10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2917)

218. mál, Lífeyrissjóður sjómanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á Alþ. hinn 17. apríl 1968 var samþykkt till. til þál. um endurskoðun laga um lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum. Till. var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir Alþ. frv. til l. um breyt á l. um lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum á þann veg, að sjóðfélögum verði tryggð eigi minni réttindi en aðilar að lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins njóta nú:

Hinn 12. september 1968 fól félmrn. Guðjóni Hansen tryggingafræðingi að annast endurskoðun umræddra laga með hliðsjón af nefndri þál. Skömmu síðar hófust viðræður útvegsmanna og bátasjómanna um aðild hinna síðarnefndu að sjóðnum, og náðist samkomulag um það efni milli þessara aðila í febrúar 1969. Með lögum nr. 59 1970 var lögum sjóðsins breytt með tilliti til aðildar bátasjómanna og jafnframt var nafni hans breytt í lífeyrissjóð sjómanna. Meginmál laga nr. 59 1970 var síðan fellt inn í lög nr. 78 1962, sbr. núgildandi lög nr. 78 frá 10. ágúst 1970, um lífeyrissjóð sjómanna. Vegna ákvæða 2. mgr. 3. gr. laganna um heimild fyrir bátasjómenn í einstökum byggðarlögum eða landshlutum til undanþágu frá þátttöku í sjóðnum hefur ekki fyrr en á yfirstandandi ári fengizt heildaryfirsýn um, hvernig lífeyrisréttindum sjómanna er háttað, svo að unnt yrði að ljúka endurskoðun laganna. Breytingin á bótaákvæðum lífeyrissjóðs sjómanna er að sjálfsögðu háð því, hve miklar tekjur sjóðsins eru. Iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nægja ekki til þess að standa undir skuldbindingum hans, heldur eru það ákvæði 25. gr. laga nr. 29 1963 um endurgreiðslu verulegs hluta lífeyrisins úr ríkissjóði, sem tryggja gildi bótaákvæðanna. Þar sem ekki er gert ráð fyrir slíkum endurgreiðslum lífeyris, hvorki af hendi vinnuveitenda, sjómanna né úr ríkissjóði, er ljóst, að eftir sem áður hljóta lífeyrisréttindin að verða tryggari í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en í lífeyrissjóði sjómanna, nema launakjör og verðlag í landinu verði stöðugri á framtíðinni en hingað til. Eigi að síður miða þær breytingar, sem felast í frv. þessu, að því að auka lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Má þar í fyrsta lagi nefna, að gert er ráð fyrir takmarkaðri verðtryggingu, svo sem gert er ráð fyrir í nær öllum reglugerðum hinna nýju lífeyrissjóða verkalýðsfélaga, og í frv. er gert ráð fyrir, að allar elli- og örorkulífeyrisgreiðslur, sem úrskurðaðar hafa verið, miðist við kauplag 1962–1971. Frá 1. jan. 1972 að telja og síðar verði sjálfkrafa hækkanir árin 1973 og 1974, en frá árslokum 1974 verði teknar ákvarðanir um áframhaldandi hækkanir fyrir 5 ára tímabil í senn með hliðsjón af afkomu sjóðsins.

Önnur meginbreytingin, sem felst í frv., er sú, að horfið er frá því að miða lífeyrisgreiðslur við meðallaun sjóðfélaga síðustu 10 starfsár hans. Í staðinn er gert ráð fyrir umreikningi iðgjalda hvert almanaksár í því skyni, að áunnin réttindi fari eftir verðgildi iðgjaldanna, eins og það var, þegar þau voru innt af hendi. Nær allir hinir nýju lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna nota slíkan stigagrundvöll.

Þriðja meginbreytingin, sem í frv. felst, er að verulegu leyti stytting á biðtíma, veruleg stytting á biðtíma, þ. e. lágmarksiðgjaldagreiðslutímabil til þess að um rétt til lífeyris geti orðið að ræða.

Fjórða meginbreytingin er fólgin í heimild til að hefja töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur, þó ekki fyrr en frá 60 ára aldri, að uppfylltum þeim skilyrðum annars vegar, að sjóðfélagi hafi lengi stundað sjómennsku, og hins vegar, að ekki sé langt síðan hann hætti í störfum á sjó. Loks má benda á, að gert er ráð fyrir greiðslu barnalífeyris til 18 ára aldurs, en nú er miðað við 16 ára aldur.

Þetta eru þau meginatriði, sem í frv. felast, sem eru breyting frá gildandi lögum um lífeyrissjóð sjómanna.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu máli, en legg til, herra forseti, að að umr. lokinni verði því vísað til 2. umr. og hv. fjhn.