12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 517 er frv. til l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðákvarðanir, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl. Lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins voru fyrst sett árið 1947. 1. júlí n. k. eru því 25 ár liðin frá því, að þau lög tóku gildi. Þessi lög voru arftakar laga um mjólkur- og kjötsölu, sem sett voru hér 1934 og leystu úr miklum erfiðleikum, sem þá voru á sölu landbúnaðarvara. Enda þótt þetta sé sagt, vil ég geta þess, að á árunum 1945–1947 giltu hér lög um búnaðarráð, sem giltu aðeins þau tvö ár, og voru þau millispor á milli þessarar gömlu löggjafar og framleiðsluráðslaganna frá 1947. Þegar Stéttarsamband bænda var stofnað, 9. sept. 1945, var uppi fljótlega frá þeirra hendi krafa um það, að sett yrði löggjöf, sem tryggði Stéttarsambandinu aðild að samningsrétti bænda um kaup og kjör. Það var því eitt af fyrstu verkefnum þeirra að fara fram á setningu þessara laga, sem nú hafa gilt í nærri 25 ár.

Þegar ríkisstjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar var mynduð 1947, en í þeirri ríkisstj. sátu auk Alþfl. framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, þá var eitt af þeim samningsatriðum, sem var var samið um, að setja lög um framleiðsluráð, en þau tóku gildi, eins og áður sagði, á miðju sumri þar næst á eftir. ,Að stofni til hefur þessi löggjöf haldizt, þó að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á löggjöfinni á þessu tímaskeiði.

Stéttarsamband bænda hefur ætíð átt þátt í því að endurskoða þessa löggjöf, þó að mismikið hafi verið farið eftir óskum þess, enda urðu nú á síðari árum háværari raddir um það, að nauðsyn bæri til að endurskoða þessa löggjöf, og fyrir nokkrum árum samþykkti aðalfundur Stéttarsambandsins að óska eftir því, að gagnger breyting yrði á löggjöfinni, m. a. yrði farið inn á þá braut, að viðsemjendur yrðu ríkisvaldið, en ekki stéttarfélögin, eins og verið hefði í löggjöfinni. Í stjórnarsamningi núv. ríkisstj., sem gerður var í júlí s. l. var eitt af ákvæðunum svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins verði skoðuð í samráði við Stéttarsamband bænda og að því stefnt, að Stéttarsambandið semji við ríkisstj. um kjaramál bændastéttarinnar og verðlagningu búvara. Miða skal jafnan við það, að kjör bænda verði sambærileg við launakjör annarra vinnandi stétta.“

Samkv. þessu ákvæði og þeirri samþykkt, sem gerð var á aðalfundi Stéttarsambandsins á s. l. hausti, sem var haldinn austur á Höfn í Hornafirði, var hinn 14. nóv. s. l. af landbrn. skipuð n. til þess að endurskoða gildandi lög um framleiðsluráð. Af hálfu Stéttarsambandsins voru þessir menn í n.: Gunnar Guðbjartsson formaður þess, Ólafur Andrésson stjórnarnefndarmaður og Ingi Tryggvason, sem einnig er stjórnarnefndarmaður. Aðrir í n., sem voru skipaðir af ráðh. án tilnefningar, voru: Sveinn Tryggvason framkvæmdastjóri, sem var formaður n., Ólafur Björnsson prófessor, Hjalti Gestsson ráðunautur, Jónas Jónsson fulltrúi, Guðmundur Þorsteinsson bóndi og Þorvaldur G. Jónason fóðureftirlitsmaður: Guðmundur Sigþórsson búnaðarhagfræðingur starfaði með n. og var ritari hennar.

Þar sem fyrirhugað var að gera þá meginbreytingu á fyrirkomulagi um verðlagningu landbúnaðarvara, að bændur semdu við ríkisvaldið, og vitað var, að Norðmenn hafa það fyrirkomulag, fékk n. þessi heimild til þess, í samráði við landbrn., að fá hingað upp formann norsku bændasamtakanna, Jan Melbye. Hann kom hingað og sat á fundum með n. í tvo daga og gerði henni grein fyrir því helzta, sem máli skiptir um samningsaðstöðu norsku bændasamtakanna og skipti þeirra við ríkisvaldið.

Frv., eins og n. gekk upphaflega frá því, var sent landbrn. og ráðuneytisstjóri þess, Gunnlaugur Briem, fór yfir frv. og benti á ýmsar leiðréttingar og breytingar, sem hann taldi betur horfa. Þetta fékk n. aftur til meðferðar, og eftir að hún hafði athugað það og tekið í sínar till. það, sem var að hennar skapi, þá lagði hún frv. fyrir aukafund Stéttarsambands bænda, 9. febr. s. l., eða réttara sagt, stjórn sambandsins lagði það fyrir í samráði við landbrn. Á þeim fundi voru gerðar nokkrar breytingar á frv., eins og það lá þá fyrir, og tók n. það til meðferðar á nýjan leik. Það var aðeins ein grein frv., sem olli verulegum deilum á stéttarsambandsfundinum, en það var 3. gr. þess, sem ég kem að síðar, en hún var samþ. með 34:7 atkv., en 4 sátu hjá. Eftir að frv. hafði fengið þessa meðferð, var það á nýjan leik tekið fyrir í þeirri n., sem samdi frv. Þar voru gerðar á því þær breytingar, sem fundurinn hafði óskað eftir, að mestu leyti, held ég, eins og þar var gengið frá því, og frv. er svo flutt nú eins og n. gekk endanlega frá því. Engar breytingar hafa verið gerðar á því, eftir að þessi meðferð hafði farið fram, að aukafundur Stéttarsambandsins hafði fjallað um það og n. á nýjan leik orðið sammála um niðurstöðu þess.

Ég vil taka það fram, að það var ákvörðun landbrh. að flytja frv. algerlega óbreytt. Hins vegar er það svo, að það eru atriði í því, sem bæði mínir flokksmenn og aðrir eru ekki á eitt sáttir um, og það var af hendi ríkisstj. gerð sú samþykkt, að menn áskildu sér rétt til þess að koma að breytingum við meðferð málsins hér á þingi, ef það væri talið, að til bóta mætti horfa. Ég vil t. d. geta þess, að kvótakerfi, sem talað er um í frv., var ekki að mínu skapi, ef ég hefði samið frv., en hins vegar hef ég haldið mér fast við þá reglu að láta það koma fram eins og n. gekk frá því endanlega og stéttarsambandsfundurinn, enda er mér ljóst, að þar voru að verki þeir, sem bezt þekktu og mesta reynslu höfðu á þessum sviðum. Og það er líka mín skoðun og hefur verið ríkjandi stefna núv. ríkisstj. gagnvart heildarsamtökum stétta þeirra, sem hún hefur haft mest samstarf við, að málefni þeirra hafa komið fram á þann hátt, sem þær hafa helzt óskað eftir, enda þótt einhverjar breytingar gætu verið á því gerðar í þinginu. Hins vegar treysti ég því, að þau atriði, sem mestu máli skipta, muni njóta sín og fá fylgi hér á hv. Alþ., enda hygg ég, að segja megi um frv., að það sé gert að beztu manna yfirsýn.

Þennan formála mun ég nú láta nægja í sambandi við þetta frv., en hins vegar snúa mér að því að gera grein fyrir þeim breytingum, sem eru í frv. frá gildandi lögum.

Þar er fyrst að geta þess, sem ég reyndar vék að áðan, að samningsformið er nú breytt, þar sem viðsemjandi á nú að vera ríkisvaldið eða ríkisstj., sem á að tilnefna jafnmarga fulltrúa í samningsnefndina og stéttarfélögin gerðu áður. Í sambandi við þetta atriði vil ég geta þess, að þegar það ákvæði var sett inn í lögin, þá var skoðun manna, að það mundi reynast svo, að bezt færi á því, að viðsemjendurnir væru fulltrúar neytenda og valdir af þeim sjálfum. Segja má með réttu, að þetta form hafi gefizt vel alllengi, stundum ágætlega og stundum misjafnlega, en hins vegar gerðist það nú fyrir nokkrum árum, að neytendurnir, sem áttu að tilnefna fulltrúa í samningsnefndina, ákváðu að gera það ekki. Það var því ríkisstj., sem tilnefndi þá aðila, sem við var samið, og það var álit manna, að þetta form, hversu gott sem það hefði upphaflega verið, hefði gengið sér til húðar og rétt væri að breyta þar um, og þess vegna er það nú gert. Enn fremur hefur sú reynsla, sem fengizt hefur af hinu norska kerfi, margt til síns ágætis. M. a. hefur þá komið fram, að hægt hefur verið að semja um aðra þætti, er landbúnaðinn varða, heldur en þá, sem eingöngu vörðuðu verðlagið. Þetta hefur verið talið til bóta, og hugmyndin með þessu frv. er einnig, að það sé hægt að gera það í þessum samtökum. Nú er engri loku fyrir það skotið heldur í sambandi við þetta form, að neytendur fái þar sína fulltrúa, þó að óbeint sé, inn í samningsumr., og er það talið heppilegra en að formið sé eins og það hefur verið framkvæmt á síðustu árum.

Í sambandi við framkvæmdina á verðlagningunni, þá er gert ráð fyrir því, að áfram starfi sex menn að henni, þrír, sem verði valdir, einn af framleiðsluráðinu og tveir frá Stéttarsambandinu, og þrír, sem aftur verði valdir af ríkisstj. á vegum landbrn.

Það er hins vegar gert ráð fyrir því, að til þess geti komið, að þessir aðilar verði ekki sammála og nái ekki samkomulagi um þau ágreiningsatriði, sem verulegu máli skipta. Til þess að leysa þá úr, er skipuð yfirnefnd, eins og áður hefur verið, og hefur því verið fellt niður það svið, sem sáttasemjari átti að annast, enda hygg ég, að reynsla af því hafi ekki gefið þá raun, að aðilar hafi talið ástæðu til að, halda í það. Er gert ráð fyrir því, að hvor aðilinn um sig velji einn úr hópi þeirra, sem í samningunum hafa verið, en Hæstiréttur skipi svo oddamanninn í þessa n. Yfirnefnd þessari ber að skila rökstuðningi og grg. með úrskurði sínum. Telji annar hvor aðilinn eða hluti sexmannanefndar úrskurði yfirnefndar óviðunandi, getur sá hluti hennar krafizt þess, að úrskurður yfirnefndar gildi aðeins í 6 mánuði, sé um haustverðlagningu að ræða, en annars til 1. sept. næst á eftir. Krafa um málsupptöku samkv. þessu ákvæði hefur því aðeins gildi, að hún sé samþ. af meiri hl. fulltrúa á stéttarsambandafundi eða af ríkisstj. í heild, og er hér um nýtt ákvæði að ræða. Þetta ákvæði hlýtur að sjálfsögðu að verða í lögum um verðlagninguna, vegna þess að alltaf getur farið svo, að deiluaðilar nái ekki samkomulagi og verði því að ganga undir úrskurð.

Annað atriði í þessu frv., sem er mikilvægt nýmæli, er ákvæðið um að stefna að skipulagningu framleiðslunnar og að hafa stjórn á framleiðslumagninu til aukningar, ef á þarf að halda, eða til að draga úr framleiðslunni í einstökum greinum, ef þurfa þykir. Framleiðsluráði landbúnaðarins ber að gera framleiðsluáætlanir til langs tíma um þróun á landbúnaðarframleiðslu. Þessar áætlanir ber að gera í samráði við Búnaðarfélag Íslands og þær stofnanir í landinu, sem hafa áætlanagerðir í þjóðfélaginu með höndum. Meðal þeirra stofnana, sem þetta yrði unnið í samráði við, yrði Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem hlýtur með lánastarfsemi sinni að hafa mikið að segja þar um. Árlega ber að endurskoða þessar áætlanir af sömu aðilum, og ef það kemur í ljós, að þær raskast verulega frá því, sem upprunalega var gert ráð fyrir, er Framleiðsluráði heimilt í samráði við landbrh. að grípa til sérstaks álags á innflutt kjarnfóður eða tvenns konar verðs til bænda, hins svokallaða kvótakerfis, sem ég vék lauslega að áðan. Fé því, sem fæst með töku fóðurbætisgjalds, er gert ráð fyrir að ráðstafa til útflutningsbóta, ef þeirra er þörf, og til þess að auka hagkvæmni vinnslustöðva landbúnaðarins og til styrktar innlendri fóðuröflun.

Geta má þess, að n. þeirri, sem falið var að endurskoða lög um Framleiðsluráð, var í skipunarbréfi sínu falið að kanna, að hversu miklu leyti það sé rétt að hafa stefnumarkandi áhrif á landbúnaðarframleiðsluna. Í grg. segir, að af hálfu n. hafi mikið verið rætt þetta atriði, og eru þau ákvæði, sem hér er nú getið, árangur þeirrar umr. Hins vegar reiknar þetta frv. með því, að réttur til útflutningsbóta haldist sá sami og verið hefur síðan 1353, þ. e. að 10% af framleiðslu landbúnaðarins geti verið bætt upp með útflutningsbótum. N. telur, að innan þeirra marka sé eðlilegt að halda framleiðslunni að mestu. Nauðsynlegt er að hafa þarna visst svigrúm vegna sveiflna í árferði og á mörkuðum.

Þetta segir auðvitað ekki, að útflutningur geti ekki orðið verulegur á einstökum vörum, ef góðir markaðir fást, sem gefa gott verð. Bættir markaðir og bætt samkeppnisaðstaða íslenzks landbúnaðar tryggja vonandi landbúnaði nægt vaxtarrými, þannig að hinir miklu og góðu framleiðslumöguleikar okkar nýtist á þann hátt. Annað væri óeðlilegt í heimi, sem skortir matvæli.

Það atriði í 3. gr. frv., sem nú hefur verið rætt um, hefur valdið nokkrum umr. og var það atriði, sem um var deilt á stéttarsambandsfundinum og hefur áður verið deilt um, hvort leggja ætti sérstakt gjald á innfluttan fóðurbæti til þess að jafna verðið á landbúnaðarvörunum. Í því sambandi vil ég benda á það, að þetta mál er frá þeim aðilum komið, sem bezt þekkja til og hafa haft með þessi mál að gera, sem er Framleiðsluráðið og Stéttarsambandið. Ég vil líka benda á það að hér er ekki um skatt að ræða í venjulegri merkingu þess orðs vegna, þess að þessa fjármuni, sem þarna á að taka, á að nota til þess að verðjafna á milli búgreinanna eða framleiðslunnar innbyrðis, ef útflutningsbæturnar nægja ekki til þess að ná því verði, sem grundvöllur landbúnaðarverðsins gerir ráð fyrir. Það er líka þannig, að það eru bændurnir eða framleiðsluráðið og Stéttarsambandsstjórnin, sem ræður því, hvort út í þetta verður farið, og hefur landbrh. aðeins neitunarvald þar um.

Það er hægt að hugsa sér og er reyndar gert ráð fyrir því í þessu frv., að það megi velja aðra leið til þess að jafna þar um heldur en þessa, sem hér er lagt til. Það er að taka sérstakt gjald af einstakri vörutegund til þess að jafna yfir til annarrar eða á milli mjólkurbúa innbyrðis eða sláturhúsa. Það er því á valdi þeirra aðila, sem framkvæma þetta mál, hvort gripið verður til þeirrar leiðar eða hinnar fyrri. Ég vil líka geta þess, að þær till., sem hér eru uppi í þessu frv. um það, hve hátt þetta gjald skuli vera, það er ekkert atriði út af fyrir sig, sem er óbreytanlegt. Ef að dómi þeirra, sem um fjalla, er talið hyggilegra, að það sé lægra eða hærra, þá er það ekki það atriði í þessu máli, sem ég mundi á neinn hátt setja fyrir mig í sambandi við væntanlega meðferð málsins. Hins vegar er það svo, að það er mat þeirra, eins og ég sagði áðan, sem bezt þekkja til, að nauðsynlegt sé að hafa einhverja stjórn á framleiðslu og gera einhverjar ráðstafanir á félagslegum grundvelli til þess að bæta innbyrðis á milli seljenda, ef með þarf, og þá verði að vera tiltækt ráð þar um og áætlanir í þessu skyni njóti sín ekki nema einhverjir möguleikar séu til að beita stjórnunartækinu. Mér er ljóst, að það hafa verið skiptar skoðanir innan bændastéttarinnar um þetta atriði. Það voru líka skiptar skoðanir innan bændastéttarinnar um að taka svokallað innvigtunargjald, þegar það var gert, til þess að ekki yrði mjög mikill mismunur á útborgaðri vöru innan stéttarinnar í heild. En að sjálfsögðu held ég að ekki sé hægt að líta á annað en nauðsyn þess, að það sé heppilegt að hafa fleiri en eina leið til þess að velja þarna um til að verja sig gegn þessu ákvæði.

Annar þáttur í sambandi við þetta gjald er svo 5% gjald, sem lagt er til, til þess að hafa sem mótvægi upp í kostnað við uppbyggingu vinnslustöðva landbúnaðarins. Það er kunnara en frá þurfi að segja á síðari árum, að fram undan eru mikil verkefni í því að bæta úr hjá vinnslustöðvum landbúnaðarins. Kröfur þær, sem gerðar hafa verið í sambandi við sláturhúsin, hafa verið himinhrópandi að fjárhæðum til, og er mikið átak búið að gera í því, en meira er þó eftir. Það sama er einnig í mjólkuriðnaðinum. Þar er stórt átak fram undan til þess að koma vinnslustöðvunum í eðlilegt horf miðað við nútímatækni og kröfur og þekkingu. Þegar fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, mun hafa verið samkomulag á milli hennar eða þáv. landbrh. og bændasamtakanna, að af hálfu ríkisvaldsins í gegnum framleiðnisjóðinn yrði lagt fram fé til uppbyggingar sláturhúsanna, enda er það vitað mál, að ef ætti að ná því verðlagi, sem á þeim húsum er, að öllu leyti í gegnum verðlagið, þá yrði það til þess að hækka verðlagið verulega. Úr framkvæmdum hafði ekki orðið, þegar stjórnarskiptin urðu, nema að litlu leyti. En á núgildandi fjárl. er í gegnum framleiðslusjóðinn veitt 12 millj. kr. beint til sláturhúsanna og hugsanlegt, að einhver hluti af þessum 10 millj., sem eru samkv. lögunum gangi þangað líka. En það sem skorti þá á, er það fjármagn, sem Framleiðsluráðið ætlaði að sjá um frá sinni hendi sem framlag á móti þessu. Og hugsunin með 5% gjaldi, sem þarna er gert ráð fyrir, er byggð á þessari niðurstöðu.

Ég held, að ég eyði nú ekki fleiri orðum um þetta atriði í frv. Þó að ég viti, að um það verði deilt áfram, þá tel ég mig ekki hafa fyrir mér öruggari ráðgjafa en þá, sem mest hafa að þessum málum unnið og bezt þekkja. Í þessari 9 manna n., sem starfaði að því að semja þetta frv., tel ég að séu aðilar, sem kunni þar full skil á, þó að meiningarmunur geti verið um slíkt atriði sem þetta, og við því er ekkert að segja.

Eitt atriði, sem tekið er upp í þetta frv., er ákvæði til styrktar búsetu í einstökum landshlutum. Lagt er til, að bændum þeim, sem búa við hin erfiðari búskaparskilyrði, verði rétt hjálparhönd með sérstökum flutningastyrkjum, niðurgreiðslum á áburði o. fl. eða hærra afurðaverði. Því er gert ráð fyrir, að sérstakur sjóður verði stofnaður í þessu skyni, er fái árlega framlag, sem er um 1% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Gert er ráð fyrir því, að landbrh. verði í samningum um, hvernig fyrir þessu verði séð.

Í sambandi við þetta atriði vil ég geta þess, að í lögum um Byggðasjóð er komið að því einmitt að jafna þarna á milli, og ég tel, að það ákvæði, sem í þeim lögum er, snerti einmitt þetta atriði. Ég lít líka svo á, að hér sé ekki eingöngu um stuðning að ræða við landbúnaðinn, heldur og ekkert síður við þau byggðarlög og þéttbýliskjarna, sem þurfa á landbúnaðarvörum að halda. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á okkar landi er það svo, að neyzlumjólk, kjötvörur og aðrar landbúnaðarvörur þurfa þessi þéttbýlissvæði að fá, og byggðaraukning og byggðarframtíð þar byggist einmitt á því, að aðgangur að góðum og nógum landbúnaðarvörum sé auðveldur. Þess vegna er þetta mikið atriði í sambandi við þéttbýliskjarnana, og það er mín skoðun, að einmitt stofnun eins og Byggðasjóðurinn eigi að styðja að því að létta undir með flutningi eða framleiðslu á þeim stöðum, þar sem skortir möguleika til þess að hafa nægar og góðar landbúnaðarvörur. Það hefur líka orðið þannig í framkvæmdinni, að með þessu móti, að styðja, eins og Framleiðsluráðið hefur gert, flutning á milli staða, hefur verið hægt að koma í veg fyrir, að byggt yrði of mikið af mjólkurbúum, og eru dæmi þar um.

Í grg. frv. er skýrt frá því, hvað Framleiðsluráðið hefur haft mikinn kostnað af því að færa þannig á milli, og skýrir það kannske betur en allt annað nauðsyn þess, að slíkar ráðstafanir séu gerðar eins og hér er farið fram á að styðja af almannafé. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, minna á grg., en þar segir svo á miðri bls. 17:

„Árið 1971 greiddi Framleiðsluráðið slíka rekstrarstyrki til Mjólkurstöðvarinnar á Patreksfirði (kr. 2.92 á lítra), Mjólkurstöðvarinnar á Þórshöfn (kr. 3.76 á lítra), Mjólkurstöðvarinnar á Vopnafirði (kr. 2.85 á lítra) og til Mjólkurstöðvarinnar á Djúpavogi (kr. 4.45 á lítra).“

Ég vil enn fremur minna á það, sem fram kemur í grg., að til þess að forðast það, að stofnuð yrðu t. d. mjólkurbú, eins og stóð til að yrði gert á Reykhólum, þá hefur verið farið inn á þá braut að styðja mjólkurflutninga til Búðardals til þess að tryggja stöðu þess mjólkurbús og enn fremur til þess að draga úr stofnkostnaði, sem hefði orðið þarna mikill og rekstrarkostnaðurinn hæpinn.

Framleiðsluráðið hefur greitt flutningastyrki, sem hér segir: Frá Reykhólum til Búðardals 40 aura á kg, á leiðinni Fljót til Sauðárkróks 30 aura á kg, á leiðinni austan Mýrdalssands til Selfoss 55 aura á kg og á leiðinni Kelduhverfi til Húsavíkur 30 aura á kg. Enn fremur voru greiddar á leiðinni Breiðavík til Borgarness kr. 1.20 á ltr., aðflutningur að Ms. Patreksfirði 55 aurar á ltr., á leiðinni Breiðdalur til Djúpavogs 30 aurar á ltr. og á leiðinni Jökulsárhlíð til Egilsstaða 10 aurar á ltr. Þessar upphæðir, sem Framleiðsluráðið hefur eitt greitt, nema verulegum fjárhæðum og eru líkur til þess, að hér geti verið um einhverja tugi millj. að ræða, ef verður eins og horfir nú þar um, og er óeðlilegt, að landbúnaðarframleiðendur annist einir þennan tilflutning og sjái þannig um það, að byggð haldist á þessum stöðum, sem mundi ekki gerast ef ekkert væri aðhafzt.

Á s. l. hausti áttu sér stað verulegir mjólkurflutningar á milli stærri sölusvæða. T. d. má nefna, að mjólk, rjóma og skyr hefur vantað á Ísafjörð í vetur og hefur verið flutt frá Akureyri og jafnvel frá Reykjavík, ef skipaferðir hafa ekki fallið jafnt að norðan. Það mætti sem sagt nefna fleiri dæmi um það, að nauðsyn ber til að styðja þessa flutninga og tryggja annað hvort kostnað við að flytja landbúnaðarvörurnar á milli þessara staða eða framleiðslu þeirra á viðkomandi stöðum.

Megintilgangur þessara laga er að tryggja bændum sæmileg kjör og neytendum góðar vörur ásamt hóflegu verði og sem bezta nýtingu á þeim markaði, sem fyrir hendi er fyrir íslenzkar landbúnaðarvörur. Varðandi fyrsta atriðið, það sem bændur munu spyrja um, vil ég víkja að því, hvernig þetta hefur tekizt á undanförnum árum.

Í grg. n. um þetta segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„N, hefur látið gera athugun á því, hvernig háttað er kjörum bænda, miðað við hinar svokölluðu viðmiðunarstéttir.

Frá og með árinu 1962 hefur Hagstofan birt tölur um tekjur hinna einstöku starfsstétta. Eftirfarandi samanburður á brúttótekjum bænda og viðmiðunarstéttanna er byggður á úrvinnslu Hagstofunnar. Það mun skekkja samanburðinn, að ekki eru vextir af skuldum vegna búsins og að nokkru leyti fyrning og fasteignagjöld útihúsa talin á landbúnaðarframtali og koma því ekki öll til frádrags. Sama er að segja um útgjöld vegna viðhalds og viðgerða á útihúsum og tryggingariðgjöld fram til ársins 1965, en frá og með því ári eiga þessir liðir að koma til frádráttar á landbúnaðarframtali.“

Meðaltekjur bænda á aldrinum 25–66 ára, þegar miðað er við tekjur viðmiðunarstéttanna, er sem hér segir: 1962 0.79, 1963 0.78, 1564 0.84, 1965 0.86, 1966 0.71, 1967 0.65, 1968 0.71 og 1969 0.74. Þá segir n., að hún sé þeirrar skoðunar, að einmitt með hinu breytta samningsformi skapist ýmsir möguleikar til þess að rétta þennan hlut. Í 5. gr. frv., þar sem kveðið er á um launaviðmiðun bænda, eru skýrari ákvæði og ótvíræðara orðalag hvað snertir viðmiðun við launastéttir og vinnutíma og skyldulið bóndans. Í sambandi við það vil ég geta þess, að ég hef orðið var við það, að ýmsir hafa fett fingur út í það, að fellt væri niður úr þessari viðmiðun að taka sjómannastéttina inn í samanburðinn, því hér er eingöngu átt við iðnaðarmenn og verkamenn. Í sambandi við það atriði vil ég geta þess, að meginbreytingin, sem gerð var á framleiðsluráðslögunum 1966, var sú, að felldir voru niður úr viðmiðuninni verkamenn og iðnaðarmenn í ákvæðisvinnu svo og sjómenn, sem tóku kaup sitt af aflahlut. Þegar búið var að fella þá sjómenn úr, sem tóku kaup eftir aflahlut, voru aðeins eftir þeir sjómenn, sem lægst laun höfðu, og var þá hætt að taka sjómenn með í kaupviðmiðunina. Það er því búið að fella þetta ákvæði úr framkvæmd, eftir að breyting var gerð á lögunum 1966, enda var þá fellt niður að mestu það, sem máli skipti í sambandi við þetta mál.

Auk þeirra atriða, sem ég hef hér drepið á, eru mörg fleiri atriði í frv., en smærri, sem ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja sérstaklega hér, enda hef ég vikið að því, sem meginmáli skiptir í þessu frv. frá gildandi löggjöf. Sumt af því eru orðalagsbreytingar, og önnur atriði eru byggð á þeirri reynslu, sem fengizt hefur í sambandi við framkvæmd laganna. Einu atriði vil ég þó víkja að, áður en ég lýk þessu, og það er það, að ríkisstj. á að hafa samráð við Framleiðsluráðið, ef ákveðið er að gera stórfelldar breytingar á því niðurgreiðsluformi, sem hefur gilt hér um alllangt skeið. Það má vel vera, að mönnum finnist, að hér sé of langt gengið, að leita eigi sérstaklega til bændasamtakanna í sambandi við niðurgreiðslurnar. Hér er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því, að þau geti synjað eða ákveðið um þetta, hins vegar gætu þau haft áhrif á framkvæmdina og leiðbeint um það, sem betur mætti fara í sambandi við framkvæmd á niðurgreiðslu.

Eitt af því, sem lagt var fyrir n., var að hafa samráð við ráðuneytisstjórann í viðskrn., hagstofustjóra og hagsýslustjóra einmitt um þetta atriði. Þetta atriði er m. a. byggt á því, að af reynslu undanfarandi ára hefur það komið í ljós, að stórar sveiflur í niðurgreiðslum, hvort sem hefur verið til lækkunar eða hækkunar, hafa haft veruleg áhrif á sölu landbúnaðarvara. Þegar niðurgreiðslur hafa verið auknar, hefur salan aukizt, og þegar úr þeim hefur verið dregið mjög skyndilega og stórfellt, þá hefur hið gagnstæða gerzt. Þess vegna er þetta ákvæði sett hér inn í frv., að einmitt slíkar sveiflur, sem geta átt sér stað í sambandi við niðurgreiðslur, séu gerðar í samráði við samtökin, til þess að þau geti komið að sínum athugasemdum og leiðbeint um framkvæmdina þannig, að áhrifin yrðu, a. m. k. þegar um skaðleg áhrif er að ræða, minna en ella.

Ég tel því, að hér sé um nauðsynlegt atriði að ræða, sem brýna nauðsyn beri til að haldist í löggjöfinni, þegar hún verður afgreidd hér á hv. Alþ., og eigi á engan hátt að skaða ríkisvaldið, enda kemur þá til sú þekking, sem þeir aðilar, sem um fjalla, hafa á þessum málum, og oft væri hægt að koma í veg fyrir slys, ef einmitt væri leitað slíkrar þekkingar.

Það er svo meginstefna frv., að niðurgreiðslur eigi fyrst og fremst að ná inn á sviðið frá framleiðendum til neytandans, en óheppilegt sé, að almennt sé gengið lengra í þeim.

Herra forseti. Í ræðu minni hér að framan hef ég getið þess, hver sé tilgangur með þeirri breytingu, sem hér er lagt til að gerð sé á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Hann er sá að tryggja bændastéttinni góða afkomu og neytendum góða og sæmilega ódýra vöru. Í öðru lagi hef ég getið þeirra breytinga, sem máli skipta og eiga að tryggja þennan tilgang. Í þriðja lagi hef ég getið þess, að frv. er byggt á reynslu og þekkingu þeirra manna, sem bezt þekkja til um meðferð þess máls, sem hér er á ferðinni. Frv. er flutt óbreytt eins og n. gekk frá því. Einhverjar breytingar geta orðið í meðferð málsins hér á hv. Alþ., enda sumt af því, sem ekki eru útkljáð atriði, þó að ég treysti því hins vegar, að höfuðatriði málsins fái notið sín, svo að tilganginum verði í engu breytt.

Ég vil að lokum geta þess, að eins og kunnugt er hefur landbúnaðurinn verið mikil lyftistöng í íslenzku þjóðfélagi. Bændastéttin hefur jafnan verið í forustusveit hér á landi og haft mikla þýðingu í sögu íslenzku þjóðarinnar, og svo er enn og svo mun verða. Það er einnig svo á síðari árum og fer vaxandi, að landbúnaðarframleiðslan leggur til verulegt hráefni í uppbyggingu á iðnaði þéttbýlisins. Þess vegna er það mikils virði, ekki eingöngu fyrir bændastéttina og íslenzkan landbúnað, heldur fyrir íslenzku þjóðina í heild, að að bændastéttinni og íslenzkum landbúnaði sé þannig búið, að hún haldi áfram því mikilvæga hlutverki í þjóðfélaginu, sem bændastéttin og landbúnaðurinn hefur haft.