23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2904)

182. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Með frv., þessu er lagt til, að komið verði á fót sérstakri stofnun, Tæknistofnun sjávarútvegsins, sem ætlað er það hlutverk að fylgjast með tæknimálefnum sjávarútvegsins, vinna að tilraunum í þeim efnum og reyna að stuðla að því að koma fram sem mestri hagræðingu við sjávarútvegsstörf, hvort heldur er á fiskiskipunum eða við þau störf í landi. Lagt er til með þessu frv., að stjórn þessarar stofnunar verði í höndum 5 manna og þeir verði fyrst og fremst tilnefndir af þýðingarmestu samtökum sjávarútvegsins. Þannig er lagt til, að Landssamband ísl. útvegsmanna tilnefni tvo menn í stjórn þessarar stofnunar, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands tilnefni einn og Sjómannasamband Íslands einn, en fimmti maðurinn verði skipaður af ráðh. án tilnefningar. Gert er ráð fyrir því, að tekjur þær, sem þessi stofnun ætti að styðjast við í störfum sínum, komi að verulegu leyti frá Fiskimálasjóði, þ. e. a. s. gert er ráð fyrir, að um 1/5 hluti þess hluta útflutningsgjalds af sjávarafurðum, sem rennur til Fiskimálasjóðs samkv. lögum, renni til þessarar stofnunar, og má búast við því, að það gæti verið á milli 3 og 4 millj. kr., miðað við þessi gjöld, eins og þau eru í dag. Auk þess er svo lagt til, að stofnunin fái fé úr ríkissjóði, sem nemur jafnhárri upphæð á ári og þessi hluti af útflutningsgjöldunum. Þetta yrðu aðaltekjur þessarar stofnunar. Hins vegar er síðan gert ráð fyrir því, að hún geti haft nokkrar tekjur af þeim verkum, sem hún tekur að sér að láta vinna fyrir ýmsa aðila.

Aðalverkefnin, sem þessari stofnun eru ætluð, eru, eins og ég sagði áðan, á sviði tæknimála sjávarútvegsins, og er þar um að ræða tæknimálefni, sem snerta fiskveiðarnar sem slíkar, þ. e. a. s. fiskiskipin, útbúnað þeirra og ýmiss konar tæki, vinnu, fyrirkomulag á fiskiskipunum og annað af slíku tagi, en einnig það, sem varðar t. d. fisklöndun eða önnur störf, sem eru nátengd fiskveiðunum, en þar getur auðvitað verið um að ræða ýmiss konar tækninýjungar, sem gætu stuðlað að auknu hagræði. Hér kæmu einnig undir tæknimálefni, sem snerta fiskvinnslu í landi, alls konar nýjungar varðandi vélar og útbúnað annan í sambandi við fiskvinnsluna. Þá er einnig ætlazt til, að þessi stofnun taki að sér að gera ýmsar tilraunir og grandskoða ýmsar hugmyndir, sem fram koma og mættu verða til framfara eða hagsbóta fyrir þennan atvinnuveg.

Það hefur lengi verið rætt um það í röðum sjávarútvegsmanna, að það þyrfti að koma upp stofnun af þessu tagi, vegna þess að menn hafa fundið, að þannig hefur verið staðið að þessum málum nú um langa hríð, að það verður að teljast mjög ófullnægjandi aðstaða. Að vísu hafa ýmsir aðilar, opinberir aðilar, fengizt við þessi málefni að meira eða minna leyti, en þar hefur verið tiltölulega lítil festa í og samstarf þeirra á milli hefur verið heldur lítið.

Í fyrsta lagi má nefna það, að Fiskimálasjóður hefur komið hér talsvert við sögu á undanförnum árum. Til þeirrar stofnunar hafa margir aðilar leitað með ýmiss konar hugmyndir um ný tæki og nýjar vélar, og Fiskimálasjóður hefur æðioft veitt í slíkum tilfellum styrki eða áhættulán til þess að láta gera athuganir á því, hvort þær hugmyndir eða þær vélar, sem hugmyndasmiðir hafa komið fram með hugmyndir um, fengju í rauninni staðizt í veruleikanum. En það verður að segja eins og er, að öll þessi starfsemi á vegum Fiskimálasjóðs hefur verið mjög laus í böndunum og engan veginn þar verið hægt að fylgja á eftir þessum málum sem skyldi, því að vitanlega er það svo, að í mjög mörgum tilfellum koma fram nýtar hugmyndir, en þá er líka nauðsynlegt að kosta til talsverðum fjármunum til þess að sannreyna það, hvort þær fái staðizt eða hvort þær geti raunverulega komið að notum. Til þess þarf þá tæknifróða menn, og oft þarf sérstök verkstæði til að geta fullprófað þessi mál.

Þá hefur Fiskifélag Íslands á undanförnum árum einnig haft þó nokkur afskipti af þessum málum, hefur stundum haft í sinni þjónustu sérstaka menn, sem sinnt hafa vissum greinum þessara tæknimála, og enginn vafi er á því, að þau störf hafa komið að góðu gagni. En það verður líka að segja það eins og er, að sú starfsemi öll er í molum og tilraunir, sem gerðar hafa verið á vegum félagsins hin síðari ár, hafa ekki heppnazt, og nú er svo komið, að það má segja, að á vegum félagsins sé tiltölulega lítil starfsemi á þessu sviði. Þá hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins um nokkra hríð fjallað um vissa þætti þessara mála, einkum að því leyti sem það hefur snert sérstaklega starfssvið þeirrar stofnunar, og er enginn vafi á því, að frá þeirri stofnun hafa komið ýmsar mjög gagnlegar leiðbeiningar og aðstoð við fiskiðnaðarfyrirtæki í landinu, og till. þeirrar stofnunar hafa miðað að því að koma fram ýmsum tækninýjungum og tækniframförum. En það er skoðun mín, að það fari miklu betur á því að reyna að fella þessa starfsemi sem mest saman á vegum einnar stofnunar, þó að að sjálfsögðu sé ekkert við því að segja, að til hliðar við hana kunni að vera meiri eða minni starfsemi áfram, t. d. á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, að því leyti til sem segja má að hún sé nokkuð sérhæfð til þess að fjalla um þau mál.

Þá hefur einnig á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar farið fram rannsókn á sumum þýðingarmiklum atriðum í þágu sjávarútvegsins, einkum varðandi veiðarfæri. En það er sem sagt skoðun mín, að það sé orðið mjög aðkallandi að koma á fót slíkri stofnun, sem lagt er til að koma upp samkv. þessu frv., og að þessi grundvallaratvinnuvegur landsmanna, svo þýðingarmikill sem hann er og víðtækur, þar sem hann grípur inn í mjög mörg og fjölbreytileg störf, geti stuðzt við eina sjálfstæða stofnun, þar sem fastir starfsmenn vinna frá ári til árs og öllum fróðleik er safnað saman varðandi þessi mál, síðan geti forustumenn í sjávarútvegsmálum, hvort sem þeir starfa aðallega að fiskveiðum eða fiskvinnslu eða öðru því, sem þessum málaflokki er tengt, leitað til þessarar stofnunar, óskað eftir fyrirgreiðslu hennar, og hún hafi einhverja starfsmöguleika til þess að glíma við að leysa tæknileg vandamál.

Ég efast ekkert um, að það eru uppi mismunandi skoðanir um það, hvernig bezt sé að standa að þessum málum, og ég hef orðið þess áþreifanlega var, að ýmsum þeim, sem hafa haft nokkuð með þessi mál að gera að undanförnu, finnst eins og með þessu frv. sé verið að taka af þeim þau verkefni, sem þeir hafa haft með höndum. En meginhugsunin, sem liggur að baki þessu frv., er ekki sú, heldur fyrst og fremst að efla þessa starfsemi verulega frá því, sem verið hefur, og reyna að samhæfa kraftana og reyna að tryggja það, að til sé aðstaða, sem nauðsynleg er til að hægt sé að vinna að þessum úrlausnarefnum. En á það te1 ég að skorti mjög, eins og nú er ástatt um þessi mál.

Það er enginn vafi á því, að við stöndum nú frammi fyrir mjög örri þróun varðandi þessi mál. Ný tæki koma sífellt á markaðinn. Sum eiga hér við að fullu, en önnur ekki, og stundum þarf að breyta þeim eða laga þau að okkar aðstæðum, og í ýmsum tilfellum er hér um slík tæknileg vandamál að ræða, að það er mjög aðkallandi fyrir okkur að leysa þau, þó að ýmsir aðrir, sem við yfirleitt fáum okkar tækniframfarir frá, hafi ekki lagt mikið á sig til þess að leysa þau. Ég skal í þessu efni aðeins nefna eitt dæmi.

Það hefur verið áhugamál hér á landi en langan tíma að reyna að leysa á viðunandi hátt það vandamál að eignast vél, sem gæti tekið að sér í meginatriðum þau störf, sem menn hafa leyst af hendi varðandi beitingu á línu, og alla þá miklu handavinnu, sem tilheyrir okkar línuveiðum. Margar hugmyndir Íslendinga hafa komið fram á undanförnum árum til þess að reyna að leysa þetta vandamál, og Fiskimálasjóður og aðrar stofnanir hafa lagt fram allmikið fé til ýmissa aðila til þess að leysa verkefnið. Við vitum, að frændur okkar í Noregi hafa einnig glímt við þetta verkefni og náð nokkrum árangri. Við höfum hins vegar ekki náð hér miklum árangri. En þó er svo komið nú, að talið er af þeim, sem hér hafa bezt fylgzt með, að íslenzkur maður hafi lagt fram hugmyndir, sem séu mjög athyglisverðar í þessum efnum, og talsvert fé hefur verið lagt fram úr opinberum sjóðum til þess að reyna að fá sannprófað, hvort þessar hugmyndir fengju fyllilega staðizt og hægt væri að framleiða vél af þessari tegund og vélvæða á þann hátt þessa veiðiaðferð okkar, sem var að falla fyrir ofurborð, vegna þess að ekki var hægt að fá vinnuafl til þess að vinna þessi verk eftir gamla laginu. Það er enginn vafi á því, að það eru litlar líkur til þess, að við fáum fyllilega úr þessu skorið, t. d, þó að við séum búin að leggja þarna fram allmikið fé, nema tæknimenntaðir menn með góða vinnuaðstöðu geti glímt áfram við verkefnið, þ. e. a. s. unnið að því að smíða vél samkv. þeim hugmyndum, sem þarna hafa komið fram.

Mörg slík dæmi önnur mætti nefna, en ég tel að hér sé hreyft mjög þýðingarmiklu máli fyrir íslenzkan sjávarútveg, og ekki þætti mér ótrúlegt, að ef vel tækist til með starfslið þessarar stofnunar, þá ætti hún eftir að færa í íslenzkt þjóðarbú á komandi árum stórar fjárhæðir í hreinan ávinning.

Ég vil svo óska eftir því, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, kynni sér það vel og vandlega og hafi að sjálfsögðu samráð við þá aðila, sem þessi mál hafa haft með höndum, svo að öll sjónarmið geti komið sem bezt fram og takist að leysa það verkefni, sem hér er um að ræða, á viðunandi hátt. Gæti ég þá vel hugsað mér, að einhverjar breytingar yrðu gerðar á frv. frá því formi, sem það er í nú.

Ég vil leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu.