23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

182. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Sú hugsun, sem liggur að bak þessu frv., á fyllsta rétt á sér að mínum dómi. Það liggur alveg ljóst fyrir, að það þarf að sinna tæknilegri þjónustu við sjávarútveginn miklu meira en gert hefur verið til þessa, þótt ýmislegt gott og gagnlegt hafi verið gert í þeim efnum á undanförnum árum. Það þarf vissulega að auka rannsóknir og tilraunir á veiðarfærum, tækjum og vélum, sem notaðar eru í þágu sjávarútvegsins. Það þarf að efla sérstaka stofnun til stórra átaka til þess að vinna að sérstökum tæknilegum verkefnum eða rannsóknum fyrir einstaklinga, félög eða stofnanir, eins og segir orðrétt hér í 6. gr. frv.

Hæstv. ráðh. benti á það réttilega í sinni ræðu áðan, að hér væru fyrir stofnanir eins og Fiskimálasjóður, Fiskifélag Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og jafnvel Hafrannsóknastofnunin, sem hefðu þessi verkefni með höndum. Og ég efa það ekki, að þessar stofnanir hafi látið þessi mál til sín taka, svo sem lög gera ráð fyrir. Hitt liggur einnig greinilega fyrir að minni hyggju, að vafasamt verður að teljast að dreifa kröftunum svo í þessum efnum sem gert hefur verið til þessa. Ég tel, að það sé skynsamlegt að efla einhverja eina stofnun til stórra átaka í þessum efnum.

Til er löggjöf um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sem samþykkt var árið 1965. Hún fjallar um rannsóknastofnanir atvinnuveganna, og á grundvelli þessara laga starfa Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunin. Ég tel, að mjög kæmi til álita að fella þessa fyrirhuguðu tæknistofnun sjávarútvegsins undir þá löggjöf og breyta henni að öðru leyti með hliðsjón af því, að ætlunin virðist vera að efla fyrirhugaða stofnun til að gera stóra hluti í þessum efnum, en samkv. gildandi lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er gert ráð fyrir því, að hvor tveggja þessara stofnana, sem ég nefndi hér áðan, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunin, sinni þessum málum einnig. Ég vil því beina því til hæstv. sjútvrh., að hann athugi þessa leið, því að ég er þeirrar skoðunar, að til þess að verulegur árangur náist í þessum efnum, sé skynsamlegast að efla einhvern einn aðila til þess að verða athafnamikill og öflugur til framkvæmda á þessu sviði. Það er einnig um það að ræða að nýta fjármagn, sem til þessara hluta er varið, á sem skynsamlegastan hátt.

Hér er vissulega hreyft mikilvægu máli, og ég vænti þess, að sú ábending, sem ég hef hér komið fram með, verði tekin til athugunar.