15.05.1972
Neðri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2879)

114. mál, námulög

Frsm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram á Alþ. í fyrra, var undirbúið af fyrrv. ríkisstj. og hefur legið fyrir tveim þingum, þannig að þm. hafa fengið ærinn tíma til að íhuga málið, og sé ég því ekki ástæðu til þess að rifja hér upp þær breyt., sem það felur í sér, en ég hygg, að undantekningarlaust megi segja, að þær stefni í rétta átt.

Iðnn. hefur lagt allmikla vinnu í að athuga þetta mál. Niðurstaða hennar er sú, að hún leggur til, að gerðar séu á því þrjár breytingar.

Fyrsta breyt. er við 2. gr. frv. og er gerð samkv. till. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. En eins og kunnugt er, hefur verið nokkur deila milli ríkisins og sveitarfélaga um eignarrétt á afréttum, almenningum. Breyt. sú, sem gerð er á 2. gr., samkv. till. Sambands ísl. sveitarfélaga, felur það í sér, að þetta frv. tekur ekki neina afstöðu til þeirrar deilu, þannig að það mál stendur óbreytt eftir sem áður. En eins og 2. gr. er orðuð nú, mætti kannske skilja þetta á þann veg, að réttur ríkisins væri gerður meiri en mörg sveitarfélög telja, að hann sé í dag. En sem sagt, breyt. felur það í sér, að Alþ. tekur enga afstöðu til þessa atriðis.

Önnur brtt. er við 5. gr., í henni er lagt til, að stofnað verði embætti sérstaks eftirlitsmanns, sem fylgist með málmleit og öðru í því sambandi. N. taldi hæpið, að nauðsynlegt væri að setja á stofn sérstakt embætti til þess að hafa slíkt eftirlit með höndum, og þess vegna var ákvæðið um þessa embættisstofnun fellt niður og eftirlitið, sem þessi sérstaki embættismaður átti að hafa samkv. frv. eins og það nú er, verður falið rn. þess ráðh., sem með þessi mál fer.

Það er orðin æðimikil venja, þegar verið er að endurskoða lagabálka eins og þessa, að jafnhliða sé sett á fót eitthvert nýtt embætti eða ný stofnun. Mér finnst rétt að minnast á þetta hér, vegna þess að ég held, að hér sé farið inn á mjög háskalega braut, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið. Það er þannig alltaf verið að búa til nýjar og nýjar stofnanir og ný embætti, þó að um sé að ræða störf, sem vel mætti fela einhverjum þeim stofnunum, sem fyrir eru. Með þessari brtt. er lagt til, að í þetta skipti skuli ekki haldið inn á þá braut, og því lagt til, að það embætti, sem fjallað er um í 5. gr., eins og hún er nú, verði fellt niður og eftirlitið með námuleit og öðru slíku heyri undir viðkomandi rn.

Þriðja brtt. er við 8. gr. og fjallar um það að gera rétt landeigenda enn gleggri en gert er í frvgr., þannig að ef ráðh. tekur landareign lögnámi, skal þó fyrri eigandi eiga forgangsrétt að sérleyfi næst á eftir ríkinu. Þetta er ekki nægilega ljóst, eins og gr. er orðuð. N. þótti sjálfsagt að tryggja rétt landeigenda á þennan hátt.

Með þeim breyt., sem ég hef nú rakið, leggur n. til, að frv. verði samþ., en þess skal getið, að einn nefndarmanna, hv. 5. þm. Norðurl. e., tók ekki endanlega afstöðu til málsins og annar nm., hv. 5. þm. Reykv., var fjarverandi, þegar málið var afgreitt.