23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

182. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er hverjum manni ljóst, að sjávarútvegur og fiskiðnaður okkar Íslendinga verða á hverjum tíma að hagnýta sér ýtrustu og beztu tækni, sem fyrir hendi er á því sviði. Ekki verður sagt, að við höfum brugðizt þessu hlutverki undanfarna áratugi. Hin mikla framleiðni okkar í þessum greinum sýnir, að hér hefur ekki verið sofið á verðinum. Hins vegar er það hverju orði sannara, sem hæstv. ráðh. sagði, að skipulögð starfsemi til þess að auka tækni í þessum greinum hefur verið í molum, enda þótt ljóst sé, að verkefnið er ekki aðeins að fylgjast með því bezta, sem aðrir finna upp í þessum starfsgreinum, heldur verðum við að hafa forustu og komast á undan öðrum, hvenær sem þess er nokkur kostur.

Eins og hæstv. ráðh. nefndi, hafa ýmsar opinberar stofnanir tekið þátt í starfi í þessu sviði, og til viðbótar því, sem hann taldi upp, tel ég ástæðu til að leggja áherzlu á, að margir einstaklingar í þessu landi hafa lagt fram mikið starf, komið með snjallar hugmyndir, sem í ýmsum tilvikum hefur verið hægt að hagnýta og hafa gefið af sér mjög góðan arð. Margir þessara einstaklinga hafa kvartað undan því, að aðstoð hins opinbera á þessu sviði væri mjög í molum og ónóg tækifæri væru til þess að prófa nýjar hugmyndir og koma þeim á framfæri, ef þær reynast gagnlegar. Ég tel því, að það muni tvímælalaust verða spor í framfaraátt, ef sett verður á fót sú stofnun, sem hér er lagt fram frv. um, enda þótt ég sé einnig sammála hæstv. ráðh., að með því á ekki að leggja niður það starf, sem unnið er hjá ýmsum öðrum aðilum. Vegna þess, hve þetta tæknisvið er í raun og veru vítt, hve verkefnin eru mörg og ólík, verður lengi óhjákvæmilegt, að ýmsar mismunandi stofnanir, ýmsir mismunandi aðilar fái verkefni. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt, að stofnunin komist á fót og verði í framtíðinni miðstöð þessarar starfsemi.

Ég hef, herra forseti leyft mér að flytja eina brtt. við frv., við 1. gr. þess, og er hún á þskj. 352. Efni hennar er mjög einfalt, eingöngu það, að þessi nýja stofnun, sem á að koma á fót, verði á Akranesi.

Undanfarið hafa hvað eftir annað orðið miklar umr. hér á Alþ. um nauðsyn þess að dreifa opinberum stofnunum, ekki sízt menningarstofnunum ýmiss konar, um landið og láta þær ekki safnast saman hér í Reykjavík, eins og mjög hefur viljað brenna við undanfarið. Hér á að setja upp algerlega nýja stofnun, og ég vil því minna á þessa hlið málanna, minna á, að það virðast allir aðilar, allir flokkar og ég held allar ríkisstj. vera í orði þeirrar skoðunar, að það verði að dreifa slíkum stofnunum, enda þótt framkvæmdin sé, eins og allir vita, harla lítil. Ég hef áður hér í þessari hv. d. fært rök að því, að Vesturlandskjördæmi hefur búið við óhagstæða þróun hvað byggð og íbúafjölda snertir, enda þótt það teygi sig allt suður undir Reykjavíkursvæðið. Það er rík ástæða til þess, þar ekki síður en í ýmsum öðrum landshlutum, að gera einhverjar þær aðgerðir, sem geta orðið til þess að styrkja og efla byggð í þessum landshluta.

Akranes er mikill útgerðarstaður og hefur sem heimkynni slíkrar stofnunar margvíslega kosti. Þar er ekki aðeins mikil útgerð, heldur hygg ég, að þar séu gerðar út flestar tegundir fiskiskipa, sem notaðar eru á Íslandi, allt frá 1000 tonna togurum og niður í trillur. Þar eru hafnaraðstæður góðar, þar eru verkstæði þegar allmikil og verulegur hópur iðnaðarmanna. Ég vil því í allri vinsemd vísa til þessa mikla áhuga, sem fram hefur komið undanfarið hjá öllum aðilum, sem um það hafa rætt hér á þingi, að nú gefst tækifæri til þess með algerlega nýja stofnun að framkvæma hugmyndirnar um að dreifa stofnunum um landið. Það er ljóst, að þessi stofnun þarf að hafa samband við marga aðila og þarf að leita til margvíslega sérlærðra og tæknilærðra manna, en það má vel vera rétt, að mikið af þeim mönnum sé á Reykjavíkursvæðinu. Þá er þess að geta, að sá staður, sem ég bendi á, er ekki það fjarri, að það þurfi að vera nokkrum vandkvæðum háð að hagnýta sér allan slíkan mannafla eða aðra aðstöðu, sem kynni að þurfa að leita til. Hins vegar vil ég benda á það að lokum, að þótt heimkynni þessarar Tæknistofnunar sjávarútvegsins verði á einum stað, — ég vona, að það verði eins og ég legg til, á Akranesi, — þá tel ég, að verkefni á þessu sviði verði eftir sem áður að vinnast víðar en í stofnuninni sjálfri og þá eigi ekki að horfa eingöngu til þeirra stofnana hér í Reykjavík, sem hafa komið nærri þessum málum, heldur eigi að reyna að dreifa þessum verkefnum, t. d. prófun á nýjum tækjum, sem víðast um landið og reyna þau á sem flestum stöðum.