06.03.1972
Neðri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2837)

58. mál, Fræðslustofnun alþýðu

Fram. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., er frv. til l. um Fræðslustofnun alþýðu. Flm.: Sigurður E. Guðmundsson, Stefán Gunnlaugsson og Pétur Pétursson. Menntmn. hefur fjallað um frv. og leitað umsagnar nokkurra aðila um það. Þeirra á meðal er nýskipuð fullorðinsfræðslunefnd, sem lýsir einróma áliti sínu á þessa leið:

„Fullorðinsfræðslunefndin fagnar frv. því, sem lagt hefur verið fram í Nd. Alþ. um Fræðslustofnun alþýðu, og telur, að með því hafi verið vakin athygli á hinu mikla og flókna verkefni fullorðinsfræðslunnar. N. lítur hins vegar svo á, að hún hafi á þessu stigi enga möguleika til að láta efnislega í ljós álit á framkomnu frv. N. er að hefja störf og hefur viðað að sér gögnum um skipulag fullorðinsfræðslunnar í nágrannalöndum. Kemur þegar í ljós, að um margbrotið og viðamikið verkefni er að ræða, enda mála sannast, að undirbúningur að samningu l. um fullorðinsfræðslu hefur tekið nokkur ár í öllum þeim löndum, sem vitneskja hefur borizt frá.“

Í trausti þess, að hin nýskipaða fullorðinsfræðslunefnd taki frv. til gaumgæfilegrar athugunar, leggur menntmn. til, að því verði vísað til ríkisstj.