08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það hefur verið stefnt að því að reyna að afgreiða þetta mál úr d. á þessu kvöldi, og ég vil nú gera mitt til þess, að þessar umr. dragist ekki of á langinn, og reyni því að hafa mál mitt stutt, en þó verð ég að drepa hér á örfá atriði, þó að reyndar sé af fjöldamörgu að taka.

Allmikið hefur verið á það deilt hér í þessum umr. af hv. talsmönnum minni hl. fjhn., að eðlilegast væri, að hagrannsóknadeild væri slitin úr tengslum við Framkvæmdastofnunina og sjálfstæð stofnun yrði mynduð utan um það verkefni, sem hún á að annast. Ég get út af fyrir sig tekið undir það, að þetta hefði verið möguleiki, og ég get líka tekið undir þær raddir, að þarna hefði komið fleira til greina. Eins og hér var vikið að áðan, er það möguleiki í okkar stjórnkerfi að stofna sérstakt efnahagsmálaráðuneyti, og þá væri ekki óeðlilegt, að eitthvað af þeim verkefnum, sem hér falla undir hagrannsóknadeild, færu þangað. En það hefur nú ekki verið gert og engar formlegar tillögur uppi hafðar um það, og því virðist óhjákvæmilegt að halda um sinn þeirri skipan mála, sem verið hefur nú um skeið.

En ég vildi aðeins víkja að því atriði, sem hér hefur verið haldið fram, að það væri mjög hættulegt og óeðlilegt, að slík deild sem þessi, sem á að fjalla um rannsóknir á efnahagslífi þjóðarinnar, sé undir þessu þriggja manna framkvæmdaráði, og það fyrst og fremst vegna þess, að það sé skipað beint af ríkisstj., og það geti verið hætta á því, að þar verði pólitískir aðilar, sem á þann hátt fái eitthvað að segja yfir þessari hagrannsóknadeild. Ég vil undirstrika það, að ég skil eiginlega ekki þennan þankagang, og mér er nær að halda, að hv. talsmenn minni hl. fjhn. skilji hann ekki heldur, því að í nál. þeirra kemur fram gjörólík hugsun. Þar segir einmitt um þetta nákvæmlega sama atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú þjónusta, sem hagrannsóknadeildin á að inna af hendi, er yfirleitt framkvæmd í nálægum Löndum af deildum í fjmrn., t.d. í Noregi, Svíþjóð og Englandi, eða af sérstökum stofnunum, eins og í Danmörku og var um skeið í Svíþjóð. í Bandaríkjunum gegnir þriggja manna ráð sérfræðinga, sem heyrir beint undir forsetann, þessu sama hlutverki.“

Það kemur ljóst fram af samhengi þess, sem hér er sagt, að talsmenn minni hl. fjhn. eru ekki að fordæma skipulagið eins og það er og þarna er lýst í nokkrum nálægum löndum. Þeir virðast telja þetta sjáifsagt og eðlilegt. Og ég vil þá spyrja: Ef það er sjálfsagt og eðlilegt, að verkefni eins og þessi heyri beint undir fjmrn. eða beint undir forseta, pólitískan forseta viðkomandi lands, er það þá algjörlega fráleitt, að slík verkefni séu unnin í stofnun eins og Framkvæmdastofnuninni, jafnvel þó að svo standi á, að yfirmenn hennar eru skipaðir af ráðh. og eru ekki algjörlega sjálfstæðir í stjórnkerfinu, og jafnvel þó að þar sé starfandi þriggja manna framkvæmdaráð, sem væntanlega er skipað mönnum með töluverðan pólitískan áhuga? Ég verð að segja það, að mér virðist þarna rekast hvað á annars horn hjá hv. talsmönnum minni hl. fjhn. og þessi klausa í þeirra nál. sé beinlínis rökstuðningur fyrir því, að það skipulag, sem hér er valið, sé í öllu falli ekki óeðlilegra en það er í mörgum nálægum löndum.

Hér hefur nokkuð verið vikið að áætlanagerðinni sem slíkri, og mér skilst, að hv. síðasti ræðumaður, sem vék að þessu efni rétt áður en ég kom í þingsalinn, hafi verið að gera því skóna, að flokkur hans, hinn virðulegi Sjálfstfl., væri raunverulega frumkvöðull að áætlanagerð hér á landi, og að það væri síður en svo, að Sjálfstfl. hefði neitt við áætlanagerð að athuga, hann væri því samþykkur, að slíkar leiðir væru valdar. Ég verð nú að segja það, að ég meðtek þennan sannleika með nokkurri varúð. Og ég er hræddur um, að það verði erfitt fyrir fleiri en mig að kyngja þessum fullyrðingum, þó að álitlegar séu. Og ég er anzi hræddur um, að sú áætlanagerð, sem Sjálfstfl. og talsmenn hans hafa í huga, hljóti að vera eitthvað talsvert annars eðlis en sú áætlanagerð, sem yfirleitt ber það heiti. Mig grunar reyndar, að svo standi á, að misskilningurinn sé einmitt í því fólginn. Segja má, að orðin áætlanagerð og áætlanir hafi fleiri en eina merkingu í sér fólgnar, og þau hugtök hafa verið notuð á nokkuð breiðum grundvelli. Ég verð hins vegar að segja það sem mína skoðun, að áætlanagerð, sem ekki er í tengslum við ákvarðanatöku af neinu tagi og ekki heldur í neinum tengslum við fjármagnsöflun til áætlanagerðarinnar, hlýtur að vera æði yfirborðsleg og raunverulega lítils virði fyrir framkvæmd mála. Ég veit hins vegar, að til er ýmiss konar áætlanagerð, sem er aðallega fólgin í spásögn af ýmsu tagi, og ég get út af fyrir sig viðurkennt, að þess háttar vinnubrögð eigi talsverðan rétt á sér í mörgum tilvíkum. Sérstaklega þegar um er að ræða langtímaáætlanir, er raunverulega ekki mikið meira hægt að gera oft og tíðum en að reyna að spá fram í tímann og reyna að átta sig á, hvernig þróun mála sé líklegust að verða, og ég held, að maður verði að viðurkenna það, að fyrst um sinn hlýtur sú áætlanagerð, sem hér er framkvæmd og á að verða til margra ára, að verða talsvert mikið í þeim búningi. En þegar um er að ræða áætlanir í smærri stíl, áætlanir á afmarkaðri sviðum, álít ég, að við höfum raunverulega þörf fyrir miklu skarpari og ákveðnari áætlanagerð en þá, sem einungis er fólgin í slíkri venjulegri spásögn.

Ég vík að þessu, vegna þess að ég vil í sjálfu sér ekki fara að bera á móti því, að Sjálfstfl. kunni að vera hlynntur þess háttar mjög svo óljósri áætlanagerð, sem varla stendur undir nafni. Mér hefur virzt mjög greinilegt af málflutningi talsmanna þess flokks, að það væri langt frá því, að þeir væru því samþykkir, að t.d. atvinnulífið fylgdi nokkurs konar áætlanagerð, sem gæti staðið undir nafni. Enda er mér satt að segja næst að halda, að andstaða þeirra gegn þessu frv. sé einmitt byggð á því, að þeir eru í grundvallaratriðum andvígir þess háttar áætlanagerð, sem raunverulega er þörf á að taka, og ég held, að ekki sé nein önnur skýring til á þeirra afstöðu en einmitt sú, að þeir leggja töluvert annan skilning í þetta orð. Ég vil vekja athygli á því, að það er eftirtektarvert, hvað talsmenn Sjálfstfl. í þessum umr. hamast ákaflega gegn þeim litlu ákvæðum, sem í þessu frv. er að finna um fjárfestingareftirlit, og þá einkum í 3. mgr. 12. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að stofnunin geti sett almennar reglur um það, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar, og heimila í því sambandi stofnuninni að afla sér upplýsinga, sem verða megi að liði við þá ákvarðanatöku.

Ég vil undirstrika það hér, að ef menn vilja ekki leyfa sér að ákveða neitt um það, hvað skuli hafa forgang í þjóðfélaginu og hvers konar framkvæmdir skuli ganga fyrir öðrum, og ef engar almennar reglur má yfirleitt setja á því sviði, er ósköp einfalt mál, að það getur ekki orðið um neina raunverulega áætlanagerð að ræða. Þá verðum við bara að láta okkur nægja gömlu aðferðina, að reyna að geta okkur til um það, hvað hinir ýmsu aðilar efnahags- og atvinnulífsins gætu verið með í huga og hvað þeir kynnu að gera á næstu árum eða á næsta ári, án þess að hafa uppi neinn vilja eða neina tilburði til þess að hafa þar áhrif á. Ég lít svo á, að með raunverulegri áætlanagerð sé ætlunin að reyna að hafa áhrif á það, hvernig þróunin í efnahags- og atvinnulífi verður, og ég lít svo á, að það sé tómt mál að tala um, að það sé unnt öðruvísi, en að maður leyfi sér að setja einhverjar reglur um það, hvað skuli yfirleitt hafa forgang og hvað ekki. Það verður að velja aðra hvora leiðina, að reyna að velja úr það, sem þarf að setjast á áætlunarprógrammið, eða að láta happa- og glappaaðferðina algjörlega ráða ferðinni, eins og verið hefur hjá fráfarandi ríkisstj. í allrí stjórnartið hennar.

Hvað skipun framkvæmdaráðsins snertir, sem hér hefur nokkuð komið til umr., vildi ég taka það skýrt fram, vegna þess að hv. talsmaður minni hl. fjhn., hv. 2. þm. Reykv., fjallaði um mína afstöðu í þessum efnum, að ég hef ekkert sagt um það, að ríkisstj. hafi í hyggju að skipa forstöðumenn deilda í framkvæmdaráðið. Það er algjör misskilningur, að ég hafi yfirleitt gert nokkra tilraun til að gefa það í skyn einu sinni. Ég sagði hins vegar aðeins, að það væri ekkert í frv., sem hindraði það, að í framkvæmdaráðið veldist starfsmaður úr stofnuninni eða úr stjórn hennar, og þá gætu forstöðumenn allt eins flokkast þar undir. Ég sagði hins vegar, að ég teldi, að það ætti að vera á valdi ríkisstj. að ákveða hverju sinni, hverjir sætu í þessu framkvæmdaráði. Það yrði á valdi núv. ríkisstj., og það yrði á valdi seinni tíma ríkisstj. að ákveða þetta, hver fyrir sig, út frá sem skynsamlegustu mati og sjónarmiðum hverrar ríkisstj., og ég tel algjörlega ástæðulaust að fara að binda það í lög, hverjir skuli eiga sæti í þessu framkvæmdaráði.

Þetta hefur nú verið aðalmótbáran gegn þessu framkvæmdaráði og skipan þess, að menn vilji ekki, að dagleg störf stofnunarinnar verði undir því, sem menn kalla pólitískri stjórn. Ég ætla ekki að koma mikið inn á þetta atriði, enda hefur það verið gert hér á undan á einkar skýran hátt, en ég vildi bara undirstrika það, að enginn, sem fæst við efnahagsmál, getur verið ópólitískur í hugsun, sízt af öllu þegar um er að ræða að taka einhverjar ákvarðanir. Það er svo, að þeir, sem eiga að gera tillögur um ákvarðanir í efnahagsmálum, verða ævinlega eins og allir aðrir að ganga út frá fjöldamörgum forsendum, sem ekki liggja fyrir sem staðreyndir og ekki leggja fyrir sem neinar upplýsingar, sem hægt sé að ganga að, og þar af leiðandi bara ósköp einfaldlega að beita venjulegri rökhugsun og komast að ákveðinni niðurstöðu og síðan að leggja fram tillögur um, að þetta og þetta skuli gert. Við vitum öll, hvernig þessu er háttað, að það verður ævinlega að taka til greina ýmsar forsendur, sem menn verða að gefa sér, út frá því, sem ég vil kalla, pólitísku mati, og það er hreinn skollaleikur að ætla að gefa eitthvað annað í skyn eða að halda því fram, að hægt sé að komast undan því að láta grundvallarviðhorf ýmiss konar, sem eru mismunandi hjá mönnum, ráða þar einhverju um. Það liggur því í hlutarins eðli, að tillögur um hvers konar ákvarðanir á sviði efnahagsmála eru alltaf háðar pólitísku mati að einhverju leyti, þegar allt kemur til alls. Ég tel það líka laukrétta ábendingu hjá hæstv. forsrh. hér í dag, að ef við færum að binda það í þessum lögum, að forstöðumenn deilda skyldu eiga sæti í þessu þriggja manna framkvæmdaráði, værum við bara að fá upp þann flöt á málinu, að það væri þá frekar hætta á því, að hver og ein ríkisstj., sem skipaði embættismenn í þessa stofnun, færi að velta fyrir sér, hver væri pólitísk afstaða einstakra forstöðumanna deilda, og ég er ekkert að leyna því, að við, sem höfum lagt til, að þessu yrði hagað á þennan veg, teljum miklu æskilegra, að þetta sé aðskilið á þennan veg, og að þá sé reiknað með því, að forstöðumenn deilda séu ópólitískir embættismenn, að svo miklu leyti sem nokkur maður getur verið algjörlega ópólitískur, en sjónarmið viðkomandi ríkisstj. eigi greiðan aðgang að stofnuninni í gegnum þetta margumtalaða framkvæmdaráð.

Ég verð að játa, að í framsöguræðu minni hér fyrr í dag láðist mér að nefna brtt. frá minni hl. fjhn. við 32. gr., en þar hefur verið gerð till. um, að við gr. bætist ný málsgr., svo hljóðandi: „Stjórn Byggðasjóðs skal hafa samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga við ráðstöfun fjár úr sjóðnum.“ Ég vil geta þess nú, sem mér láðist að geta í dag, að ég er í grundvallaratriðum samþykkur þessari till., og lét það reyndar í ljós á nefndarfundi, þegar þetta mál var þar lítillega rætt. En þar sem till. minni hl. n. lágu þá ekki fyrir, gafst ekki tækifæri til að samræma sjónarmið manna í þessum efnum í n. sjálfri. Nú liggur þessi till. fyrir, og ég get endurtekið það, sem ég hef þegar sagt, að ég er í grundvallaratriðum sammála þeirri hugsun, sem þarna er fólgin. Ég vil þó undirstrika, að það er ekki svo, að landshlutasamtök sveitarfélaga hafi algjörlega gleymzt við samningu þessa frv. Þeirra er getið í 10. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Byggðaáætlanir skulu gerðar í samráði við sveitarstjórnir og landshlutasamtök sveitarfélaga, svo og landshlutasamtök verkalýðsfélaga og atvinnurekenda.“ Og reyndar er bætt við: „Meðan unnið er að áætlanagerð viðkomandi landshluta, getur stjórn stofnunarinnar sett þar upp skrifstofu til bráðabirgða.“

Þetta er í frv. sjálfu, en hitt geta menn auðvitað sagt með nokkrum rétti, að þetta snertir fyrst og fremst áætlanirnar sjálfar. Hins vegar er ekkert í frv., sem skyldar stofnunina til þess að leita til viðkomandi landshlutasamtaka, þegar um einstakar lánveitingar er að ræða. Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða, að þeir, sem um þetta hafa fjallað, hafa alltaf reiknað með því, að svo yrði gert í framkvæmd, þó að það hafi sem sagt ekki verið tekið hér tryggilega fram. En út af fyrir sig er það skaðlaust og kannske fyllsta ástæða til að taka þetta með inn í frv. og inn í Lögin, og skal ég fúslega veita aðstoð mína, til þess að svo verði gert. Ég vil þó taka fram, að það getur í vissum tilvikum verið erfitt um vik að leita umsagnar landshlutasamtaka sveitarfélaga. Stundum kann að vera um að ræða næstum því sjálfkrafa lánveitingu, t.d. þegar sjóður eins og Byggðasjóður hefur kannske sett sér einhverja almenna reglu um lánveitingu til einhverra vissra fjárfestinga, t.d. skipakaupa, þannig, að ef Fiskveiðasjóður t.d., svo að ég nefni eitt dæmi, lánar út á skip, sé Byggðasjóður reiðubúinn að bæta þar einhverri ákveðinni prósentutölu við. Þannig hefur þetta nú verið í framkvæmd hvað snertir Atvinnujöfnunarsjóð. Ég skal ekki segja, hvað verður uppi á teningnum hvað Byggðasjóð snertir, en ég nefni þetta bara sem dæmi um, að þannig getur verið um sjálfkrafa lánveitingar að ræða, lánveitingar, sem fylgja mjög föstum reglum. En það víll oft svo til, að það liggur mjög á að gefa vilyrði um slíkar lánveitingar. Það má ekki dragast, ekki í mánuði og jafnvel ekki í vikur og jafnvel ekki í daga, vegna þess að það á kannske að fara að gera samninga, og það getur oltið á því, hvort loforðin liggi fyrir og allt sé á hreinu, hvort samningar takast eða ekki eða hvort einhver annar verður á undan í einhverju ákveðnu tilviki. Þar af leiðir, að það getur verið nauðsynlegt fyrir Byggðasjóð að geta veitt loforðið strax. Í slíkum tilvikum finnst mér í raun og veru ástæðulaust, að það þurfi að fara að senda viðkomandi lánsumsókn kannske yfir landið þvert og endilangt og kalla þar saman stjórn manna, sem er venjulega mjög dreifð o.s.frv. Því hefði ég kosið, að þessi klausa væri ekki svo afdráttarlaus sem þarna er gert ráð fyrir.. Ég hef gert uppkast að till. um þetta efni, og er hún svo hljóðandi:

„Stjórn Byggðasjóðs skal leita umsagnar viðkomandi landshlutasamtaka sveitarfélaga við ráðstöfun fjár úr sjóðnum, eftir því sem við verður komið.“

Þarna hafa ekki aðrar breytingar verið gerðar en sú, eins og hæstv. forsrh. benti á í dag, að auðvitað er ekki ætlazt til þess, að leitað sé umsagnar eða haft samráð við landshlutasamtökin almennt, heldur bara viðkomandi landshlutasamtök, og auk þess er því bætt við, að þetta sé eðlilegt, eftir því sem við verður komið. Það vill nú svo illa til, að enda þótt ég hafi leitað til þeirra, sem skipa minni hl. fjhn. og óskáð eftir því, að samkomulag gæti tekizt um þetta atriði, orðalag á þessari grein, þá hefur ekki tekizt að ná samkomulagi um þetta mál, og ég sé mig því tilneyddan að bera fram sérstaka brtt. um þetta atriði. Ég vil taka það fram, að ég hef borið þessa brtt. undir þá, sem eru fylgjandi meiri hl. fjhn., þá hv. þm. Bjarna Guðbjörnsson, 4. þm. Vestf., hv. þm. Pál Þorsteinsson, 3. þm. Austf., og hv. þm. Jón Árm. Héðinsson, 5. þm. Reykn., og við höfum orðið sammála um að leggja fram þá till., sem ég hef hér lýst, en hún er borin fram sem skrifleg brtt. frá mér. Þetta er brtt. við brtt. við frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins frá minni hl. fjhn., við 6. tölul. Till. er frá Ragnari Arnalds og er svo hljóðandi:

„Við 6. tölul. Liðurinn orðist svo:

Við 32. gr. Við greinina bætist ný málsgr.:

Stjórn Byggðasjóðs skal leita umsagnar viðkomandi landshlutasamtaka sveitarfélaga við ráðstöfun fjár úr sjóðnum, eftir því sem við verður komið.“

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja þessa till. hér fram.