22.03.1972
Efri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2863)

228. mál, fiskvinnsluskóli

Jón Helgason:

Herra forseti. Tveir hv. þm. Vestf. hafa á þskj. 482 flutt frv. til l. um breyt. á l. um fiskvinnsluskóla, nr. 55 15. apríl 1971. Í 6. gr. þeirra laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skólinn skal staðsettur á Suðvesturlandi. Auk þess skal stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara samkv. l. og 2. tölul. 2. gr., og skal námi við skólann skipt í þrjár deildir, sbr. 1.-3. tölul. 10. gr.

Á árunum 1972–1975 skal enn fremur undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum, Akranesi og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum.

Heimilt skal að fengnu samþykki rn., að setja á stofn framhaldsdeildir við skólana utan Reykjavíkur, sbr. 4. gr., þegar skilyrði eru fyrir hendi.“

Eins og hv. frsm. minntist hér á, hefur, síðan þessi lög voru samþ., hæstv. núv. ríkisstj. lýst því yfir í málefnasamningi sínum, að stefnt verði að því, að ríkisstofnunum verði valinn staður úti um land meir en nú er gert. Til þess að vinna að þessu yfirlýsta markmiði ríkisstj. virðist því augljóst tækifæri að framkvæma lög um fiskvinnsluskóla þannig að velja fyrsta skólanum, sem stofnaður er, stað í Vestmannaeyjum. Þær hljóta að teljast til þess landshluta, sem við heyrum í ríkisútvarpinu oft á dag kallaðan Suðvesturland, og því ætti að mega stofna þann skóla, sem fyrst og fremst virðist talað um í I. kafla laganna, í Vestmannaeyjum. En verði ekki fallizt á þá skoðun, er ekkert í lögunum, sem mælir á móti því, að fyrst verði hafizt handa um stofnun þess skóla, sem sérstaklega er tekið fram um, að stofna eigi þar, enda eru Vestmannaeyjar eini staðurinn, sem lögin taka afdráttarlaust fram um, að stofna eigi skóla á strax, og þarf því ekkert að deila þar um staðarval.

Í 1. mgr. 6. gr. l., sem ég las hér upp, er að vísu aðeins tekið fram, að við skólann í Vestmannaeyjum eigi að vera þrjár fyrstu deildir skólans, undirbúningsdeild, fiskiðadeild og meistaradeild. En það kom einnig fram síðar í sömu gr., að veitt er heimild til að setja á stofn framhaldsdeildir við slíka skóla, svo framarlega sem þeir eru utan Reykjavíkur, og eru Vestmannseyjar þar ekki undanþegnar. Það er augljóst, að margt mælir með því, að í Vestmannaeyjum verði fyrsta fiskvinnsluskólanum valinn staður. Þetta er stærsta verstöð landsins, þar sem allar algengustu bolfisktegundir hér við land eru veiddar og unnar allt árið, en það hlýtur að auðvelda alla verklega kennslu við skólann. Þessi skoðun kom m. a. glöggt fram hjá Útvegsbanka Íslands fyrir nokkrum árum, þegar hann gaf myndarlega upphæð til stofnunar fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum.

Í grg. fyrir frv. á þskj. 482 er skýrt frá því, að með stofnun menntaskólans á Ísafirði sé að rísa upp menntamiðstöð Vestfjarða. Ég vil af heilum hug láta í ljós ánægju mína yfir þeirri þróun, þar sem ég er búsettur í fámennu héraði og skil því vel, hvað það er mikilvægt fyrir þróun byggðar á Vestfjörðum. En mér finnst það einmitt beztu rökin fyrir því, hvað mikla áherzlu þurfi að leggja á stofnun fullkomins fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum. Þar er ekki menntaskóli. Mér er ekki kunnugt um, að undirbúningur að stofnun hans sé enn á döfinni. En skóli, sem veitti víðtæka kennslu og starfsþjálfun í þessum undirstöðuatvinnuvegi Vestmanneyinga, ætti að einhverju leyti að geta gegnt svipuðu hlutverki í menntalífinu þar og menntaskóli á Ísafirði gerir á Vestfjörðum, enda er í 4. gr. laga um fiskvinnsluskála gert ráð fyrir, að nemendur, sem ljúka námi í framhaldsdeild hans, eigi aðgang að frekara námi í háskóla. Það er ómetanlegt fyrir hvert byggðarlag, að sem flestir nemendur þar geti stundað nauðsynlegt nám innan þess, en þurfi ekki um margra ára skeið að dvelja fjarri sinni heimabyggð til að geta stundað það. Vaxandi kröfur til fiskiðnaðarins eins og annarra atvinnuvega um fjölbreytni, vörugæði, afköst og annað þess háttar munu heimta meiri þekkingu af starfsfólkinu. Mikið af þeirri þekkingu ætti að vera hægt að fá í fiskvinnsluskóla. En óhjákvæmilegt hlýtur að verða, að nokkur hluti starfsfólksins hafi meiri sérþekkingu en þar verður unnt að veita. Hjá því starfsliði ætti því að vera hægt að fá nauðsynlega kennslukrafta að skólanum, að svo miklu leyti sem kennsla við hann verður ekki fullt starf kennaranna. Og gagnkvæmt ætti aðgangur að kennslu e. t. v. að auðvelda atvinnufyrirtækjum að ráða sérfræðinga í sína þjónustu.

Við vitum, að það er margt, sem þarf að gera í okkar landi. Verkefnin blasa alls staðar við. En við vitum líka, að ekki er hægt að gera allt í einu. Það verður einhvers staðar að byrja og ganga síðan á röðina. Ef hv. Alþ. samþykkir nú, að fiskvinnsluskóli sá, sem fyrst og fremst virðist talað um í I. kafla laga um fiskvinnsluskóla, skuli vera á Ísafirði, þá yrði það til að draga framkvæmd ákvæðisins um stofnun skóla í Vestmannaeyjum, þar sem óhjákvæmilega yrði þá litið þannig á, að mest áherzla væri lögð á stofnun þess fyrrnefnda. Ég vil vara við því að hefja harðar deilur milli landshluta um staðarval slíkra stofnana utan Reykjavíkur, þar sem hætt er þá við, að það hindri nauðsynlega dreifingu þeirra um landið. Og allra sízt finnst mér, að rökstyðja megi staðarvalið með því, að þær eigi að vera þar, sem aðrar, er svipuðu hlutverki geta gegnt, eru komnar áður. Þvert á móti tel ég, að við þurfum að vinna saman að skynsamlegri dreifingu þeirra milli héraða, þannig að stuðningur verði að þeim í sem flestum byggðarlögum. Það þarf á þessu sviði sem öðrum að hugsa um fólkið alls staðar í landinu.

Ég vænti því þess, að sem flestir geti fallizt á þá skoðun, sem ég hef rökstutt í þessum orðum, að lög um fiskvinnsluskóla verði þegar framkvæmd með stofnun fyrsta fiskvinnsluskólans í Vestmannaeyjum og síðan verði haldið áfram við stofnun þeirra annars staðar á landinu, eins og lög gera ráð fyrir. Ég vona því, að hv. n., sem fær mál þetta til meðferðar, sjái ekki ástæðu til að mæla með samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir, en komi það óbreytt til 2. umr., mun verða flutt brtt. við það.