23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

182. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það skiptir eflaust mestu máli, að þeir, sem hafa látið í ljós skoðanir sínar á þessum málum almennt, eru allir þeirrar sömu skoðunar, að efla beri tilrauna- og tæknistofnun sjávarútvegsins. En hins vegar eru ekki allir á sömu skoðun um þær leiðir, sem um er að velja.

Ég vil ítreka það, að það segir í 4. gr. þessa frv., að sjútvrh. skipi forstjóra við tæknistofnunina að fengnum till. stjórnar stofnunarinnar, og stjórnin ræður í samráði við forstjóra sérfræðinga og aðra tæknimenntaða starfsmenn við stofnunina. Hæstv. sjútvrh. sagði, að stofnun eins og Fiskimálasjóður hefði engu slíku starfsliði á að skipa, og það er hverju orði sannara og hefur ekki verið svo lengi sem ég man. Það er aðeins um skrifstofuhald að ræða, afgreiðslu þeirra mála, sem stjórnin fjallar um, og innheimtu afborgana og vaxta. Hér er einnig gerð sú breyting með þessu frv., að það er lagt til að taka fimmta hlutann af tekjum Fiskimálasjóðs eða 1/5 af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem rennur til Fiskimálasjóðs. En það er líka lagt til í þessu frv., að ríkissjóður auki verulega framlög sín á þessu sviði, og er sagt í b-lið 7. gr., að árlegt framlag úr ríkissjóði skuli aldrei vera minna en fjárhæð sú, sem árlega rennur til stofnunarinnar af útflutningsgjaldi samkv. a-lið þessarar gr. Ef þessu fjármagni hefði verið varið til Fiskimálasjóðs, þá hefði hann vafalaust getað farið frekar inn á aukið svið í þessari tilraunastarfsemi. Um það er ekki að deila.

Hins vegar er eitt atriði, sem ég er mjög ósammála hæstv. ráðh. um, en það eru verkefni stofnunarinnar, það eru rannsóknir og tilraunir á veiðarfærum, tækjum og vélum, sem notaðar eru í þágu sjávarútvegsins, tæknileg þjónusta við sjávarútveginn, söfnun og dreifing upplýsinga um tæknimál, því að ég tel, að það sé hægt að rækja það hlutverk með öðrum hætti, og ég hygg, að það muni vera ódýrara heldur en stofna til sérstakrar stofnunar, sem á að hafa þetta með höndum. Svo kemur að e-lið þessarar gr., 6. gr., en þar segir, að sérstök tæknileg verkefni eða rannsóknir fyrir einstaklinga, félög eða stofnanir eigi þessi stofnun að hafa með höndum, en í d-lið 7. gr. segir, að greiðslur fyrir verk, sem unnin eru fyrir einstaklinga, félög eða stofnanir, séu meðal tekna þeirra, sem þessi stofnun á að hafa. Þá segi ég: Ég hef ekki orðið var við auðuga menn í hópi hinna svonefndu hugvitsmanna. Þegar þeir hafa fundið upp eða þeim hefur dottið í hug eitthvert verkefni til að vinna að, þá hefur sá háttur verið hafður á, að þeir hafa notið styrks frá þessari stofnun, Fiskimálasjóði, og við skulum hafa um það okkar skoðanir, hvort þessir styrkir hafa nokkru sinni verið nægilegir fyrir þessa menn, hvort þeir hafa verið veittir ,með þeim hætti, að þeir hafi getað unnið sleitulaust að sínum hugðarefnum og sínum hugsmíðum. Ef það á að vera samkv. þessu frv., þá á hugvitsmaðurinn að leita til stofnunar, þar sem eru menn í þjónustu ríkisins, og segja: Hér er ég með hugmynd, og ég óska eftir því, að stofnunin vinni úr henni. Síðan á svo stofnunin að senda reikning fyrir og ég er anzi hræddur um það, að það verði erfitt að fá þá reikninga innheimta, a. m. k. mundi ég ekki sækjast eftir því að verða innheimtumaður stofnunarinnar og eiga að fá þá reikninga greidda. Ég held, að þétta sé spor í ranga átt.

Hinu hverf ég ekki frá, að þessum málum í heild verður ekki safnað saman í eina stofnun. Alþ. hefur á undanförnum árum markað stefnu í nokkrum greinum í þessum efnum með lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, þar með lögum um Hafrannsóknastofnunina og um Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þessar stofnanir hafa ákveðin verkefni, og eins og ég sagði í þeim orðum, sem ég lét frá mér fara áðan, hefur í nokkrum tilfellum verið komið til móts við báðar þessar stofnanir af Fiskimálasjóði hvað snertir fjármuni.

Hins vegar skal ég koma inn á mál, sem ég gerði ekki áðan, og lýsa því yfir sem afdráttarlausri, persónulegri skoðun minni, að ég álít, að allar nýjungar í byggingu fiskiskipa og tæknilegri þjónustu í sambandi við byggingu fiskiskipa eigi alls ekki að vera í höndum hvorki þessarar stofunnar, Fiskimálasjóðs, né Fiskifélags Íslands. Ég álít það fyrst og fremst verkefni þess stofnlánasjóðs, sem lánar frá 2/3 upp í 3/4 af stofnkostnaði þessara mannvirkja eða til þessara framkvæmda, þar eigi að vera sjálfstæð tæknistofnun innan þess ramma, en viðskiptamennirnir þurfi ekki að leita eftir úrlausnum þessara verkefna hingað og þangað úti um borg eða úti um land, ef stofnunin verður flutt þangað. Og ég trúi því, að þegar við hugleiðum nánar þessi mál, verði litið á það sem skynsamlegri lausn þessara mála, að hver sú stofnun, sem þegar hefur markað sína fyrstu göngu og hér hefur áður verið rakin, eigi að hafa sitt frumverkefni. Fjármál má leysa aftur á líkan hátt og gert hefur verið á seinni árum.

Ég vil svo að síðustu leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að það hafi komið fyrir, að nýir menn hafi verið kjörnir í stjórn Fiskimálasjóðs, sem hafi ekki vitað um, hvað áður hafi verið gert í lánum eða styrkjum til þessa eða hins. Við skulum segja, að slíkt hafi nú átt sér stað. En þá er til önnur stofnun, sem hlýtur að hafa sitt skjalasafn í lagi og fylgjast með hlutunum, — stofnun, sem hefur staðfest hvern einasta styrk, sem Fiskimálasjóður hefur veitt frá byrjun, og það er sjálft sjútvrn. Mér er ekki kunnugt um, að slík mistök hafi átt sér stað, hvorki í stjórn Fiskimálasjóðs né hjá sjútvrn. Og ég hygg, að hér sé um misskilning eða misminni að ræða hjá hæstv. ráðh.