27.10.1971
Efri deild: 6. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

34. mál, mannanöfn

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Frv. það til l. um mannanöfn, sem hér er lagt fyrir, kom einnig fyrir þing síðari hluta síðasta þings, en varð þá ekki útrætt. Þetta frv. er flutt á ný sem stjfrv. En það skal skýrt tekið fram þegar hér í upphafi, að slíkt felur ekki í sér, að ríkisstj. geri málið þar með að sínu máli í öllum greinum eða aðhyllist einróma þá stefnu, sem þar er mörkuð í hverju atriði. Þetta er ekki pólitískt mál og ljóst, að um einstök atriði frv. sýnist sitt hverjum í öllum flokkum. En það er að mínum dómi einsýnt að nauðsyn ber til, að Alþ. gefist kostur á að marka stefnu í þessu máli, stefnu, sem unnt er að fara eftir og framkvæma. Svo hefur tekizt til, að l. frá 1925, sem enn eru í gildi, hafa reynzt dauður bókstafur og aldrei verið framkvæmd og mannanafnamálið er því í algerri sjálfheldu. Reynt var að ráða bót á þessu árið 1955, þegar skipuð var n. til þess að semja nýtt frv. til laga um mannanöfn. Sú n. þríklofnaði og frv., sem hún samdi, dagaði uppi. Enn var skipuð n. 1967 og árangurinn af starfi hennar er það frv., sem hér liggur fyrir. Í þessari n. sátu Klemens Tryggvason hagstofustjóri, prófessor Ármann Snævarr, prófessor Einar Bjarnason, prófessor Halldór Halldórsson og Matthías Johannessen ritstjóri. Þessi n. kveðst í starfi sínu hafa lagt höfuðáherzlu á að ná samstöðu um samfellt frv., og það liggur nú hér fyrir. Frv. er ýtarlegt og kemur víða við, en að svo stöddu ætla ég mér ekki að rekja einstök nýmæli, sem í því felast, heldur ræða fyrst og fremst það atriði, sem helzt veldur ágreiningi og deilum, það er afstaðan til ættarnafna.

Ættarnöfn hafa verið bönnuð hér á landi frá 1925, að því er tekur til annarra nafna en þeirra, sem tíðkuðust fyrir 1901, og nokkurra, sem voru löglega upp tekin fram til 1913. En vegna þess, að lögin frá 1925 hafa aldrei verið framkvæmd, hafa á gildistíma þeirra bætzt inn ýmis ný ættarnöfn, gersamlega löglaust, og talið er, þó að fullnaðarkönnun hafi aldrei farið fram á því, að þessi nöfn séu einhvers staðar á bilinu 450–550. Annað, sem fylgt hefur í kjölfar þess, að mannanafnalögin frá 1925 hafa aldrei komið til framkvæmda, er það, að ákvæði, sem þar var að finna og áttu að útiloka hrein ónefni í eiginnöfnum, hafa aldrei orðið virk.

Eins og þessu máli er nú komið, virðast þrír kostir fyrir hendi. Í fyrsta lagi að láta reka á reiðanum, eins og gert hefur verið frá 1925, og býst ég við, að öllum hv. alþm. þyki það alveg óviðunandi kostur. Í öðru lagi að taka að framfylgja þeim lögum, sem sett voru 1925, eða öðrum svipuðum ákvæðum um ættarnöfn, og yrði þá hreinlega að höfða mál á hendur þeim, sem ólögleg nöfn bera, til þess að knýja þá til að leggja þau niður. Í þriðja lagi að taka upp lagafyrirmæli, sem gera ráð fyrir, að meginreglan sé hinn íslenzki nafnsiður að kenna sig til foreldris, en leyfi þó undantekningar hvað ættarnöfn varðar, vegna þess að þau eru tvímælalaust búin að vinna sér nokkurn rétt í íslenzku nafnkerfi. Og til þess að koma í framkvæmd ákvæðum, sem hér er að finna í þessu frv., eða öðrum, sem sett kunna að verða, er tvímælalaust full nauðsyn, að komið verði upp því eftirlitskerfi, sem gert er ráð fyrir í frv., sem sé mannanafnanefnd, sem virku stjórnvaldi. Hún getur stuðzt við þjóðskrá, sem komið hefur til sögunnar síðan fyrri mannanafnalög voru sett og gerir framkvæmd á mannanafnalögunum örugga og tiltölulega auðvelda. Þýðingarmesta verkefni mannanafnanefndar yrði tvímælalaust að útrýma því, sem telja verður hrein ónefni, bæði úr eiginnöfnum og ættarnöfnum.

Það kann að vera nokkurt matsatriði, hver áhrif það hefði, ef lögfest væru ákvæði þessa frv., sem heimila upptöku ættarnafna undir eftirliti og með sérstöku leyfi dómsmrn. Mitt álit er það, að ásókn í ný ættarnöfn sé ekki mikil. Ef hún væri það, hefðu þau, sem fyrir eru, breiðzt út í þjóðfélaginu miklu meira en raun hefur á orðið, því að eðli ættarnafna er slíkt að ef þau ná til allra afkomenda, sem rétt hafa til að bera þau, breiðast þau afar fljótt út. Þau verða á skömmum tíma ríkjandi, ef vilji fólksins er sá að bera ættarnafn. En ég býst við, að öllum sé kunnugt, að þess eru mýmörg dæmi, að fólk, sem rétt hefur til ættarnafna, fellir þau niður og hverfur að hinum forna nafnsið að kenna sig til foreldris, það er engum blöðum um það að fletta, að hinn forni nafnsiður að kenna sig til foreldris, oftast föður, en í einstaka tilvikum móður, er ríkjandi í landinu og ríkjandi vilji, að honum sé við haldið.En það verður að viðurkennast, að ættarnöfn hafa frá því á 17. öld komið hér inn og unnið sér takmarkaðan rétt. Meginstefna þessa frv., sem hér er lagt fyrir, er að mínum dómi að viðurkenna þetta ástand og gera haldgóðar ráðstafanir til, að unnt sé að framfylgja réttsýnum reglum um framkvæmd þess nafnsiðar, sem komið er á.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og menntmn.