08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Tómas Karlsson:

Herra forseti. Ég tel mig knúinn til að koma hér aftur í ræðustól til þess að leiðrétta rangtúlkun á þeim ummælum, sem ég viðhafði hér í ræðu minni í dag. Ég er ekkert að kveinka mér undan því út af fyrir sig og er að vissu leyti feginn, vegna þess að ég stytti mjög mál mitt vegna fundarhlés, sem gert var í dag, og vildi ekki fresta ræðu, þannig að ég get komið því atriði að, sem ég tel talsverðu máli skipta, ekki sízt eftir þær umr., sem hér hafa orðið í kvöld.

Í fyrsta lagi vil ég mótmæla því algerlega, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, að það hefði verið meginefni minnar ræðu að sanna, að pólitíkusar, en ekki sérfræðingar ættu að sinna áætlanagerð. Svo hafði hann eftir mér hér í ræðu sinni áðan. Þetta sagði ég aldrei, og eins og kemur fram í frv., verður deildaskipting í Framkvæmdastofnuninni, og það verður sérstök hagrannsóknadeild og sérstök áætlanadeild. Mér skilst á máli sjálfstæðismanna hér, að þeir geri ráð fyrir því, að þessum deildum veiti forstöðu einmitt sérfræðingar, og till. þeirra um það, að það verði þessir deildarstjórar, þessir sérfræðingar, sem skipi framkvæmdaráðið, virðist byggð á því, að þeir telji það heppilegra, vegna þess að þeir hafa lýst mjög harðri andstöðu sinni við það, að svo kallaðir pólitískir menn eða kommissarar, eins og þeir nefna væntanlega framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar, skipi framkvæmdaráðið. Ef réttur reynist í framkvæmdinni þessi skilningur þeirra, að það verði sérfræðingar, sem verða deildarstjórar yfir þessum deildum, sem frv. gerir ráð fyrir, þá verður náttúrlega áætlanagerðin fyrst og fremst í höndum sérfræðinga.

En eins og ég sagði í ræðu minni, þá er þessari stofnun fyrst og fremst ætlað það hlutverk að hrinda í framkvæmd meginatriðunum í stefnuskrá þeirrar ríkisstj., er nú situr að völdum, í atvinnu- og efnahagsmálum. Markmiðin eru að verulegu leyti ákveðin. Þau markmið, sem þessi ríkisstj. ætlar að keppa að í atvinnumálum og efnahagsmálum, eru að verulegu leyti ákveðin, m.a. í málefnasamningi. Áætlanagerðin, að því er snertir þessi markmið, verður því um það, hvaða leiðir sé heppilegast að fara, í fyrsta lagi til þess að ná þeim, og hvernig þeim sé hægt að ná á sem skemmstum tíma samkv. skipulegum áætlunum, þannig að menn fikri sig áfram að markinu ár frá ári. Þetta er allt annað en það, að það séu bara pólitíkusar, sem eigi að sinna áætlanagerðinni. En það eru pólitíkusar, það eru stjórnmálamenn, það er meiri hl. Alþ. og það er ríkisstj., sem hafa ákveðið þau markmið, sem keppa á að þetta kjörtímabil í atvinnu- og efnahagsmálum, og þau markmið eru auðvitað eðli sínu samkv. þar af leiðandi pólitísk. En á þessu tvennu er mikill munur, skýr eðlismunur, og ég vona, að það fari ekki fram hjá hv. 5. þm. Vestf.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. var sá eini af þeim ræðumönnum hv. Sjálfstfl., sem hér hafa talað í kvöld, sem minntist á meginefni ræðu minnar, en meginefni hennar var það að minna á fyrri málflutning Sjálfstfl. hér í þessari hv. d., þegar mjög svipað mál var hér til umr. og var afgr. frá þessari hv. d., að ég tel, með jákvæðum hætti, þar sem um stjórnarandstöðufrv. var þá að ræða. Því var vísað til ríkisstj. til frekari athugunar. Og í því sambandi vitnaði ég í málflutning þáv. fjmrh. og benti á það, að í máli hans kom fram, að hann viðurkenndi, að þrátt fyrir alla þá áætlanagerð, sem Sjálfstfl., eftir því sem fulltrúar hans segja hér í kvöld, átti frumkvæði að að hefja á Íslandi og eftir það ágæta skipulag, sem þáv. ríkisstj. starfaði eftir að þeirra mati, fyrrv. ríkisstj., þá væri stjórnun þessara mikilvægu þátta í atvinnumálum og efnahagsmálum og lánamálum ekki betri en svo, að þáv. fjmrh. varð eftir 8 ára setu þeirrar stjórnar að viðurkenna, að slík göt væru í þessu skipulagi, að fyrirtæki, sem hefði verið komið á fót og væru þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki og hefðu átt alla möguleika til þess að geta starfað þjóðinni til hagsældar, hefðu farið um, þau hefðu verið lögð niður, vegna þess að eftir að fjárfestingarsjóðir voru búnir að veita til þeirra fjármagni, þannig að þeim yrði komið upp, þá neitaði bankakerfið að skapa þeim að öðru leyti þá aðstöðu, að þau gætu starfað. Þetta var eitt af þeim dæmum, sem þáv. fjmrh. hæstv. nefndi í þessari ræðu, sem ég vitnaði í hér í dag. Og ég minnti á, að þessu frv. framsóknarmanna um Atvinnumálastofnun, sem þá var til umr. og afgreiðslu, hefði verið vísað til ríkisstj.

Hið jákvæðasta í nál. þáv. meiri hl. fjhn. undir formennsku og framsögu Ólafs Björnssonar prófessors, sem hér átti þá sæti í hv. d., var á þessa leið:

„Meiri hl. telur að vísu hæpið, að stofnun, sem skipuð er á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að Alþ. og ríkisstj. getur þar engin áhrif haft, sé falið svo víðtækt vald, sem lagt er til samkv. frv.“

Það er rétt að staldra aðeins við þessa setningu, því að hún skiptir ákaflega miklu máli varðandi meginefni þess málflutnings, sem hv. sjálfstæðismenn hafa hér viðhaft í kvöld og í dag. Andstöðu sína við þetta frv. byggja þeir fyrst og fremst á því, að þeir vilja ekki, að það vald, sem þeir segja, að sé nú í höndum hinna ýmsu samtaka fólksins í landinu, eins og þeir orða það, færist yfir á hendur þriggja pólitíkusa, sem þeir vilja kalla kommissara. Á þessu byggja þeir höfuðandstöðu sína gegn frv., og ádeila þeirra hefur verið hörðust vegna þessara ákvæða þess. En hvernig voru ákvæðin í frv. framsóknarmanna um stjórn Atvinnumálastofnunar? Þau ákvæði, sem leiddu til þess, að þáv. meiri hl. þessarar hv. d., sem skipaður var sjálfstæðismönnum og Alþfl.-mönnum, taldi sér ekki fært að samþykkja frv., voru um það, að stjórn Atvinnumálastofnunar væri skipuð fulltrúum stéttarsamtakanna í landinu, og það væru tveir menn frá bankakerfinu að auki. Þáv. meiri hl., sem núna telur algerlega ófært, að yfirstjórn þessarar stofnunar sé kosin af Alþ. og að framkvæmdastjórar hennar séu skipaðir af ríkisstj., töldu því frv., sem þá var til afgreiðslu hér, frv. um Atvinnumálastofnun, helzt til foráttu, að það var þannig búið, að þeir töldu, að Alþ. og ríkisstj. hefðu ekki nægjanlegt vald á þessari stofnun, eða eins og sagði þar í nál., og ég skal endurtaka:

„Meiri hl. telur að vísu hæpið, að stofnun, sem skipuð er á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að Alþ. og ríkisstj. getur þar engin áhrif haft, sé falið svo víðtækt vald, sem lagt er til samkv. frv.“

M.ö.o. taldi þáv. meiri hl. sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna, að einmitt slík stofnun eða mjög lík stofnun og hér um ræðir í þessu frv., skyldi skipuð þannig, að það væri ótvírætt, að ríkisstj. og Alþ., þar af leiðandi meiri hl. á Alþ., hefði full ráð um þessa stofnun. Þess vegna liggur það fyrir, að ríkisstj. hefur að þessu leyti gengið til móts við þau sjónarmið, sem hv. sjálfstæðismenn létu þá í ljós í sambandi við afgreiðslu á frv. um Atvinnumálastofnun. En hvað gerist? Þeir ættu að vera glaðir yfir því, að gengið hafi verið til móts við þessi sjónarmið, sem þá voru látin í ljós. Nei, alls ekki. Þeir bregðast nú hinir verstu við og hafa tekið algerum sinnaskiptum. Nú er skoðun þeirra algerleg þveröfug við það, sem fest er í þessu nál. meiri hl. fjhn frá 1969. Hvers vegna hafa þessi sinnaskipti átt sér stað. Hvers vegna hafa þeir skipt um skoðun? Hvers vegna töldu þeir rétt 1969, að ríkisstj. og meiri hl. Alþ. sem heild hefði örugg ráð yfir þessari stofnun vegna þess valds, sem henni átti að fela? Því hefur ekki verið svarað. Og því hefur ekki heldur verið svarað, hvers vegna þessi sinnaskipti hafa átt sér stað, hvers vegna þeir eru núna á móti því, að stjórn stofnunarinnar sé skipuð með þeim hætti, sem þeir létu í Ljós 1969, að væri eðlilegast Mér finnst, að það standi upp á þá að gera grein fyri þessu.

En hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að í ræðu minni hér dag hefði falizt það, að ég væri sama sinnis og hæstv þáv. fjmrh., Magnús Jónsson, og hv. þáv. þm., Ólafur Björnsson prófessor, í þeim ræðum, sem ég vitnaði til í ræðu minni hér í dag. Þetta er alger misskilningur hans, vegna þess, eins og ég las, og ég hirði ekki um að lesa að nýju úr tilvitnun í ræður þeirra, þá kom þar fram, að þeir játuðu, að það kerfi, sem búið væri við, hefði boðið heim mörgum mistökum. Ég er búinn að nefna eitt dæmi, sem fjmrh. þáv. nefndi, en það kom einnig fram, að þeir höfðu enn trú á því, þrátt fyrir það, að þetta væri játning eftir 8 ár, að hægt væri að lappa upp á þetta kerfi. Þar er ég algerlega ósammála, og þar er þessi ríkisstj. algerlega ósammála. Hún telur, að það verði ekki lappað upp á þetta kerfi, sem nú er búið við. Það verði að eiga sér stað alger stefnubreyting. Og það hefur orðið að ráði með þessu frv., að um leið og stefnt er að markvissri áætlanagerð, þá eru slegnar fleiri flugur í því höggi og unnið að því um leið að gera stjórnkerfið einfaldara og skilvirkara. Og það er stefnt að því, að það verði í fyrstu unnið að því að samræma stefnu hinna mörgu fjárfestingarlánasjóða, sem hér hafa upp risið í landinu, en síðan, eins og segir í 2. mgr. 14. gr. frv., verði unnið að því að leggja fleiri fjárfestingarsjóði undir þessa stofnun, því að sannleikurinn er sá, að hinir mörgu fjárfestingarsjóðir, sem hafa verið að vinna að svipuðum verkefnum, hafa farið hver inn á annars verksvið meira og minna og þurft að hafa meiri og minni samráð við einn, tvo eða þrjá banka. Þetta kerfi hefur reynzt svo þungt í vöfum á undanförnum árum, að það hefur lagzt sem mara á einkaframtakið í landinu, sem hv. sjálfstæðismenn þykjast bera svo mjög fyrir brjósti. Og það hefur verið þannig í þessu kerfi, að dugmiklir, áhugasamir athafnamenn, sem leitað hafa til þess, og fyrst til þeirra sjóða, sem eðli málsins samkv. er eðlilegast að gera, hafa hvergi getað fengið svör, því að alltaf var svarið, að ákvörðun væri tekin einhvers staðar annars staðar, og þegar þeim er bent á, hvar sá staður sé og þeir fara þangað, þá fá þeir sömu svör þar, þannig að í þessu kerfi hefur það verið þannig, að það í hefur virzt stundum eins og enginn víssi, hver raunverulega hefði ráðin, því að þessi segir: „Ég lána ekki nema hinn láni“, og sama segir hinn: „Ég lána ekki nema þessi láni.“ Svona hefur þetta verið, og þó að þessir sjóðir mundu halda áfram að starfa sjálfstætt að einhverju leyti, þá tel ég höfuðnauðsyn, að það verði þó a.m.k. ein afgreiðsla, einn staður, þar sem menn geta komið og lagt sínar umsóknir inn, og það sé þá eitthvert „apparat“, sem getur leitað og tekið að sér fyrir vinnuvegi landsins að leita til þessara fjölmörgu sjóða. Og það er m.a. hugsunin með þessu frv. Ég skal engu spá um það, hve hratt það muni ganga fyrir sig að a sameina sjóði, en alla vega tel ég, að nauðsynlegt sé að m taka upp miklu nánari samvinnu þeirra en nú á sér stað.

Það er orðið áliðið kvölds, og þó að mörg fleiri atriði væri æskilegt að ræða af því, sem fram hefur komið hér a í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, þá ætla ég að stilla mig og setja hér punktinn.