10.02.1972
Efri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

168. mál, ljósmæðralög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er sannarlega tímabært. Breyting á kjörum ljósmæðra er nauðsynleg, og það er þess vegna, sem ég kem hér og ætla að segja nokkur orð.

Ég lít svo á, að síðasta mgr., sem hér er í grg. frv., sé mjög athyglisverð, þótt mér sé það hins vegar ljóst, að það að auka verkefni ljósmæðra í umdæmum utan kaupstaða sé ekki sérstaklega skjótvirk lausn og komi ekki að fullum notum. En hins vegar er hér átt við það að gera fjölbreyttari störf ljósmæðra, og það er einmitt þess vegna, sem mig langar til að segja nokkur orð.

Það er ekki vafi á því, að jafnframt ljósmóðurstarfi geta ljósmæðurnar veitt héraðslæknum aðstoð við almenna heilsugæzlu, og hérna er drepið á viðfangsefni, sem gætu komið að miklu liði. Ljósmæður munu víðast hvar staðsettar nærri héraðslæknum, en þær eru einnig dreifðar um læknishéraðið og hér getur því verið um tvíþætta hjálp við læknana að ræða. Í fyrsta lagi, að ljósmæður, sem staðsettar eru nærri bústöðum héraðslækna, mundu aðstoða héraðslæknana við ýmis störf, svo sem störf ritara. Til þess þyrftu þær hins vegar að kunna vélritun og venjuleg skrifstofustörf. Þær gætu aðstoðað hann við almenn hjúkrunarstörf og rannsóknastörf og jafnvel við afgreiðslu í lyfjabúð. Þær gætu aðstoðað við töku röntgenmynda og að sjálfsögðu unnið allt, er lýtur að mæðravernd. Þetta eru veruleg aukastörf hjá læknunum, og að fá góða aðstoðarmenn til slíkra starfa mundi létta þeim starfið mjög. Hins vegar mundi þetta lengja nokkuð nám ljósmæðra, ef gengið væri út frá því, að þær yrðu hæfar til að gegna þessum störfum. Þó yrði varla nema um nokkurra mánaða aukningu að ræða, þar sem mjög verulegur hluti af þessu námi gæti farið fram og verið dreifður á allan námstímann. En þetta yrði örugglega báðum aðilum mjög hagkvæmt, létti lækninum störfin og skapaði ljósmóðurstarfinu öruggari fjárhagsgrundvöll. Og það var ekki sízt þess vegna, sem mér fannst rétt, að þetta kæmi hér fram, vegna þess að ég held, að þetta sé einasti mögulegi grundvöllurinn til þess að ljósmæður geti virkilega unnið fyrir sér með sínum störfum.

Eitt af því, sem háir héraðslæknum mjög, er skortur á aðstoðarfólki. Störf þeirra eru svo margþætt og tímafrek, að erfitt er að komast yfir þau, svo að vel sé, og því er það, að seinni þátturinn kemur einnig til greina, og hann er sá, að ljósmæður, sem eru staðsettar fjarri héraðslækninum, en í sama héraði, geta einnig veitt honum margháttaða hjálp, sparað honum marga ferðina og skapað aukið öryggi í héraðinu. Ég vil því eindregið mælast til þess, að n. sú, er fær þetta frv. til afgreiðslu, athugi, hvort ekki megi breyta námsefni ljósmæðra á þann veg, er hér hefur verið minnzt á, og stuðla að námskeiðum fyrir eldri ljósmæður, svo að starfskraftar þessa mikilvæga fólks geti nýtzt betur en nú er, þar sem mér er ljóst, að þörf er mjög mikil fyrir hjálp á þessu sviði.