22.03.1972
Efri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2862)

228. mál, fiskvinnsluskóli

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. segir, að stuðlað skuli að því að dreifa opinberum stofnunum um landið.

Ég geri mér grein fyrir því, að þetta er að mörgu leyti mjög erfitt mál og raunar langtímaþróun, ef vel á að takast. En ég hygg, að það sé mjög aukinn og vaxandi skilningur meðal landsmanna á nauðsyn þess, að opinberum stofnunum sé ætlaður staður víðar en hér á höfuðborgarsvæðinu, skilningur á því, að slíkt er öllu landinu raunar nauðsynlegt að ýmsu leyti.

Aðrar þjóðir hafa skoðað svipuð mál. t. d. Norðmenn, sem settu á fót n. hjá sér til þess að kanna þetta, og var þar um að ræða flutning opinberra stofnana frá Óslóarsvæðinu. N. komst eftir langa athugun að þeirri niðurstöðu, að það væri ýmsum erfiðleikum háð að flytja opinberar þjónustustofnanir út í dreifbýlið eða m. ö. o. stofnanir, sem þurfa að hafa náið samband við ríkisvaldið eða rn. og vera þannig staðsettar, að sem flestir landsmenn hafi auðveldan samgönguaðgang að þessum stofnunum og starfsmönnum þeirra. N. komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að um ýmsa skóla gegndi nokkuð öðru máli, og væru þeir að ýmsu leyti betur staðsettir úti í dreifbýlinu heldur en á þéttbýlissvæðunum.

Þess ber einnig að gæta í þessu sambandi, að erfiðara verður að flytja opinberar stofnanir og jafnvel skóla, þegar slíkar stofnanir hafa fest rætur á ákveðnum stað, t. d. verið yfir þær byggt eða kennarar ráðnir til slíkra stofnana og þær tengdar ýmsu á viðkomandi svæði.

Okkur flm. þessa frv. sýndist því ástæða til að hreyfa þessu máli um staðsetningu fiskvinnsluskóla fyrr en síðar. Lög um fiskvinnsluskóla voru samþykkt á hinn háa Alþ. á s. l. ári á síðustu dögum þess þings. Ég sat hér þá sem varamaður nokkra stund og kynntist nokkuð meðferð þessa máls. Á allra síðustu stundu komu áskoranir bæði frá bæjarstjórn Akureyrar og sömuleiðis bæjarstjórn Ísafjarðar um staðsetningu þessa skóla á Ísafirði, en sökum þess hve seint þær komu fram reyndist ekki unnt að taka tillit til þeirra, og það var talið varasamt að tefja málið með breytingum á því frv., sem þá lá fyrir. Ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til þess að hreyfa þessu máli þá. Ég taldi mjög mikilvægt, að skóli þessi kæmist á fót, en hins vegar var ég þá eins og nú þeirrar skoðunar, að kanna bæri, hvort skólinn væri ekki betur staðsettur utan höfuðborgarsvæðisins.

Raunar vil ég vekja athygli á því, að í meðferð Alþ. á þessu máli varð að margra dómi 6. gr. frv., sem fjallar um staðsetningu skólans, nokkuð furðuleg. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Skólinn skal staðsettur á Suðvesturlandi. Auk þess skal stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara“ o. s. frv. Síðan heldur áfram: „Á árunum 1972–1975 skal enn fremur undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum, Akranesi og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum: M. ö. o.: skólinn á að vera staðsettur á Suðvesturlandi, en síðan á að undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs enn á Suðurnesjum, sem að sjálfsögðu er á Suðvesturlandi, og á Akranesi, sérstaklega tilgreint. Ég hygg raunar, að öllum hafi borið saman um, að þessari gr., eins og hún var orðin í meðferð þingsins, væri nokkuð ábótavant og ástæða til þess að lagfæra hana.

Með því frv., sem ég hef hér lagt fram ásamt 4. þm. Vestf., gerum við ráð fyrir því, að gr. þessi breytist þannig, að skálinn skuli staðsettur á Ísafirði, en allar aðrar deildir skólans, sem síðar verða settar upp, fari eftir ákvæðum gildandi laga.

Ég tel að mörgu leyti mjög eðlilegt að staðsetja fiskvinnsluskólann á Ísafirði. Það eru fáir staðir og fá landssvæði, sem eru eins háð fiskvinnslu og Vestfirðirnir og ekki sízt Ísafjarðarsvæðið. Þar er hver fiskvinnslustöðin við aðra. Þar er fiskvinnsla fjölbreytt, þar eru sum af beztu frystihúsum þessa lands. Þar er einnig rækjuvinnsla og skelfiskvinnsla, og ég vil einnig geta þess, sem að mínu viti er mjög mikilvægt í þessu sambandi, að á Ísafirði er nú kominn ágætur vísir að menntaskóla, sem virðist dafna vel. Það er mikil aðsókn að þeim skóla og sýnist mér sjálfsagt að athuga, eins og raunar er minnzt á í grg. með þessu frv., að koma á nánum tengslum milli fiskvinnsluskóla, ef samþykkt verður, að hann verði staðsettur á Ísafirði, og menntaskólans, sem þar er nú. Sýnist mér, að báðir skólarnir gætu notið góðs af.

Með frv. er nokkuð ýtarleg grg., sem ég leyfi mér að vísa til. og get því stytt mitt mál. Ég vil aðeins geta þess, að mér hefur sýnzt við athugun á þessu máli, að tveir staðir væru eðlilegastir fyrir fiskvinnsluskálann, annaðhvort Ísafjörður eða Vestmannaeyjar. Ég veit, að það er áhugi á því að fá skólann til Vestmannaeyja, og get ég vel skilið það og raunar fallizt á þau sjónarmið, er þar hafa fram komið. En ég vil vekja athygli á því, að í 6. gr. laganna og einnig í því frv., sem nú er lagt fram, er gert ráð fyrir því að stofnaður verði fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara samkv. 1. og 2. tölul. 2. gr., og skal námi skólans skipt í þrjár deildir. Þetta er óbreytt. Hins vegar tel ég, að það sé Ísafirði til framdráttar í þessu máli, að þar er kominn menntaskóli, eins og ég sagði áðan, og mjög æskilegt að tengja þessa tvo skóla.

Að þessum orðum sögðum vil ég leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.