22.03.1972
Efri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2865)

228. mál, fiskvinnsluskóli

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil við þessa 1. umr. ekki láta hjá líða að 1ýsa fyllsta stuðningi mínum við þetta frv. Ég get tekið undir öll þau rök, sem hv. 1. þm. Vestf. taldi fram fyrir frv. þessu í sinni ræðu.

Ég skal því ekki fara að endurtaka það, sem þar var sagt. En eitt af því, sem hv. þm. upplýsti og einnig er tekið fram í grg. með frv., er það, að í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar frá 14. júlí 1971, segir, að stefnt verði að því, að ríkisstofnunum verði valinn staður úti um land meir en nú er gert. Ég er líka sammála þessu. Ég styð þessa stefnu ríkisstj. og tel að þetta sé mjög þýðingarmikið atriði. En með því að hæstv. ríkisstj. telur þetta atriði svo mikilvægt, að hún tekur það sérstaklega fram í málefnasamningnum, geri ég ráð fyrir því, að ríkisstj. muni vinna á skipulegan og markvissan hátt að framkvæmd þessa máls.

Ég held að það sé ekki vandalaust að framkvæma þetta stefnuatriði. Ég held, að það sé mjög óhyggilegt að kasta hér fram frv. um, að ýmsar stofnanir skuli fluttar héðan úr höfuðstaðnum til hinna ýmsu staða úti á landsbyggðinni, ef það mál er ekki sérlega vel undirbúið og litið á þessi mál í heild. Það er hægt að deila hér endalaust um staðsetningu ýmissa opinberra stofnana, ef á að flytja þær út á land. Það örlar á því hér í þessum umr., að slíkt sé gert. En kannske er það vegna þess, að hv. 4. þm. Sunnl., sem hér talaði áðan, er varaþingmaður, að hann er ekki svo inni í þeim ráðagerðum, sem ríkisstj. hefur uppi í þessum efnum, og ég geri ráð fyrir, að sé búið að kynna í þingflokkum ríkisstj.

Með því að þetta mál er þess eðlis, vildi ég mega gera ráð fyrir því, að hv. 1. og hv. 4. þm. Vestf. hafi undirbúið þetta mál betur en fram kom eða mátti ætla, eftir því sem hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan. Ég geri ráð fyrir, að til þess að tryggja framgang þessa máls, hljóti þeir að hafa rætt þetta mál við ríkisstj. Ég hef þess vegna ástæðu til þess að ætla, ef þessi eðlilegu vinnubrögð hafa verið viðhöfð, að gera megi ráð fyrir, að það sé stefna ríkisstj., að fiskvinnsluskóli verði staðsettur á Ísafirði. Ég vil ekki ætla það, að þessir hv. þm., 1. og 4. þm. Vestf., hreyfi svo þýðingarmiklu máli fyrir Vestfjarðakjördæmi nema þeir hafi undirbúið það með eins tryggilegum hætti og hægt er. Ef það er ekki, þá segir mér svo hugur um, að hér sé aðeins kastað bolta inn í hæstv. deild, til þess að menn geti hent á milli sín og komið með margháttaðar till. um staðsetningu skólans, eins og raunar er búið að boða frá einum hv. þm. nú þegar. Ég vil þess vegna spyrja hv. 1. þm. Vestf., hvort það megi líta svo á, að það sé stefna ríkisstj., að fiskvinnsluskólinn verði á Ísafirði.