08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umr., en ég taldi mér skylt að koma hér upp og reyna að svara fsp., sem til mín var beint af hálfu 5. þm. Vestf. Hann er nú víst ekki hér, en það kemur nú sjálfsagt ekki að sök.

Þessar fsp. voru nú líka þess háttar, að svörin við þeim er að finna, held ég, í sjálfu frv., ef það er lesið með fullri gát. Hann spurði um það, hv. þm., hvað fælist í 3. mgr. 30. gr., þar sem segir:

„Enn fremur er sjóðsstjórninni“ — þ.e. Byggðasjóðsstjórninni — „heimilt, ef sérstaklega stendur á, að gerast fyrir hönd sjóðsins meðeigandi í atvinnufyrirtæki, sem hún telur nauðsynlegt að koma á fót eða starfrækja áfram í samræmi við tilgang sjóðsins og þarfir viðkomandi byggðarlags.“

Hann spurði, hv. þm., undir hvaða kringumstæðum þetta gæti komið til greina. því vil ég svara svo, að fyrst og fremst tel ég þetta geta komið til greina, þegar um er að ræða ný fyrirtæki, en við vitum það vel, að staðir úti á landi, mörg kauptún og sjávarþorp, sem við báðir þekkjum vel, hafa oft ærinn áhuga á því að eignast atvinnutæki, t.d. skip, byggja frystihús o.s.frv., en geta heimamanna til þess er takmörkuð. Það vantar tilstyrk, e.t.v. eitthvert fjármagn og auk þess góð ráð. Og það er einmitt í slíkum tilfellum, sem ég álít, að Byggðasjóðurinn eigi fyrst og fremst að koma til og reyna að örva til stofnunar slíks fyrirtækis og létta undir með heimað mönnum og leggja þá til fjármagn eftir atvikum til þess n að fylla í skarðið. Það getur vel verið, að slíkt ástand þurfi ekki að vera nema tímabundið, vegna þess að heimamenn verði þess umkomnir að leysa slíkt fé til sín.

En í annan stað á þetta líka við undir þeim kringa umstæðum, að sett hafi verið á stofn nytsöm fyrirtæki á einhverjum stöðum, nytsöm fyrirtæki, sem veita mörgum mönnum atvinnu, — stundum e.t.v. ný, — en eiga á við ýmsa byrjunarörðugleika að stríða. Þá komast þau á því miður stundum í vandræði og þurfa að leita til hins opinbera. Þau komast ekki hjá því. Auðvitað geta þau leitað, má segja, beint til ríkisstj. og Alþ. um slíka fyrirgreiðslu, og slíkt hefur auðvitað átt sér stað og er í eðlilegt. En ég held, að það geti einmitt verið heppilegt, að undir slíkum kringumstæðum sé til þessi stofnun, sem hafi heimild til þess að hlaupa undir bagga og a hjálpa til við að halda starfrækslu áfram um skeið og — koma henni e.t.v. yfir örðugasta hjallann. Ég held fyrir — mitt leyti, að þetta geti verið svo sjálfsagt og eðlilegt, að ég efast ekki um, að allir þm., hvaða flokki sem þeir n tilheyra, geti játazt undir þetta undir vissum kringumstæðum, og dettur, að ég hygg, engum í hug að flokka slíkt á nokkurn hátt undir þjóðnýtingu.

Þá spurði hv. þm. að því, hvað mundi nánar felast í 3. a mgr. 12. gr. Ég held, að spurning hans hafi eiginlega verið á þá lund, hvort í henni ætti að felast það, að e.t.v. væri hægt með þessum almennu reglum, sem stjórn Framkvæmdastofnunarinnar er heimilað að setja um forgang vissra framkvæmda, að breyta lögum eða reglum, sem settar væru í lögum um tiltekna útlánastarfsemi. Ég svara þessari spurningu hiklaust neitandi. Það liggur að mínu viti í augum uppi, að slíkt kemur ekki til greina, að hægt sé að breyta þannig ákvæðum í settum lögum.

Hann spurði líka um það, hvað fælist í 2. mgr. 13. gr. Það er raunar nokkuð hliðstætt ákvæði 3. mgr. 30. gr., en í þessari 2. mgr. 13. gr. er um það að tefla, að lánadeildin geti átt frumkvæði að stofnun nýrra fyrirtækja samkv. áætlun stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar. „Lætur hún þá vinna nauðsynleg áætlunar- og undirbúningsstörf og leitar síðan samvinnu við aðra aðila um að koma fyrirtækinu á fót.“ Þetta á við það, sem ég sagði áðan, að sem betur fer eigum við víða hugmyndaríka og framtakssama menn, sem koma auga á möguleika og hafa vilja og löngun til að koma einhverju fyrirtæki á fót eða atvinnurekstri af stað. Þetta getur verið á ýmsum sviðum, ekki kannske sízt á sviði iðnaðar, sem þeir koma auga á einhverja leið til þess að framleiða einhverjar iðnaðarvörur, sem kannske eru ekki hér fyrir hendi. En þótt þessir aðilar fái þannig hugmynd, þá getur vel staðið svo á, að þeir hafi ekki aðstöðu til þess að láta fara fram þá athugun, sem er í raun og veru nauðsynleg og á alltaf að fara fram, áður en nokkru verulegu fyrirtæki er hleypt af stokkunum, þ.e. að láta kanna það á hlutlægan hátt og af kunnáttumönnum, hvort nokkurt vit er í þessu. Því að þótt hugmyndir séu góðar, þá er það nú því miður ekki alltaf, að þær séu framkvæmanlegar. Og það er þetta, sem ég álít, að þessi stofnun eigi þá fyrst og fremst að gera, þ.e.a.s. að menn geta leitað til hennar um slíka aðstoð.

Auðvitað getur líka átt sér stað, að innan sjálfrar stofnunarinnar vakni hugmynd að slíku fyrirtæki eða slíkum atvinnurekstri, og þá er henni ætlað að hafa þetta frumkvæði. En í öllum tilfellum er það fyrst og fremst frumkvæðið, sem um er að tefla, undirbúningsvinna í sambandi við stofnun fyrirtækis og að koma því af stað. En það er gert ráð fyrir því sem aðalreglu, að það séu aðrir aðilar, sem í raun og veru taki við þessu fyrirtæki, einstaklingar eða einstaklingar í samvinnu við sveitarfélög. Þó vil ég auðvitað ekki útiloka þann möguleika, að þessi stofnun geti um skeið eða lengur eftir atvikum átt einhvern hlut í slíku fyrirtæki. En þetta er það, sem vakir fyrir okkur.

Það er rétt, sem segir í aths. við þessa gr., að þetta er nýjung, að gert sé ráð fyrir því í lögum, að opinber stofnun geti þannig átt frumkvæði og aðild að stofnun atvinnufyrirtækis. Á hinn bóginn má segja, að Framkvæmdasjóður Íslands hafi farið inn á þessa braut án þess þó, að skýr lagaheimild væri fyrir hendi, ekki beint um stofnun nýs fyrirtækis, heldur um endurreisn og uppbyggingu fyrirtækis, sem óþarft er að nefna. Menn kannast við það. Ég vona, að ég hafi þá gert nokkra grein fyrir þessu.

Í fjórða lagi spurði hv. þm., hvort ekki væri þá gert ráð fyrir því, að aðrir sjóðir en þeir, sem í 17. gr. segir, geti sameinazt stofnuninni. En í 17. gr. er gert ráð fyrir því, að stjórn stofnunarinnar leiti samninga við tiltekna sjóði. Það er rétt hjá hv. þm., að ég svaraði þessu ekki sérstaklega við 1. umr. Það var nú raunar af því, að ég taldi mig hafa gert nokkuð glögga grein fyrir því í framsöguræðu, þar sem ég gerði talsvert ítarlega grein fyrir þeim stofnlánasjóðum, sem hér væru til og um væri að tefla, og gerði nokkra grein fyrir mismunandi eðli þeirra, hvernig þeir væru til komnir. Og það er náttúrlega ljóst, að ekki er hægt að hugsa sér það, a.m.k. ekki alveg umsvífalaust, að setja ýmsa af þeim sjóðum, sem eru þó þýðingarmiklir fjárfestingarsjóðir, undir þessa stofnun, af því t.d. að þeir eru til komnir með samningum milli tiltekinna aðila, eins og Atvinnuleysistryggingasjóður, líftryggingasjóðir og fleiri sjóðir. Það verður ekki um sameiningu þessara sjóða að tefla við þessa stofnun, a.m.k. ekki nema reynslan af henni verði svo góð, að aðilar þeir, sem standa að þessum sjóðum, sækist eftir því að koma þeim undir hana. Svo eru margir aðrir sjóðir. Ég fer ekki að telja þá upp hérna, ég gerði grein fyrir þeim um daginn. Markið á þeim er það yfirleitt, að þeir eru stofnaðir með Lögum og hafa sérstaka stjórn og sérstakt markmið. Það þótti ekki rétt að athuguðu máli að steypa þeim saman við þessa stofnun, enda þykir nú víst sumum nóg um það vald, sem henni er ætlað. Hins vegar er það auðvitað til íhugunar síðar, ef löggjafanum sýnist svo, að leggja einhverja af þessum sjóðum til stofnunarinnar. Ég get nefnt hér Fiskveiðasjóð og Fiskimálasjóð, ekki af því að ég telji þá neitt sérstaklega koma til greina í þessu sambandi, heldur bara dæmi um sjóði, sem geta komið til athugunar síðar. En það er nú samt svo með ýmsa af þessum stofnlánasjóðum eins og Fiskveiða§jóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl., að þó að þeir yrðu auðvitað aldrei sameinaðir í svona stofnun öðruvísi en þannig, að þeir héldu áfram að vera sérsjóðir með sérstöku bókhaldi og þjónuðu sínum tilgangi, þá býst ég við, að það yrði nú svo hjá mörgum, þegar til kastanna kæmi, að þeir teldu eðlilegra, að þeir sjóðir væru áfram með nokkuð svipuðum hætti og verið hefur og reynsla er af fengin. Hitt er samt alveg víst, að það verður að vera samvinna á milli þessara sjóða innbyrðis og á milli þeirra sjóða, sem faldir eru forsjá þessarar stofnunar.

Þetta voru þær spurningar, sem beint var til mín, og ég skal ekki fara mikið þar út fyrir og ekki fara að elta ólar við það, sem kom fram hér. Auðvitað er ég sammála hv. 5. þm. Vestf. um það, að dómarar eigi að vera ópólitískir, en samt sem áður er það nú svo, að margir dómarar hafa fyrr og síðar setið á þingi og reynzt hinir nýtustu menn, og svo fjarstætt sem okkur finnst það nú í dag, að hæstaréttardómarar ættu t.d. að sitja á þingi, þá sátu um langt skeið allir yfirdómarar í landsyfirrétti á þingi og þóttu meðal fremstu þm. Ég er samt ekki að mæla með því, að slíkt skipulag verði upp tekið. En það held ég, að sé óhætt að segja, að bæði sjálfstæðismenn og eins við framsóknarmenn o.fl. hafa rennt hýru auga til ýmissa dómara til þess að fá þá í framboð og koma þeim á þing, þannig að það er nú ekki alveg strangt í þessum efnum hjá okkur, en sammála er ég þessu megin-„prinsipi“. Auðvitað má nú endalaust fara út í það, að tala um stofnanir, þar sem pólitísk sjónarmið ættu ekki að koma til greina fremur en að þeirra áliti í framkvæmdaráði, eða hvað er t.d. að segja um útvarpsráð? Mundu ekki margir telja heppilegt, að það væru ópólitískir menn, ef þeir eru þá finnanlegir, sem þar stjórna? Og ég hygg, að þannig mætti finna ýmsar fleiri stofnanir.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér, vil ég aðeins taka fram, að það er misskilningur hjá honum, að hjá mér hafi gætt nokkurrar gagnrýni á Efnahagsstofnunina. Ég hef alls ekki gagnrýnt hana á nokkurn hátt. Hitt er rétt, eins og einmitt kom fram hjá honum, að hún hefur ekki að öllu leyti getað ráðið við sín verkefni, annaðhvort af því að henni hefur ekki verið séð fyrir nægilegum starfskröftum eða að slíkir starfskraftar hafa ekki verið fáanlegir. Ég hygg, og ég tók það alveg sérstaklega fram í framsöguræðu minni fyrir þessu frv., að við hefðum einmitt í sambandi við þessar stofnanir, sem hér hafa starfað um skeið, eignazt efnilega menn, sem hefðu fengið reynslu í þessum störfum, og ég lýsti þeirri skoðun minni, að það mundi verða lögð áherzla á það að nýta og reyna að fá að njóta þeirra starfskrafta áfram í þessari stofnun.

Það er hægt að spyrja, gagnvart hverjum þetta framkvæmdaráð beri ábyrgð. Ég mundi nú svara fljótt á litið, að ég teldi, að það bæri ábyrgð gagnvart ríkisstj., það finnst mér einfalt og augljóst mál. ríkisstj. getur vikið framkvæmdaráðsmönnum frá með mánaðar fyrirvara, en hins vegar má svo segja, að óbeint kannske beri þeir ábyrgð fyrir Alþ., af því að það er einmitt tekið fram, að ríkisstj. er skylt að gera Alþ. árlega grein fyrir starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar, og þá hefur Alþ. vissulega tækifæri til að gera sínar aths., ef því þykir svo sem þar hafi ekki verið staðið í stykkinu. Ég hygg nú, að það mætti benda á ýmis dæmi frá undanförnum árum um stofnanir, þar sem væri kannske ekki öllu gleggra að fá fram heldur en í þessu tilfelli, hvar ábyrgðin væri. Ég held t.d., að alveg þessi sami háttur hafi verið hafður á, sem hér er ráðgerður, um gjaldeyrisnefnd á sínum tíma. Það var ríkisstj., sem skipaði hana, ef ég man rétt, eftir tilnefningu einhverra aðila, og það voru sannarlega viðkvæm mál, sem sú nefnd fór með. Ekki bar hún neina ábyrgð fyrir Alþ., heldur fyrir ríkisstj. Alveg sama máli gegndi um viðskiptaráð svo kallað, sem að vísu var nú skipað af utanþingsstjórninni á sínum tíma, en hins vegar svo algerlega sama regla um nýbyggingaráð og fjárhagsráð, þar sem í sátu menn, skipaðir af ríkisstj., og áttu þó sjálfstæðismenn ásamt öðrum þátt í því að koma þeim stofnunum á fót. Ég hygg því, að að þessu leyti sé ekki verið að fara inn á neina nýja braut í þessu efni.

Það er margt hægt að segja um áætlanir og áætlanagerðir, hvernig þeim ætti að vera fyrir komið. Það má sannarlega segja, að sjálfs er höndin hollust. Það getur verið heppilegt, að atvinnufyrirtækin geti sjálf gert áætlanir. Mörg stór fyrirtæki í heiminum leggja allra aðila mesta stund á það að láta gera áætlanir og hafa áreiðanlega í sinni þjónustu allra færustu menn á þessu sviði. En það er bara þess að gæta, að við eigum svo ákaflega fá fyrirtæki hér á Íslandi, sem eru þess umkomin að láta gera úr garði slíkar áætlanir, sem verulegur fengur er að. Fyrirtæki okkar eru yfirleitt það smá.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Það er náttúrlega ekkert við því að segja, að skoðanir séu skiptar um þetta. Þess vegna skiptumst við í stjórnmálaflokka, að við höfum mismunandi sjónarmið. Ég efa það ekki, að allir viljum við vinna að auknum hagvexti og fullri atvinnu og því um líku, velsæld og velmegun okkar þjóðar, en menn greinir á, hvernig slíkt má bezt verða, og þá held ég, að það sé eitt einkennið, hvernig menn geti haft eða eigi að hafa áhrif á framvinduna, til þess að þessi fallegu og góðu markmið náist. Ég held, að það sé einkenni á þessu frv., að andinn í því og það, sem á bak við það býr, er það, að við viljum reyna að hafa áhrif á framvinduna með því að velja fyrir fram markmið og leiðir. Það er það, sem svona stofnun er ætlað að gera. Aðrir aftur á móti vilja í stað þess láta framvinduna sjálfa, ef svo má segja, velja sér sin markmið og sínar leiðir, láta það koma svona meira af sjálfu sér. Og ég get vel gengið inn á það, að það sé einmitt eitt af þeim meginatriðum, sem greinir t.d. sjálfstæðismenn frá okkur í því efni, að við höfum meiri trú en þeir á því, að það sé hægt með aðgerðum sem þessum að hafa áhrif á það, hver framvindan verður.