08.05.1972
Efri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2851)

168. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur fengið til umsagnar frv. til l. um breyt. á ljósmæðralögum. Þetta frv. var flutt af okkur hv. 3. þm. Austf. Það laut aðallega að tvennu: Annars vegar, að launakjör skipaðra ljósmæðra skuli ákveðin með kjarasamningum á sama hátt og laun opinberra starfsmanna, en ekki með þeirri undarlegu reglu, sem lengi hefur gilt og ekki er í neinu samræmi við venjulegar kjaraákvarðanir. Í öðru lagi var það um það, að ljósmóðir eigi rétt á orlofi á sama hátt og aðrir opinberir starfsmenn. Til viðbótar þessu voru svo í frv. ákvæði þau til bráðabirgða, að endurskoðuð yrði skipting í ljósmæðraumdæmi. Þetta var aðalefni frv. Það var flutt að ósk ljósmæðra úti í dreifbýlinu sem sjálfsögð réttarbót þeim til handa.

Leitað var umsagnar um frv. og samkv. umsögn landlæknis stendur nú yfir allsherjar endurskoðun á ljósmæðralögunum, framkvæmd af n., sem skipuð mun hafa verið til þessa starfs í fyrra. Sömuleiðis vísaði formaður Ljósmæðrafélagsins í viðtali til þessarar endurskoðunar, en fagnaði þeim bótum, sem í frv. felast, sem hún taldi víst, að næðu fram að ganga í endanlegri heildarmynd þess eftir endurskoðun.

Ég hef það fyrir satt, að þessi frv.-flutningur hafi örvað þessa hv. n. til starfa og er það vel, og með tilliti til þessarar heildarendurskoðunar laganna og í trausti þess, að þar verði fljótt og vel að unnið, þá leggur heilbr.- og félmn, einróma til, að frv. verði vísað til ríkisstj. Það skal tekið fram, að hv. 6. þm. Reykv. var fjarstaddur, er n. afgreiddi málið.