21.12.1971
Sameinað þing: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

Þingfrestun og setning þings að nýju

Forseti (EystJ):

Þá er lokið dagskránni, og þetta verður síðasti fundur í Sþ. fyrir jól og einnig á þessu ári. Af því tilefni vil ég leyfa mér að óska hv. þm. og þeirra fólki gleðilegra jóla og góðs nýs árs og þakka hv. þm. fyrir gamla árið. Alveg sérstaklega vil ég þakka hv. þm. fyrir samstarfið á þessu ári, sem nú er senn að líða, og ég met það mikils, hvernig þeir hafa komið fram við mig, sem er alger nýgræðingur á þessum stað, og ég vil sérstaklega undirstrika, að mér hefur fallið vel, hvernig samstarf við þá hefur verið og hversu þm. hafa lagt sig fram um að greiða fyrir þingstörfunum, og á það jafnt við þm. úr stjórnarliðinu og stjórnarandstöðunni.

Ég vil óska þeim, sem fara í ferðalög til heimila sinna nú fyrir jólin, góðrar ferðar og vona, að við sjáumst hér öll aftur heil, þegar þingið á að taka til starfa á nýjan leik.

Ég vil þakka skrifstofustjóra Alþingis og starfsliði Alþ. alveg sérstaklega fyrir samstarfið og fyrir framlag þess til þinghaldsins. Ég vona, að við sjáumst hér öll heil aftur, þegar við eigum að koma saman í janúar.