkvæmdaráðið. Ég trúi varla öðru en a.m.k. Framsfl. hugsi málið mjög alvarlega, áður en hann tekur ákvörðun um að hafna slíku, svo að ég tali nú ekki um, eins og síðasti ræðumaður kom inn á, að Frjálslyndir og vinstri menn höfðu það sem aðalslagorð í síðustu kosningum, að nú skyldi svo sannarlega höggvið að hinu pólitíska valdi í þjóðfélaginu og misbeiting þess fara minnkandi, svo að þeir ættu að vera minnugir sinna sterku orða í því sambandi.

Nokkuð hefur verið vikið að því, að Efnahagsstofnunin hafi ekki skilað sínu hlutverkí sem skyldi undanfarin ár, og það kom fram bæði áðan í tali frsm. meiri hl. og á sínum tíma við 1. umr. þessa máls. Það getur vel verið, að Efnahagsstofnuninni hafi ekki tekizt allt. Ég held, að fáum takist það í þessu landi. En hitt vil ég undirstrika, að það var mikilvægt skref, sem stigið var af fyrrv. ríkisstj., og má engan veginn kasta hnútum að því, og er það óréttmætt, að það hafi ekki verið til stórra framfara og það er bókstaflega byggt á því nú í þessu frv. að halda áfram að gera betur, og það er gott. Og þess vegna styðjum við í Alþfl. meginhugsunina í þessu frv. En við hörmum það, að það skuli vera talið nauðsynlegt að setja pólitíska kommissara yfir slíka menn. Við hörmum slíkt skref og vonum, að það nái ekki fram að ganga.

Hér komu á sínum tíma á vegum Efnahagsstofnunarinnar í París þrír norskir sérfræðingar, sem skipulögðu þetta starf og hjálpuðu til við að koma á stofn Efnahagsstofnuninni eða við samningu frv. um það. Þessir menn höfðu mikla reynslu. Við höfðum hins vegar minni reynslu eða vorum reynslulítið fólk í þessu efni, og það var því eðlilegt, að allt bæri ekki jafngóðan árangur og vonir stóðu til. Auk þess vitum við, hversu utanríkisviðskipti okkar eru mikil og verðsveiflur gera það að verkum, að jafnvel skynsamlegar ákvarðanir í dag geta orðið næsta óskynsamlegar eftir 1–2 ár. Það eru ytri þættir, sem enginn maður ræður við, jafnvel þó að vel sé að unnið. Hitt er svo annað mál, að með skipulagðri áætlun leitumst við við að hafa atvinnulífið fastara og jafnara og tryggja þannig betri lífskjör í landinu, og það er von mín, að þessi stofnun, því að vissulega verður hún sett á laggirnar, verði vanda sínum vaxin í þessu efni.

Ég vil nú ekki fara að elta ólar við gömul mál hér á Alþ., jafnvel allt að 30–40 ár aftur í tímann, og svara ýmsu, sem fram kom hjá frsm. meiri hl., hverjir væru hinir beztu skipuleggjendur og hefðu haft mestan áhuga á því, en aðeins minna á það, að litið hefur farið fyrir því á sínum tíma, þegar Sósfl. var hér og síðan Alþb.- menn, að þeir væru einhverjir forustumenn á þessu sviði. Það hefur verið meira í nösunum á þeim en í alvöru. Það voru aðrir flokkar, sem höfðu forustu um þetta mál, og er byggt á því núna að halda áfram og reyna að gera betur. En það mun framtíðin skera úr um, hvort betur tekst til.

Ég vil undirstrika það og skal ekki lengja þessar umr. mikið, að allt veltur hér á góðri og skynsamlegri framkvæmd. Stofnunin ein sem slík mun ekkert gildi hafa, ef ekki tekst vel til um mannaráðningar og stjórnun. Hún leysir ekkert vandamál með þremur pólitískum fulltrúum, sem eiga að vaka dag og nótt yfir störfum hinna almennu starfsmanna í stofnuninni. Hún mun aðeins sanna gildi sitt með því, að þar sé starfað af heilindum og ákvarðanir teknar með þjóðarhag fyrir augum, en ekki í pólitískum tilgangi. Þá mun þetta verða til framfara í landinu og öllum til heilla. Og það er von mín, að slík skipan megi verða á þessu.