12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2923)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Mér þótti fara vel á því að mörgu leyti, að þegar ráðh. hafði lokið að kynna þetta mál, þá skyldu koma hér í pontuna hvor á eftir öðrum fyrrv. landbrh. og fyrrv. viðskrh., sem á sínum tíma var oft kallaður aðstoðarlandbrh. í fyrrv. ríkisstj. Ég verð að segja það, að ég varð nokkuð undrandi á málflutningi þessara manna, kannske ekki svo mjög hjá hv. 7. þm. Reykv., fyrrv. viðskrh., en á málflutningi hv. 1. þm. Sunnl. var ég mjög undrandi, miðað við forsögu.

Hv. 7. þm. Reykv. boðaði hér sína gömlu kenningu um það að draga úr landbúnaðarframleiðslunni, fækka bændum o. s. frv. Það er ekki nýtt að heyra þessa kenningu hjá þessum hv. þm. Hún hefur heyrzt oft áður og er kannske ekki svaraverð í sjálfu sér. Hann lítur á eina hlið málsins aðeins og af slíkri einsýni, að það er kannske fátítt. Hann lítur t. d. alveg fram hjá því, að við viljum og þurfum að tryggja næga framleiðslu í öllum árum, og þess vegna verður ekki í góðum árum komizt hjá framleiðslu umfram þarfir innanlands, þó að það sé í sjálfu sér ekki nein umframframleiðsla. Hann lítur alveg fram hjá þeim möguleikum að nýta erlenda markaði í ríkara mæli en þegar hefur verið gert. Hann gerir sér enga grein fyrir félagslegri aðstöðu fólks í sveitunum, sem gerir það nauðsynlegt, að byggð þar strjálist ekki frá því, sem nú er, heldur þéttist víða. Og hann lítur alveg fram hjá aðstöðu þeirra mörgu þéttbýliskjarna, sem að mjög verulegu leyti byggja afkomu sína og lífsmöguleika á þjónustustarfsemi við landbúnaðarframleiðsluna eins og hún er nú og mundu þróast og blómgast betur en áður, ef hún væri fremur aukin heldur en hitt. Fram hjá þessu öllu lítur þessi hv. þm., þegar hann er að ræða um landbúnaðarmálin. Hann harmar það, að í þessu frv. skuli ekki vera tekin upp ný stefna, þ. e. a. s stefna í þessum anda.

Það er rétt, að slíka stefnu er ekki að finna í þessu frv., þó að hv. 1. þm. Sunnl. vildi láta líta svo út í sinni ræðu. 10% útflutningstryggingunni er fyrst og fremst ætlað að tryggja það, að við höfum nóga framleiðslu hér fyrir innlenda markaðinn í öllu árferði. Í 2. gr. frv., þar sem fjallað er um markmið laganna, er gerð sú breyting frá því, sem verið hefur, að nú er sagt, að stefna beri að því, að framleiðslan henti sem bezt þörfum þjóðarinnar, en ekki að hún fullnægi þörfum þjóðarinnar, eins og áður var. En í því fólst í raun og veru viðurkenning á því sjónarmiði, að fyrst og fremst og nær eingöngu ætti að framleiða fyrir innanlandsmarkaðinn. En þessu er breytt nú. Og nú er settur rammi að skipulegri áætlanagerð til langs tíma og jafnframt rammi um það, að hún skuli endurskoðuð árlega, því að sífellt þarf að fara ofan í slík mál, eins og augljóst er, þegar við gerum okkur ljóst hið síbreytilega veðurfar hér og einnig mjög breytileg markaðsskilyrði utanlands. Og í þessari gr. frv., þar sem fjallað er um stefnumark laganna er einnig lögð áherzla á aukna hagnýtingu markaða utanlands og innan. Það eru í frv. ákvæði um viðbúnað í báðum tilvikum, ef söluerfiðleikar verða og framleiðslan í bili verður það mikil, að erfitt er að afsetja hana, og einnig ef framleiðslan verður of lítil. Ég vil segja, að með þessu frv. er, að svo miklu leyti sem hér er um nýja stefnumótun að ræða, um myndarlega stefnu að ræða, sem byggð er á yfirsýn, en ekki á slíkri fádæma einsýni eins og hv. 7. þm. Reykv. jafnan beitir, þegar hann hugleiðir landbúnaðarmál, hvort sem það er á hv. Alþ. ellegar á fundum kaupmannasamtaka eða annars staðar, þar sem hann hefur séð ástæðu til þess að ræða þau. Og skal ég ekki fara fleiri orðum um hans ræðu.

Ég verð að segja það um ræðu hv. 1. þm. Sunnl., að mér virtist hún einkennast af alveg furðulegu neikvæðu nöldri, og ég verð að segja það, að ég hef varla heyrt annan eins málflutning um mál, sem er undirbúið á þann hátt sem þetta, að á bak við flutning þess standa samtök stórrar stéttar einhuga um öll meginatriði málsins. Og það er einnig unnið á breiðum grundvelli, ef litið er til stjórnmálaskoðana þeirra, sem að undirbúningnum unnu. Ég er undrandi á slíkum málflutningi hjá þessum hv. þm., sem var þangað til að mjálma í sig móðinn, að hann komst að þeirri niðurstöðu, að það væri aðeins eitt atriði í öllu frv., sem væri til bóta!

Hver samdi svo þetta frv.? Já, hverjir sömdu þetta frv.? Það var talað mikið um það hér í vetur, að þá vantaði að vita um höfunda að frv., sem ríkisstj. flutti og mikið var rætt um þá. En hér eru hinar ágætustu heimildir um það, hverjir unnu að þessu máli, og ég ætla að rifja upp nöfn þeirra hér. Það er Sveinn Tryggvason framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem er búinn að gegna því starfi í áratugi. Það er Gunnar Guðbjartsson formaður Stéttarsambands bænda, Ólafur Andrésson bóndi í Sogni, Ingi Tryggvason bóndi á Kárhóli, Guðmundur Þorsteinsson bóndi á Skálpastöðum Þorvaldur G. Jónsson fóðureftirlitsmaður, Hafnarfirði, Jónas Jónsson ráðunautur, Reykjavík, Hjalti Gestsson ráðunautur, Selfossi, Ólafur Björnsson prófessor, Reykjavík.

Það voru þessir menn, sem sömdu það frv., sem hv. 1. þm. Sunnl. leyfir sér að segja um, þegar það er lagt hér fram, að það aðeins feli í sér eitt atriði, sem horfi til bóta fyrir íslenzkan landbúnað. Þetta er vizkulegur málflutningur — eða hitt þó heldur. Ég veit ekki, hverju þetta þjónar eiginlega. Hvernig er þá þessum mönnum farið, sem þarna eru að verki, ýmist bændur eða starfsmenn landbúnaðarins til langs tíma, ef þeir hafa unnið þannig verk sitt? Og þar á meðal eru tveir flokksbræður hv. þm. og a. m. k. annar þeirra maður, sem ég hef starfað með í nefndum, sem þessi sami hv. þm. skipaði, og ég veit ósköp vel, að sá maður hefur mikla yfirsýn um landbúnaðarmálin, af kynnum mínum við hann.

Nei, ég held, að hitt sé sönnu nær, þegar maður virðir fyrir sér þetta tal hv. 1. þm. Sunnl., að hann sé sjálfur orðinn meira en lítið taumskakkur í afstöðu sinni til forsvarsmanna íslenzks landbúnaðar og landbúnaðarins í heild, en ekki hitt, að þessi hópur manna hafi gert hér eintóma vitleysu frá upphafi til enda, nema álpazt inn á eitt atriði, sem til bóta horfði. Mér verður að bera þessa neikvæðu nöldursræðu hv. 1. þm. Sunnl. saman við afstöðu mína og margra annarra fyrrv. stjórnarandstæðinga hér á Alþ., þegar við stóðum að því með þessum hv. þm. að semja og koma hér fram breytingum t. d. á þessari löggjöf, t. d. á löggjöfinni um Stofnlánadeild landbúnaðarins, Landnám ríkisins o. fl. Mér verður að bera þetta saman. Þetta mál er undirbúið á ákaflega líkan hátt, og eins og ég sagði áðan, í undirbúningnum var pólitísk breidd. Það voru þarna t. d. tveir menn úr flokki hv. þm., sem að þessum undirbúningi unnu og skiluðu samhljóða áliti. Það var unnið að þessu á nákvæmlega sama hátt og þá, en þessi er afstaðan hjá þessum hv. þm. nú. Hitt er svo annað mál, að menn voru ekki alltaf sammála hér, þá frekar en nú. Við voru ekki sammála hv. 1. þm. Sunnl., þegar hann og ríkisstj. hans stóðu að því að skera niður framkvæmdafé Landnámsins um nokkrar millj. í stað þess að snúast við nýjum verkefnum, þegar dvína tóku þau verkefni, sem Landnám ríkisins hafði unnið að á undanförnum árum. Við vorum ekki sammála og við deildum það kvöld eftir kvöld, hvort það ætti að gera eða að fela Landnámi ný verkefni. Og við vorum ekki heldur sammála um það, þegar hverfa átti frá því að taka inn í fjárlög 1971 framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins í sambandi við uppbyggingu sláturhúsanna. Við vorum auðvitað ekki sammála um það, og um það var rifizt hér kvöld eftir kvöld. En um lagasetningar í landbúnaðarmálunum, sem undirbúnar voru á sama hátt og þetta frv., sem hér liggur fyrir, af n., sem skipuð var á breiðum grundvelli, mönnum úr mörgum stjórnmálaflokkum, þá stóðum við vitanlega saman um þau mál, og þó að við værum ekki algerlega sammála, þá held ég, að enginn okkar, þáv. stjórnarandstæðinga, hafi viðhaft jafnneikvæðan málflutning í þessum málum og hv. 1. þm. Sunnl. taldi sér henta að hafa um hönd hér í dag.

Við þessu er náttúrlega ekkert að segja. Þetta er hans aðferð og ég hef mína aðferð. En mér er víst óhætt að segja, eins og þar stendur: Ólíkt höfumst við að!

Það er út af fyrir sig, þó að þessi hv. þm. gagnrýni breytt samningaform, sem er nokkuð veigamikið atriði í þessu frv. Það er út af fyrir sig. Það er hins vegar svo komið, að þetta er nú orðið ofan á, þetta er orðin stefna bændasamtakanna, að vilja breyta hér um. Það er engum blöðum um það að fletta og það vita allir, sem nokkuð hafa komið nálægt þeim málum, að það er komin ákaflega mikil þreyta í þetta gamla kerfi. Það hafa verið tíðar úrsagnir frá mótaðilanum og valdið töfum og miklum erfiðleikum við verðlagninguna oft og tíðum. Það er langt síðan sú skoðun var uppi í bændasamtökunum, þó að hún nyti þá minnihlutastuðnings aðeins, að það væri eðlilegra að semja beint við ríkisvaldið, m. a. og alveg sérstaklega vegna þess, að það hefur verið álit okkar margra, sem að þessum málum höfum starfað, að ríkisvaldið hafi alltaf verið meira og minna á bak við á seinni árum og ráðið mjög mildu um svip og gerð þeirra samninga, sem gerðir voru þá og þá, en hins vegar ekki borið ábyrgð á þeim opinberlega. Og það sjónarmið var orðið ofan á, að það væri rétt að ganga nú hreint til verks og fá ríkisstj. beint inn í málið og gera hana ábyrga, enda hafa verðlagsmálin mikil áhrif á efnahagslífið og þá líka verðlagning landbúnaðarvara. Það er þó ekki óeðlilegt, að menn deili um svona atriði. En ástæðan til þess, að farið er í þessa breytingu nú, hún er eitthvað á þessa leið. Hitt finnst mér ákaflega einkennilegt, að hv. 1. þm. Sunnl. gagnrýnir það sérstaklega, að sjómenn eru núna felldir út úr viðmiðuninni. Þetta er það, sem í raun og veru gerðist 1966, þegar þessum lögum var breytt undir forustu þessa sama hv. þm., þegar hann var ráðh. landbúnaðarmála. Þá voru tekjur hlutarsjómanna og ákvæðisvinna tekin út og þá voru ekki eftir aðrir en lægst launuðu sjómennirnir. Um þetta atriði má deila. Það kemur þó úr hörðustu átt gagnrýni frá þessum hv. þm. um þetta. En það er skoðun margra, að það sé ekki eðlilegt að taka hinar ákaflega sveiflukenndu tekjur sjómannanna til viðmiðunar hér. Enda mun hitt mála sannast, að ef bændur raunverulega bera úr býtum fyrir unna vinnustund eins og til er ætlazt, þ. e. ámóta kaup eins og iðnaðarmenn og verkamenn hafa, þá mun hag þeirra nokkuð vel borgið miðað við það, sem þeir hafa átt að venjast.

Mér fannst það líka koma úr hörðustu átt, að þessi hv. þm. skyldi finna að því, að það er gert ráð fyrir því í frv., að tekizt geti samningar um fleiri atriði heldur en beint verðlagninguna sjálfa á milli ríkisstj. og fulltrúa bænda. Þetta gerðum við hér um árið. Við, sem þá vorum í verðlagssamningum af hálfu framleiðenda, sömdum við þáv. ríkisstj. um vissa, hluti, um stofnun Framleiðnisjóðsins, um 55 millj. kr. framlagið, framlag til súgþurrkunar o. fl. Við sömdum um þetta. Og ég vissi ekki annað en hæstv. þáv. landbrh., sem vitanlega kom fram fyrir hönd ríkisstj. í þessu máli, þætti þá þetta ofur eðlilegt. Og ég vil ekki viðurkenna það, að þá hafi á neinn hátt verið fallið frá eðlilegum kröfum af okkar hálfu í sambandi við verðlagninguna. Hitt var, að það var reynt að vinna þetta samhliða og reynt að skoða stöðuna í heild. Mér finnst fráleitt fyrir þann hv. þm., sem þá fór með stöðu ráðh., að fordæma þetta nú.

Ég ætla nú ekki að ræða frekar málflutning hv. 1. þm. Sunnl. að neinu marki, kannske vík aðeins að honum í sambandi við þau atriði, sem ég minnist á síðar. En ég hafði nú eiginlega gaman af því, að hann minntist á n., sem skipuð var 1970 til þess að vinna að heildarskoðun þessara mála. Það kom fram, að hún hefði farið sér hægt, og það er satt. Hins vegar álít ég, að hún hafi unnið nokkuð þýðingarmikið undirbúningsstarf. En hún fór sér ákaflega hægt. Ég var í þeirri n., eins og í fleiri landbúnaðarnefndum, sem fyrrv. hæstv. ráðh. skipaði. Ég varð ekki var við það, að hann ræki mikið á eftir okkur, og ég held, að hann hafi ekki ætlazt til skjótrar niðurstöðu hjá okkur. Það er ekkert að undra það, þó að ný stjórn aftur á móti vilji stokka upp þessa n., og ekki torskilið, þó að ný stjórn hafi áhuga á að hraða nokkru meira breytingum en fyrrv. stjórn sem hafði þá þegar nokkuð að gert í þessum málum og staðið að vissum breytingum á þeim.

Eins og sagði áðan, var niðurstaðan hjá hv. 2. þm. Sunnl. sú, að í frv. væri aðeins eitt ákvæði jákvætt. Það er aftur á móti mín skoðun og okkar, sem unnið höfum í bændasamtökunum og verið kjörnir þar til starfa, að í þessu frv. séu annars vegar mörg veigamikil atriði, sum meira, en önnur minna, en þó mörg veigamikil atriði, sem að okkar dómi stefna öll í rétta átt, — annars vegar þetta og svo hins vegar, að inn í frv. séu tekin fjöldamörg smærri atriði, sem eru til hagræðingar, eðlileg ákvæði, sem eru sett í samræmi við fengna reynslu, sett inn í frv. vitanlega með ráði og fyrir forgöngu þeirra manna, sem að því hafa unnið og allir hafa haft mikil afskipti af málefnum landbúnaðarins á undanförnum árum.

Ég er ekki einn af höfundum þessa frv., en ég vil þó leyfa mér, fyrst ég er farinn að tala hér, að fara örfáum orðum um þessi atriði, og það verður þá frá sjónarhóli okkar, sem starfað höfum í bændasamtökunum á undanförnum árum.

Meginatriðin mætti ef til vill skilgreina eitthvað á þessa leið: Það er breytt um samningsform frá því, sem verið hefur, teknir upp beinir samningar við ríkisstj. í stað samninga við neytendur. Það er tekin upp breytt tilhögun við verðlagninguna á ýmsa lund, sem við teljum til bóta. Það er meiningin að lögfesta ákveðna möguleika til verðjöfnunar, ef til þess kemur, að útflutningsbætur nægi ekki. Það eru tekin upp ákvæði um áætlanagerð til langs tíma og árleg endurskoðun á slíkri áætlun. Þetta er fært í fast form. Það er kveðið á um, að hafa skuli samráð við bændasamtökin um breytingu á niðurgreiðslum á íslenzkum landbúnaðarvörum, að ríkisstj. skuli hafa samráð við bændasamtökin um þessi atriði. Það eru tekin upp ákvæði, sem ég vil segja að séu um hagstæða útfærslu á þeirri tryggingu, sem felst í 10% útflutningsuppbótunum. Það eru ákvæði um aðgerðir, sem um leið og þau þjóna til verðjöfnunar ættu að draga úr framleiðslu, ef tímabundnir erfiðleikar verða við afsetningu framleiðslunnar. Það eru einnig tekin upp ákvæði um aðgerðir, ef framleiðslan kynni að verða of lítil fyrir innanlandsneyzluna eða öllu heldur of lítil til þess, að hún fullnægi þörf þjóðarinnar fyrir landbúnaðarvörur, hvort sem um innanlandsneyzlu eingöngu er að ræða eða útflutning, sem teldist hagkvæmur.

Þetta finnst mér að megi ef til vill segja að séu meginatriðin, þau helztu. Annars er það einfalt og þarf ekki að taka langan tíma að renna augum yfir frv. og gera sér grein fyrir þeim breytingum, sem í því felast. Í 1. gr. er fjölgað í Framleiðsluráði um tvo menn. Þetta er mjög eðlileg breyting. Með þessu er reynt að breikka aðeins grunninn. Það er búið að gera þetta í Stéttarsambandinu. Stjórnin er þannig skipuð að það er kosinn einn stjórnarmaður úr hverju kjördæmi. Þetta er mjög eðlileg breyting, og er hér orðið við beiðni bændasamtakanna um, að í Framleiðsluráðinu skuli einnig fjölga um þessa tvo menn.

Í 2. gr. eru ákvæði, sem ég þegar hef sumpart minnzt á, ákvæði um að stuðla að eflingu landbúnaðarframleiðslunnar í samstarfi við Búnaðarfélag Íslands svo og að vinna skuli að því, að landbúnaðarframleiðslan henti sem bezt þörfum þjóðarinnar, en í lögum nú er talað um að fullnægja þörfum þjóðarinnar. Þannig var sá blær á þessu ákvæði, að það skyldi eingöngu miðað við innanlandsneyzluna. Hér eru svo þessi ákvæði, sem ég minntist á áðan, í sambandi við ummæli hv. ræðumanna hér áðan, um áætlunargerð til langs tíma og endurskoðun þeirrar áætlunargerðar árlega, þar sem leitast skal við að samhæfa hana breyttum aðstæðum hverju sinni. Hér er enn nýtt ákvæði um það, að Framleiðsluráð getur sett reglur um útborgun til bænda. Þeim, sem ekki þekkja vel til þessara mála, sést sennilega yfir þetta atriði, en þetta meta bændur nokkurs, og hafa verið uppi ítrekaðar óskir um það, að Framleiðsluráð fengi vald til þess að ákveða lágmarksútborgunarverð til bænda.

Í 3. gr. eru svo þau ákvæði, sem hér hefur verið harðast deilt á. Þar er um að ræða öryggisráðstafanir, ef til þess kemur, að útflutningsbætur hrökkva ekki. Ég get tekið undir það, sem hæstv. landbrh. sagði hér í dag, að ég held, að þetta svokallaða kvótakerfi komi varla til framkvæmda, það verði aldrei talið skynsamlegt að beita því, ég tel á því svo marga annmarka, og ég ætla ekki að fara frekar út í það. Öðru máli gegnir um kjarnfóðurgjaldið. Því er m. a. talið það til kosta, að með því fæst breiður grunnur undir verðjöfnunaraðgerðir. Á því á að vera tiltölulega örugg innheimta miðað við aðrar hugsanlegar leiðir til verðjöfnunar, ef á þarf að halda. Það er hægt — og beinlínis gert ráð fyrir þeim möguleika — að létta slíku gjaldi af þeim byggðarlögum, sem eiga kynnu við sérstaka erfiðleika að búa, þegar það yrði lagt á, t. d. vegna heyleysis. Sá möguleiki er fyrir hendi og á ekki að vera mjög erfiður í framkvæmd. Það er auðvelt að beita þessari aðgerð sem stutttímaráðstöfun, og það er gert ráð fyrir þeim möguleika, eða réttara sagt, það er skylt við niðurfellingu slíks verðjöfnunargjalds að endurgreiða þá afganginn, og það á einnig að vera tiltölulega auðvelt. Það er svo einnig talið til kosta, að það felst í þessari aðgerð, jafnframt því sem þar er um að ræða aðferð til verðmiðlunar, hugsanlegur hemill, sem ætti þá að verka eðlilega undir þeim kringumstæðum, að framleiðslan væri það mikil, að erfitt væri að afsetja hana með eðlilegu móti. Þetta fyrirkomulag er nokkuð þekkt með öðrum þjóðum, og þó að okkur þýði ekkert að ætla að gleypa þeirra ráð ómelt, þá er þó eðlilegt, að við lítum einnig til þeirra reynslu, en eins og kemur hér fram í, greinargerð með þessu frv., hafði n. samráð við forsvarsmann norskra bænda og fékk hugmyndir þaðan og skoðaði þær um leið. En á það ber að leggja höfuðáherzlu, að fyrst og fremst eru þessar ráðstafanir, sem felast í tveim fyrri þáttunum í 3. gr., aðferð til verðmiðlunar. Mér finnst það ósköp ábyrgðarlítið tal hjá hv. 1. þm. Sunnl., sem er nýkominn úr ráðherrastóli, að ráðleggja það að hafa engar slíkar ákvarðanir tiltækar í lögunum, m. ö. o. að láta hverjum degi nægja sína þjáningu að þessu leyti og sjá bara til hverju fram vindur, — mér finnst það. En ég gat ekki skilið ræðu hans öðruvísi en að það væri hans hugmynd. Við höfum fengið að prófa í bændasamtökunum, hvernig það er að vera alls óviðbúnir því, að þurfa að gera svona ráðstafanir. Það var hérna um árið, þegar allt útlit var á að útflutningsbætur nægðu ekki til þess að bæta upp verðlag seinustu sendinganna af útflutningsvörunni það verðlagsár. Það er ástæða til þess að muna eftir þessu. Það felst ekki í því nein spá um eitt eða annað, þó að menn vilji hafa í huga fengna reynslu og setja undir lekann og hafa tilbúnar aðgerðir, ef til álíka aðstæðna kæmi síðar. Í því felst engin spá til eða frá.

Ég tók eftir því í ræðu hv. 1. þm. Sunnl. að hann sagði, að bændur vildu frekar láta vanta nokkra aura upp á verð en fara að setja á skatta. Það er ekki það, sem um var að ræða þarna um árið, þegar svokallað innvigtunargjald var sett á, að það væru horfur á því, að það vantaði nokkra aura upp á verð einingar yfir allt landið, — það var ekki það, sem var um að ræða. Það var um það að ræða, að síðustu útflytjendurnir fengju engar uppbætur, ef svo færi, sem þá horfði. Það er venjan, og það er varla hægt að hafa það öðruvísi en að greiða fullar uppbætur á útflutninginn á meðan til hrekkur, og það var gert þá, frá byrjun verðlagsársins. Það var þetta, sem um var að ræða. Þá var aðstaða ríkisstj. þannig, að hún gat haldið að sér höndum. Framleiðsluráð og forsvarsmenn bænda stóðu frammi fyrir þessu sjálfir: Eigum við að taka áhættuna af því að komast í þá aðstöðu, að nokkur vinnslubú, sem síðust flytja út sína vinnsluvöru, fái ekki greitt nema lítið brot af heildarverðinu, því þá var mjög lágt verð á vinnsluvöru mjólkur, eða eigum við að fara í það til öryggis að taka verðjöfnunargjald af framleiðslunni? Því hefur jafnvel verið haldið fram, að þetta gjald hafi ekki haft við bein lagaákvæði að styðjast. Ég skal engan dóm á það leggja, en við tókum þessa áhættu. Og við gerðum það m. a. í krafti þess, að það hefur verið aðall íslenzkra bændasamtaka, í verzlun og annars staðar, að leita eftir slíkum jöfnuði og ástunda slíka samhjálp, að ekki kæmi til slíks mismunar sem þarna hefði orðið. Þróunin varð svo sú, að ekki þurfti að nota þetta gjald nema þá að örlitlu leyti.

Að samþykktu þessu frv., ef það verður að lögum, er aðstaðan orðin gjörólík. Það er ekki einasta það, að komið sé inn í lög ákvæði, sem hægt er að grípa til samkv. lögum, og menn vita þannig, hvað að þeim snýr. Það hefur líka breytzt annað, ef þetta frv. verður að lögum. Þá verður þannig um búið, að ríkisstj. verður að taka þátt í slíkum vandkvæðum með bændasamtökunum, taka þátt í þeim ákvörðunum, sem gerðar eru, hvort sem þær, yrðu með þessum hætti eða með öðrum hætti. Hún getur ekki skotið sér undan því samkv. frv. að taka þátt í þessum aðgerðum, vera meðábyrg í þeim og þátttakandi, og það álítum við í bændasamtökunum mjög mikils virði.Þá eru og sérstök ákvæði í 3. gr., sem er útfærsla á stefnumarkandi atriðum 2. gr., um það einnig, hvað gera skuli, ef framleiðslan aftur á móti yrði of lítil; það eru ákvæði um hvort tveggja. Þannig felst hvorki beinn eða óbeinn spádómur í þessu frv. um það, að hér gerist eitt eða annað í þessum efnum, heldur er reynt að gera ráð fyrir hugsanlegum möguleikum á báðar hliðar.

Þá eru það ummælin hér áður í dag um gjald til sláturhúsanna. Ég kann illa við það hjá hv. 1. þm. Sunnl. að láta líta svo út sem þarna sé um engan vanda að ræða heldur, — ég held, að hann hafi verið að bera þetta saman við frystihúsamálið, það væri miklu stærra. Hér er líkt á komið að því leyti, að tilteknir erlendir markaðir hafa eiginlega lokað á bæði fiskframleiðsluna og kjötframleiðsluna. Þetta er náttúrlega ekki góður dómur um árvekni valdhafa á undangengnum áratug, að þannig skuli nú komið. En sleppum því. En þarna er ekki um lítinn vanda að ræða varðandi sláturhúsin, þó að þar sé kannske um að ræða eitthvað færri milljónir eða milljónahundruð en í fiskvinnslunni, vegna þess að þarna er gjörólíku til að dreifa. Menn byggja sín frystihús við sjóinn, og með stærri skipum má ætla, að þau hafi að jafnaði næg verkefni allt árið, að þar sé unnið í 12 mánuði. Sláturhúsin eru ekki starfrækt nema mánuð eða hálfan annan mánuð og fjármagnskostnaður undir slíkum kringumstæðum hlýtur því að verða gífurlega miklu þyngri á framleiðslunni en þegar hægt er að reka fyrirtækin allt árið. Þess vegna er þarna um mjög mikinn vanda að ræða. Það kemur fram gífurlegur skakki, ef ekkert er gert til að jafna þarna á milli þeirra, sem slátra við lítinn fjármagnskostnað, annars vegar og hinna, sem hafa hann hæstan, þegar nýbúið er að byggja, hins vegar. Enda held ég, að allir séu sammála um það, að þarna verður nokkuð að gera, nema náttúrlega hv. 7. þm. Reykv., hann horfir bara á einn punkt, án þess að líta til hægri eða vinstri og gera sér grein fyrir mörgum vandasömum atriðum, sem þurfa að koma inn í myndina, eins og ég gat um áðan.

Með hliðsjón af því, sem gerðist við afgreiðslu fjárlaga 1971, þegar ríkisstj. hummaði það fram af sér að taka inn framlag til Framleiðnisjóðs vegna sláturhúsanna, sem þó var orðið ákveðið samkomulag um, þó að það væri ekki skjalfest, — með tilliti til þess finnst mér ummæli hv. 1. þm. Sunnl. um þetta atriði frv. nánast óviðurkvæmileg.

Svo er það náttúrlega sér á parti, — maður ætti nú kannske ekki að vera að rifja það upp, en það var nú svo nærri hv. 1. þm. Sunnl. hér um árið að standa sjálfur að því að setja á kjarnfóðurgjald, að hann var búinn að láta prenta stjfrv. með ákvæðum um kjarnfóðurgjald inniföldum. En á elleftu stundu eða rúmlega það sá hann sig um hönd, en tókst þá svo klaufalega til, að það gleymdist að afmá sporin úr greinargerðinni. Sagði í grg. eftir sem áður á þessa leið: „Fé því, sem mjólkurbúin héldu þá eftir, ásamt innflutningsgjaldi af kjarnfóðri yrði varið til útflutningsbóta miðað við framlag ríkissjóðs: Þarna munaði svo mjóu, að það var búið að prenta stjfrv. og grg. svona, en svo láðist það, þegar ákvæðið var tekið út úr sjálfu frv., að taka það einnig út úr grg. En þó að þetta stæði svona glöggt, þá flutti þáv. hæstv. landbrh. aldrei frv. með þessu ákvæði. En þetta munaði mjóu!

En sleppum nú þessari umdeildu grein með öllum þessum þýðingarmiklu ákvæðum, sem ég tel öll til bóta og nauðsynleg, nema kvótaákvæðið, sem ég tel nánast þýðingarlaust og væri kannske eðlilegt að félli hér út. Stéttarsambandsfundurinn, sem fjallaði um þetta mál, lét það kyrrt liggja. Það fór ekki fram sérstök atkvgr. um þetta atriði þess.

5. gr., þar sem fjallað er um það, við hvað skuli miðað, þegar laun bóndans eru ákveðin, þar er ákveðið að miða við kaupgjald. Í lögum frá 1966 voru ákvæði um þetta efni blönduð. Áður hafði verið miðað við tekjur eingöngu, en þar eru blönduð ákvæði, bæði talað um tekjur og um kaupgjald, en í reynd var þó unnið eftir því síðar nefnda, að finna vinnustundafjölda og ákveða bændum og starfsliði þeirra laun í samræmi við kaup viðmiðunarstétta, eftir þeim reglum, sem þá voru um það settar og nánar útfærðar í Sexmannanefnd. En nú er alls staðar horfið að launaviðmiðun í frv.

Menn segja margt um tekjusamanburð bænda og annarra stétta. Eins og ég hef oft sagt, þegar þetta mál hefur borið á góma, vil ég taka allar slíkar tölur með varúð, því að þarna eru mjög mörg atriði, sem grípa inn í, þannig að erfitt er að fá nákvæman samanburð. En ég held þó, að engum blandist hugur um það, að í opinberum skýrslum sé um svo mikinn skakka að ræða, að það halli á bændur í raun. Og þetta sýnir, að okkur hefur ekki tekizt í þessi 20 ár, sem við höfum unnið eftir tekjuviðmiðuninni, að ná viðunandi árangri, þ. e. að fullnægja því skilyrði, sem er og var í lögum, að bændur skuli hafa sömu tekjur og aðrar hliðstæðar stéttir.

Það er nú horfið frá tekjuviðmiðun og faxið yfir í það að miða við unnar stundir og tiltekið kaupgjald á stund. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem hægt er að deila um, því að það er ekki með fullri vissu hægt að segja fyrir fram um árangur af þessari breytingu. En að yfirsýn þeirra, sem að þessum málum hafa unnið og hér hefur verið rifjað upp hverjir voru, er þetta skynsamlegt. Þeir telja, að þetta leiði til eðlilegri niðurstöðu, þ. e. að það mark nálgist, sem lögin setja, að bændur hafi sambærileg kjör við hliðstæðar stéttir í þjóðfélaginu.

Í þessari grein eru líka skýrari ákvæði um það, við hvað skuli miða, þegar vinnutími er ákveðinn. Í 6. gr. eru svo þau ákvæði, sem ég hef áður vikið að, um breytta tilhögun á verðlagningunni, þ. e. a. s. að samið skuli við ríkisvaldið, og skal ég ekki fara um það fleiri orðum.

Í 7. gr. eru allmörg nýmæli. Þar eru bein ákvæði um, að heimilt sé að semja um sérstök fjárframlög ríkisins til landbúnaðarins, um leið og samið er um verðlagsmálin. Þetta hefur að vísu verið gert áður, en það hefur ekki verið til lagarammi um þetta efni. Það er eðlilegt, að hann komi. Um leið og farið er að semja beint við ríkisvaldið, þá er eðlilegt, að þetta komi inn um leið. Menn hafa deilt um þetta og við fengum á sínum tíma nokkrar ákúrur fyrir það hjá bændum á bændafundum að semja við ríkisstj. um vissa hluti, um leið og við sömdum um verðlagið. En ég held, að þegar frá leið hafi sú gagnrýni hjaðnað.

Þá er hér sú breyting, að það er tekið upp ákvæði, sem eitt sinn hafði verið í lögum, að Framleiðsluráði sé heimilt að færa til í verðlagi á milli vöruflokka innan sömu framleiðslugreina. Þetta var seinna fellt niður um tíma — var óheppilegt. Ég held, að þetta geti á engan hátt skaðað neytendur, þessi möguleiki, en nauðsynlegt er að hafa svona sveigjanleika til að nýta sem bezt markaðinn á hverjum tíma. Og þarna er enn um breytingu að ræða.

Það er einnig um breytingu að ræða, að því er snertir ákvörðun á smásöluverði síðar í þessari grein. Þá eru breytingar á yfirnefnd. Hér er ákveðið fortakslaust, að Hæstiréttur tilnefni oddamanninn, en áður máttu menn koma sér saman um hann. Það gafst ekki vel og það er engin ástæða til þess, álít ég, að hafa slíkt ákvæði í lögum. Þetta er sú mesta trygging, sem hægt er að gefa í íslenzku þjóðfélagi fyrir hlutlausum og réttsýnum oddamanni, að Hæstiréttur, æðsti dómstóll landsins, tilnefni hann. Ég er sammála n., sem samdi þetta frv., um það, að lengra verði ekki komizt í því efni. Síðan eru hér nokkur nýmæli. Yfirnefnd getur óskað þess, að nefndarhlutarnir tilnefni málflytjendur, það gæti flýtt fyrir málsmeðferð. Svo eru hér nokkur ákvæði, sem eiga að tryggja það, að verðlagningin geti tekizt á réttum tíma. Hér er líka ákvæði um það, að yfirnefnd skuli leggja fram grg. Það hefur stundum þótt hart, þegar menn hafa verið óánægðir með niðurstöður, að geta ekki krafið yfirnefnd um rökstudda grg. fyrir felldum úrskurði. Hér er svo ákvæði, sem segja má að komi á móti verkfallsrétti hjá öðrum, að það er hægt með ákveðinni kröfugerð og vissum aðgerðum að krefjast þess, að úrskurður gildi ekki nema 6 mánuði,

Ég vil enn minnast á nokkur atriði. Það er hér breyting, sem bændur telja til bóta, á ákvæðum um breytingu á verðlagi landbúnaðarvara í sambandi við breytt verðlag í landinu. Þau ákvæði, sem hér eru tekin upp, teljum við eðlileg. Við teljum, að þau muni spara óþarfa reiptog um þessi mál. Það er einnig í 11. gr. ákvæði um að flytja verðlagningunni og um það, hvenær Hagstofan skuli skila sínum upplýsingum.

Við leggjum töluvert upp úr þeim breytingum, sem felast í 14. gr. og ég aðeins hef vikið að áður, þar sem kveðið er á um það, að samráð skuli haft við Sexmannanefnd og Framleiðsluráð landbúnaðarins í sambandi við niðurgreiðslurnar. Þetta er ekki þýðingarlítið atriði, að hafa það svart á hvítu, að við samtökin skuli ráðgast um þessi mál, enda þótt endanleg afgreiðsla þeirra hljóti að vera í höndum þeirrar ríkisstj., sem fer með völd á hverjum tíma. Þetta er þýðingarmikið, af því að sveiflur í niðurgreiðslunum geta verið næsta örlagaríkar fyrir afsetningu á landbúnaðarvörum á hverjum tíma. Svo er hér í lok þessarar greinar ákvæði um það, að heimilt sé að semja um, að hluti niðurgreiðslu einhverrar vörutegundar sé greiddur framleiðendum án tillits til framleiðslumagns, eða m. ö. o. greiða niður kostnað við búrekstur. Þarna er um nýmæli að ræða og þarna er komið aðeins til móts við hugmyndir um að breyta til um form niðurgreiðslna frá því, sem verið hefur. Þetta er ekki nánar tilgreint hér og yrði vafalaust útfært í reglugerð.

Í 1. gr. eru ákvæðin varðandi 10% trygginguna, útflutningsbæturnar. Ég vék að þeim áðan og skal ekki fjölyrða um þær frekar, en við teljum að þessar breytingar, sem þarna eru gerðar, séu mjög þýðingarmiklar og geti haft mikil áhrif til hagsbóta fyrir landbúnaðarframleiðsluna og landbúnaðinn í heild. Það er einnig fjarri okkur að gera lítið úr þeim ákvæðum, sem felast í 16. gr. frv., um aðgerðir til styrktar búsetu í þeim landshlutum, sem við sérstaka erfiðleika eiga að stríða og þar sem hættan er á eyðingu byggðar eða skortur verður á búvöru. Þetta er ekki eingöngu búsetuatriði í sveitunum, heldur er þarna líka um að ræða, ef skortur verður á búvöru fyrir þéttbýlisstaðina.

Þetta er nýmæli að nokkru leyti, þó áður hafi verið framkvæmd slík verðjöfnun með ýmsu móti í sambandi við flutninga á afurðum, þá er hér á vissan hátt og kannske að mestu leyti um nýmæli að ræða. Við teljum það mjög þýðingarmikið, að reynt verði að færa þessa starfsemi út. Það er öllum hv. þm. ljóst, að það þarf meira að gera en hækka almennt verðlag landbúnaðarframleiðslu. Það er auðvitað meginatriði að vinna að því að gera framleiðsluna ódýrari og hagfelldari og með öðrum hætti og öllu móti að stuðla að því, að þeir, sem hana stunda, geti fengið sambærilegar tekjur við aðrar stéttir. En þetta verður aldrei einhlítt. Það er svo gífurlegur aðstöðumunur innan bændastéttarinnar, sumpart vegna mismunandi árferðis eða mismunandi aðstöðu í landshlutum og fyrir margvíslegar aðrar ástæður, að það er einnig ákaflega þýðingarmikið að vinna á þessum væng og leitast við að gera ráðstafanir til þess að greiða fyrir þeim, sem á höllustum fæti standa, hvort sem það er eftir langvarandi kal og margra ára grasleysi eða þá af einhverjum öðrum ástæðum. Þess vegna er það, að þessi grein er að mínum dómi ákaflega þýðingarmikil.

Ég skal þá ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. Mér fannst rétt, að ég gerði örlitla grein fyrir því, á hvern hátt ég lít á þetta frv. Ég held, að það sé nokkur spegilmynd af því, hvernig bændasamtökin og þeir menn yfirleitt, sem eru í forsvari fyrir bændastéttina og setið hafa fundi í þeirra stéttarsamtökum og verið kosnir í stjórn þeirra, líta á þessi mál. Við undirbúning þessa frv. hefur ekki orðið stórágreiningur innan bændasamtakanna og um langflest atriðin eru menn alveg sammála. Og það varð ekki á aukafundinum, sem haldinn var um það sérstaklega, harður ágreiningur um neitt nema kjarnfóðurgjaldið. Um það varð ágreiningur, og ég álít að það hafi verið gert óeðlilega mikið úr þessu atriði, því þetta er að mínum dómi ekki höfuðatriðið, þó að það sé auðvitað þýðingarmikið atriði, á hvern hátt menn jafna út, ef til þeirra hluta kæmi, nefnilega til vöntunar á útflutningsbótum. Mér fannst, að það væri gert óeðlilega mikið úr þessu atriði. En þetta var líka í raun og veru það eina, sem nokkur verulegur ágreiningur varð um, og úr þeim ágreiningi var skorið á þessum fundi með atkvgr., sem sýndi það, að margfaldur meiri hl. vildi prófa að taka inn þetta heimildarákvæði, þó að nokkrir væru því andvígir. Það hefur alltaf verið, eins og ég held ég hafi sagt áðan, aðall íslenzkra bændasamtaka, það er samhjálpin, hvort sem um er að ræða verzlunarfélög eða félög, sem annast afsetningu vörunnar.

Ég skal svo að lokum aðeins segja það, að ég vona, að þetta frv. verði afgr. hér á þessu þingi nú og að meginatriði þess megi haldast. Það er alltaf dálítill tvískinnungur í mönnum, þegar þeir eru að tala um meðferð mála hér á hv. Alþ. Annars vegar býsnast menn yfir því, að allt sé fyrir fram undirbúið og lagt fram í föstum skorðum og megi ekki neinu breyta. Hins vegar, ef frv. er lagt fram eins og þetta, þar sem þeir, sem að því standa, þ. e. stjórnarliðið, eru sammála um meginatriði, en um aukaatriði er ágreiningur, sem Alþ. kemur þá til með að fjalla um, þá eru menn einnig að blása þetta upp og telja þetta eitthvað stórvítavert. Það er eins og fyrri daginn, það er erfitt að gera öllum til hæfis, en ég get ekkert séð við það að athuga, nema síður sé, þó að Alþ. við meðferð þessa frv. breyti þar nokkrum atriðum, ef megintilgangur frv. helzt óhaggaður.