12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Mér var það nokkur ánægja, að þeir félagarnir, hv. 1. þm. Sunnl. og hv. 7. þm. Reykv., skyldu taka svo hraustlega til máls hér í dag sem þeir gerðu. Að vísu er það svo með hv. 7. þm. Reykv., að það er ekki nýtt, að hann hristi hér úr klaufum í ræðustóli, en hv. 1. þm. Sunnl. hefur ekki gert það um þó nokkuð langan tíma. Hins vegar sparaði hann ekki gífuryrðin í dag eða dylgjurnar, en um það hef ég ekkert að segja, að því leyti sem þær sneru að mér og hæstv. ríkisstj., en hins vegar er það, sem sneri að öðrum og ég mun víkja hér síðar að. Annars mátti um ræður þessara ágætu félaga segja það, að það átti við, að margt kemur upp, þegar hjúin deila, og þar kom, þegar hv. 7. þm. Reykv. lýsti landbúnaðarstefnu þeirrar ríkisstj., sem hann sat í 12 ár ásamt hv. 1. þm. Sunnl., að hann lýsti henni á þann veg, að skort hefði alla skynsemi og búrekstrarstefnan væri að mestu leyti fásinna. Mér datt það líka í hug, þegar hv. 1. þm. Sunnl. sagði frá því, að hann hefði skipað n., sem hefði átt að starfa lengi, að einn úr hópi þeirra samherjanna, hv. 1. þm. Sunnl. og hv. 7. þm. Reykv., sagði mér frá því í haust, svona í gamni, að reglan hefði verið sú, að þegar hv. 7. þm. Reykv. hefði verið nýbúinn að flytja ræðu hjá kaupmannasamtökunum, en aðalinnihaldið var alltaf árás á landbúnaðinn, þá hefði hann á næsta fundi ríkisstj. alltaf hafið uppþot um það, að stefna ríkisstj. í landbúnaðarmálunum væri ekki verjandi, þá hefði verið talað um, að henni yrði að breyta, og þá hefði hv. 1. þm. Sunnl., þáv. landbrh., sagt: Já, já, ég skal bara skipa nefnd. Svo hefði n. setið aðgerðalítil oftast, þangað til næsta uppþot hefði átt sér stað, og þá hefði annaðhvort verið ákveðið að bæta í n. eða skipa aðra nýja. Mér fannst, að þessi frásögn, sem ég veit, að var rétt með farið, því maður sá þekkti mjög vel til innan dyra í þessum herbúðum, væri staðfest með yfirlýsingu hv. þm. um það, að n. hefði átt að starfa lengi.

Eitt af því, sem hv. 1. þm. Sunnl. gagnrýndi mig fyrir í dag, var það, hvílíkur dugnaður það væri að reka áfram hvert málið öðru fremur. Það er nú svo, að til þessa hefur ekki verið talin ástæða til að gagnrýna menn fyrir dugnað. En í sambandi við það, sem á er sótt um flutning frv. til breytingar á helztu löggjöf landbúnaðarins, þá langar mig til að skýra frá því, að það er aðalfundur Stéttarsambands bænda, sem ályktaði um það að breyta lögunum um Framleiðsluráð og hefur ýtt á, að það mál næði fram að ganga. Af hverju skyldu nú heildarsamtök bændanna á landinu hafa sótt á um það, að þetta yrði endurskoðað og málinu ýtt áfram, enda hefur það verið í höndum forustumanna bændasamtakanna? Það skyldi þó ekki vera, að að þeirra dómi hafi verið ástæða til að vinna að breytingu? Af hverju er Búnaðarþing að sækja það fast að koma í gegn á þessu þingi málum sínum? Er það af því, að það hafi álitið, að þeim málum væri svo vel fyrir komið, að ekki væri ástæða til þess að endurskoðun færi fram á þeirri löggjöf? Af hverju sækir Búnaðarþing fast á það að koma áfram búfjárræktarlögunum? Þetta eru höfuðþættir búnaðarmálanna, — en af hverju sækja bændasamtökin á það að koma þessum málum í endurskoðun nú og koma þeim fram hér á Alþ.? Er það af því, að það hafi verið sérstaklega vel að þessum málum staðið á s. l. árum, — eða ekki? Af hverju sækir Búnaðarþingið í það að láta endurskoða nú alla löggjöf, er varðar ábúð á jörðum, eign á jörðum, Jarðakaupasjóð ríkisins og annað, er lýtur að umráðum og eign jarða? Það var eitt af fyrstu málum, sem forustumen Búnaðarfélags Íslands, Búnaðarþings, komu með til mín, þegar ég var orðinn landbrh. Segir ekki þessi ásókn forustumanna bændasamtakanna sína sögu, og getur það ekki verið, að hv. 1. þm. Sunnl. sé eitthvað órólegur yfir því, að nú skuli málin tekin og reynt að ýta þeim áfram? Það er a. m. k. fullkomin ástæða til að ætla, að þessi samtök, sem bezt vita, hafi talið, að tími væri til kominn að ýta á framgang og breytingar á þessum höfuðþáttum búnaðarmálanna.

Hv. 1. þm. Sunnl. talaði um vinnubrögðin við undirbúning þessa lagafrv. Þeir hafa nú, hv. stjórnarandstæðingar, lagt sér til ýmis orð, sem þeim hafa orðið mjög hugstæð, og haldið, að þeir hafi þar fundið upp eitthvert „patent“, sem þeir gætu notað við öll möguleg og ómöguleg tækifæri, og eitt af því er, að undirbúningur að lagafrv. væri nú verri en áður hefði verið. Nú skulum við líta nánar á þetta.

Í byrjun september s. l. var aðalfundur Stéttarsambands bænda haldinn austur á Höfn í Hornafirði. Ein ályktun þess fundar var sú, að óska eftir endurskoðun á framleiðsluráðslögunum. 14. s. m. skipaði landbrh. n. til að vinna að þessari endurskoðun og undirbúa frv. þar um. Og hverjir voru svo nm.? Voru það einhverjir aukvisar, sem þar voru að verki og áttu að vinna að þessum hagsmunamálum bændastéttarinnar? Nei, ég held, að það sé fjarri lagi, að svo hafi verið. Það voru forustumenn bændasamtakanna, heildarsamtakanna, víðs vegar af landinu. Þessum mönnum var dreift um landið, og þetta eru þeir menn, sem hafa fengið einna mestan trúnað hjá bændastéttinni í landinu. Það voru þrír af stjórnendum Stéttarsambands bænda, þ. á m. formaðurinn. Formaður þessarar n. var framkvæmdastjóri Framleiðsluráðsins, sem hefur verið frá upphafi. Hver efast um ágæti þessara manna til þess að vinna að endurskoðun löggjafar eins og framleiðsluráðslaganna? Þessu til viðbótar koma svo menn eins og Hjalti Gestsson ráðunautur frá Selfossi, sem gegnir hinu mesta trúnaðarstarfi fyrir sunnlenzka bændur. Auk þess að vera framkvæmdastjóri Búnaðarsambandsins þar og ráðunautur, er hann búnaðarþingsfulltrúi. Efast menn um, að þessi maður viti eins skil á högum bændanna á þessu svæði og hver annar? Nei, mér dettur ekki í hug að efast um það. Þessum til viðbótar koma svo Guðmundur bóndi á Skálpastöðum, Þorvaldur G. Jónsson fóðureftirlitsmaður, Jónas Jónsson fulltrúi og svo Ólafur Björnsson prófessor, sem var formaður í n. þeirri, sem síðast endurskoðaði framleiðsluráðslögin. Hann var skipaður af hv. núv. 1. þm. Sunnl., þáv. landbrh. Svo leyfir þessi hv. þm. sér að halda því fram, að verk, sem þessir menn skila og lagt er hér inn á Alþ. án þess að breyta því, sem þeir endanlega gera, það sé illa undirbúið og illa unnið verk. Þessu til viðbótar kemur svo það, að ráðuneytisstjórinn í landbrn. hafði yfirfarið málið meðan það var athugunarstigi hjá n., eftir að hún hafði skilað upphaflegum till. sínum, og í öðru lagi hafði svo aukafundur Stéttarsambands bænda fjallað um þetta mál. Var hann boðaður til þess eins að fjalla um það. Svo leyfir hv. 1. þm. Sunnl. sér að halda því fram, að þetta mál sé illa undirbúið, — mál, sem hefur fengið slíkan undirbúning sem þetta, og svo talaði þessi hv. þm. um það: jú, jú, menn endurskoðuðu lög til þess að bæta þau og menn vildu endurskoða þau, en þeir geti haft rangar skoðanir. Það voru rangar skoðanir, sem forustumenn bændasamtakanna í landinu höfðu, af því að þær féllu ekki að skoðunum hv. 1. þm. Sunnl. Ég leyfi mér að halda því fram, að það sé meira virði að fá samtök bændanna í landinu til þess að standa að baki slíku lagafrv. en skoðun hv. 1. þm. Sunnl., þó ég sé ekki að gera lítið úr henni. Hins vegar er það mín skoðun, að það sé mikils virði og það sé það, sem við stjórnmálamennirnir eigum að virða, þegar félagssamtök stéttanna fjalla um sín mál.! Þá verðum við að virða þær skoðanir meira en annað. Og á því er flutningur þessa frv. byggður. Það þýðir ekki að halda því fram, að það sé hægt með nokkrum rökum að segja, að það séu rangar skoðanir, illa unnið mál, sem hefur fengið slíka meðferð hjá heildarsamtökum, Stéttarsambandi bænda. Þessu vona ég að 1. þm. Sunnl. átti sig á, þótt hann hafi ekki gert það í dag. Út af fyrir sig má hann svo vera með alls konar dylgjur um það, að ég og aðrir í ríkisstj. hafi verið að gera þetta og hitt. Það, sem máli skiptir, er, að það er skjallega staðfest, að stéttarsambandsfundurinn afgreiddi málið með deilum um eitt atriði, sem var þó öruggur meiri hl. fyrir, en að öðru leyti samstætt, alveg án pólitískra skoðana, vegna þess að þeir létu málefnalega afstöðu ráða.

Svo kem ég að því, sem hv. 1. þm. Sunnl. dylgjaði hér um, þeirri skýrslu, sem er í grg., um mismun á tekjum bændastéttarinnar annars vegar og viðmiðunarstéttanna hins vegar. En áður en ég skil við þann þátt, sem ég var hér að ræða um í sambandi við undirbúning málsins, þá langar mig til þess að taka dæmi um hinn góða undirbúning, og með leyfi hæstv. forseta vil ég fá að lesa hér upp úr grg. frv., sem var flutt hér fyrir nokkrum árum, en þar segir svo á bls. 11.

„Vegna mjög örrar framleiðsluaukningar í landbúnaðinum síðustu ár er nú svo komið að flytja verður meira magn af landbúnaðarvörum úr landinu en áður var. Útflutningstrygging skv. 12. gr. nægir ekki til að bæta verðið til framleiðenda í fullt grundvallarverð. Framleiðsluaukningin er mest í mjólk og vinnsluvörum úr mjólk, en þær gefa mun minna verð á erlendum markaði heldur en sauðfjárafurðir. Þetta orsakar það, að verðfall á framleiðslunni til bænda verður meira við að flytja á erlendan markað mjólkurvörur heldur en ef umframframleiðslan væri sauðfjárafurðir. Því þykir nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að beina framleiðslunni inn á hagkvæmari brautir. Hér er lagt til að bæta við 5. tölulið gr. tveim stafliðum, sem fela í sér, að Framleiðsluráði sé í fyrsta lagi heimilt að ákveða og innheimta gjald á erlent kjarnfóður, sem flutt er til landsins. Þetta miðar fyrst og fremst að því að draga úr óhagkvæmri mjólkurframleiðslu. Í annan stað væri Framleiðsluráði heimilt að fyrirskipa lægra útborgunarverð til bænda yfir sumartímann, en þá myndast sá toppur á mjólkurframleiðslunni, sem erfiðleikum veldur. Fé því, sem mjólkurbúin héldu þá eftir, ásamt innheimtugjaldi af kjarnfóðri, yrði varið til útflutningsbóta til viðbótar framlagi ríkissjóðs skv. 12. gr. og til að örva þá framleiðslu landbúnaðarvara, sem væri hagkvæmari fyrir bændastéttina og landbúnaðinn í heild.

Heimildir þessar yrðu því aðeins notaðar, að brýnnar skipulagningar sé þörf í þessu efni: Hvar stendur nú þetta? Þetta stendur í grg. með frv. til laga um breyt. á l. nr. 69 19. júlí 1960, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl., sem var lagt fram á Alþ., 86. löggjafarþingi 1965–66, af þáv. landbrh., hv. 1. þm. Sunnl.

Er þetta af því, að vinnubrögðin voru svo góð, að grg. er ekki samhljóða frv.? Er þetta fyrirmynd að vinnubrögðum, sem gefur hv. 1. þm. Sunnl. og öðrum hv. sjálfstæðismönnum tækifæri til að ræða um það í tíma og ótíma, að frv. og mál séu illa undirbúin? Það leynir sér heldur ekki, hvað þarna er verið að fara og hver rökstuðningur er hér í grg. með frv., sem hv. 1. þm. Sunnl. flutti sem þáv. landbrh. Það er svo saga út af fyrir sig, hvað hefur gerzt, sem gerði það að verkum, að frv. og grg. féllu ekki saman, en því gæti nú hv. 1. m. Sunnl. skýrt okkur frá.

Ég sagði áðan, að hv. 1. þm. Sunnl. hefði verið með dylgjur og aðdróttanir í sambandi við útreikninga þá, sem birtir eru í grg. um viðmiðunarstéttirnar og tekjur bændastéttarinnar. Í sambandi við það atriði vil ég geta þess, að hér hef ég í höndunum skýrslu, sem unnin er af Efnahagsstofnuninni, starfsmanni hennar, sem þetta atriði grg. er byggt á. Hana lét hún n. í té 18. okt. s. l., og í sambandi við þær dylgjur, sem komu fram í ræðu hv. 1. þm. Sunnl. í dag, hef ég leitað eftir því hjá þeim starfsmanni Efnahagsstofnunarinnar, sem samdi þennan hluta grg., að láta mig hafa skýringar á því, sem þar er um að ræða, og vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa þá grg., sem ég fékk hér í dag, í sambandi við þessar aðdróttanir. Auðvitað voru aðdróttanirnar allar miðaðar við það, að ég hefði sem landbrh. reynt að beita áhrifum mínum til þess að fá þá, sem þessa skýrslu gerðu og settu upp, til að hafa hana á þann veg, að hún væri verri fyrir fyrirrennara minn en ástæða væri til. Hins vegar er það svo, að áhrif mín eða óskir mínar í sambandi við uppsetningu þarna er ekki að finna, því að n. vann þetta mál sjálfstætt.

En í því bréfi, sem ég fékk og er undirskrifað af Guðmundi Sigþórssyni, sem er búnaðarhagfræðingur og vann þetta hjá Efnahagsstofnuninni, en þar er hann starfsmaður, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Efni: Aths. um samanburð á tekjum bænda við tekjur viðmiðunarstéttanna.

Í grg. með frv. til 1. um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. er gerður samanburður á brúttótekjum viðmiðunarstéttanna. Fyrir bændur eru teknar þær tölur, sem eru meðalbrúttótekjur kvæntra karla á aldrinum 25–66 ára, sem árlega hafa birzt í Hagtíðindum. Fyrir viðmiðunarstéttirnar eru notaðar sömu upplýsingar og fundið vegið meðaltal brúttótekna þeirra starfsgreina, sem til þeirrar flokkunar teljast.

Með brúttótekjum er átt við tekjur skv. III. kafla framtalsskýrslna án nokkurs frádráttar, vaxtagreiðslna, fyrninga eða fasteignagjalda af útihúsum. Í brúttótekjum eru þannig atvinnutekjur eiginmannsins, konunnar og barna á framfæri framteljanda, hreinar tekjur af atvinnurekstri, tekjur af húsnæði, vaxtatekjur, skattskyld opinber framlög svo sem fjölskyldubætur o. fl. Ekki er fráleitt að álíta, að aðrir liðir í brúttótekjum en tekjur af atvinnurekstri og atvinnutekjur séu svipaðir hjá bændum og viðmiðunarstéttunum, þar sem einungis er um kvænta karla að ræða í úrtakinu. Í tölum um atvinnutekjur kvæntra karla innan viðmiðunarstéttanna, sem unnar voru af Efnahagsstofnuninni, eru einungis taldar atvinnutekjur mannsins, sem í grófum dráttum hafa numið um 80% af fyrrnefndum brúttótekjum undanfarin ár:

Hér er skýringin á því, sem hér er um að ræða. Ég hef fengið hér grg. frá Hagstofunni um árin 1969 og 1970, sem er mjög samhljóða því, sem fram kemur í grg. með þessu frv. Hér liggur því hreint fyrir, hvernig það verk er unnið, sem hér er lagt fram. Það er í sjálfu sér eðlilegt, að menn fái út aðrar tölur, ef þeir bæta við þeim 20%, sem eru dregin frá þarna vegna þeirra tekna annarra en af búum, sem bændur hafa. En samanburður þessi er gerður á milli atvinnutekna þeirra af landbúnaði og annarra stétta, viðmiðunarstéttanna, eins og það er lagt til grundvallar, þegar verðákvörðun er tekin. Hér þarf því ekki að vera með neinar dylgjur. Hér tala staðreyndir einar, og þeim verður í engu breytt, þótt hv. 1. þm. Sunnl. komi fram með dylgjur og aðdróttanir, eins og hann gerði í ræðu sinni í dag.

Þá er það annað atriði, sem hv. 1. þm. Sunnl. vék að, og það var, að smáu búin dragi niður í sambandi við verðlagið. Og það hefur mikið verið notað í áróðrinum gegn bændum, að einmitt smábændurnir drægju niður og gerðu verðlagið raunverulega of hátt, eins og þeir halda fram, sem vilja gera það. Eins og kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. áðan, þá hefur það sýnt sig við athugun, að afkoman á smærri búunum er ekki verri, þegar fullkomlega er tekið tillit til fjármagnskostnaðar og annars, sem stóru búunum fylgir.

Þá vék hv. 1. þm. Sunnl. að því, að framleiðsluráðslögin hefðu reynzt vel. Nú vil ég segja það í sambandi við það, sem ég sagði hér í dag, að ég var ekki að sneiða neitt að framleiðsluráðslögunum, þótt ég teldi eðlilegt, að löggjöf, sem að stofni til væri svipuð og hún var fyrir 25 árum, þegar hún var upphaflega sett, þyrfti endurskoðunar við og væri látin njóta þess, sem reynslan hafði sýnt, að betur mætti fara. Hins vegar er ekki því að neita, að bæði hafa komið upp ýmsir ágallar í framkvæmd á löggjöfinni, sem ég vík að síðar, og svo hitt, að hún hefur ekki náð þeim tilgangi, sem ætlazt var til, að bændur hefðu svipaðar tekjur og viðmiðunarstéttirnar, eins og skýrslan í grg, sýnir, og þess vegna er stefnt að því með breytingum á framleiðsluráðslöggjöfinni að reyna að tryggja það betur. Það væri líka mjög fjarri öllu lagi, ef ég færi sérstaklega að sneiða að lögunum um Framleiðsluráð. Þau voru á sínum tíma sett að tilhlutan Framsfl. í samningum við stjórnarmyndun 1947 og leystu af hólmi búnaðarráðslöggjöfina, sem hafði litlar vinsældir hjá bændum og sett var af nýsköpunarstjórninni. Ég tel hins vegar, að það sé ekki hægt að tala um rangar skoðanir, þegar sett er hér fram frv., sem heildarsamtök bændanna í landinu hafa samþ., eftir að athugun á því hefur farið fram. Ég met ekki mínar skoðanir eða hv. 1. þm. Sunnl. lítils, en ég met samt og tel, að í þessu máli sé meira virði að hafa á bak við frv. heildarsamtökin í landinu heldur en skoðanir okkar beggja, þótt þær lægju saman, ef þær væru í andstöðu við það.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að útflutningsbæturnar hefðu dugað yfirleitt. Það er nú svo, að það fer eftir því, hvernig á það er litið. Ef við förum nokkuð í söguna, þá kemur annað upp í því, þó að mörg ár hafi þær dugað, en hins vegar hygg ég, að megi með réttu segja, að þær hafi í raun og veru ekki dugað, a. m. k. ekki náð því að duga alveg síðan 1965.

Við munum eftir því, þegar innvigtunargjaldið var tekið árið 1966. Hvernig var svo málið leyst á endanum? Það var leyst með þeim hætti, að í sambandi við lög um Framleiðnisjóð voru teknar 20 millj. til að bæta þetta upp, til að reyna að ná endum saman. Árin 1968–69 skorti um 120–130 millj. kr. til þess að ná þessu. Þá var þó notaður í sambandi við verðlagið gengishagnaðurinn af gærum, sem var 7 kr. á hvert kg, verðjöfnunargjald af kjötinu var um 5 kr. á hvert kg og á mjólkinni um 18 aurar. Þetta var gert til þess að reyna að draga úr skakkaföllunum, sem af þessari vöntun hefði getað leitt. Ég eins og hv. 6. þm. Austf. tók fram áðan, það, sem vofði yfir, var einmitt sú hætta, að mismunun yrði hjá þeim, sem síðast flyttu út, að þar nægðu útflutningsuppbæturnar ekki og þeir sætu eftir, þótt aðrir hefðu fengið sitt. Við vitum það einnig, að vegna þess að niðurgreiðslur á innanlandsmarkaði hafa verið notaðar í verulegum mæli nú síðustu árin, þá hefur þetta verið léttara í meðförum en að öðrum kosti hefði orðið.

Þá kem ég að því atriði, sem hv. þm. taldi forkastanlegt í alla staði og er það atriði, sem raunverulega hefur valdið deilum, en það er ákvæði 3. gr. um gjald af innfluttum fóðurbæti. í sambandi við það mál er frá mínum bæjardyrum séð ekki um neitt að ræða annað en leið til verðjöfnunar, ef útflutningsbæturnar þrjóta. Það er leið til þess að lenda ekki í þeirri hættu, að upp geti komið það, að einstök framleiðslufyrirtæki og einstakir hlutar njóti ekki útflutningsuppbóta og sitji eftir með skarðan hlut, sárt ennið, þegar aðrir hafi fengið sinn skerf og þar með eytt þeim möguleikum, sem útflutningsuppbæturnar gefa.

Nú skal ég taka það fram, að með þessu frv. skapast nokkru meira rými í sambandi við útflutningsuppbætur, ef hægt er að geyma þær á milli ára og þannig nota 10% heimildina, ef það næst ekki eitt árið, þá sé hægt að bæta þar um síðar. Þetta er nokkur trygging. En ég skal ekkert um það segja, hvort gjaldið á að vera 15%, 20% eða 25%, það er ekki mitt að meta það í þessu tilfelli, en ég lít bara á það þannig, að hér sé um að ræða sama þátt eins og verðjöfnunargjald, sem hefur verið notað. Það er val hjá þeim, sem ráða, hvor þessara leiða verður farin. Það má ekki nota þessa peninga nema í sambandi við útflutningsuppbæturnar. Það á að skila þeim aftur, ef þeirra þarf ekki með. Og það er alveg á valdi bændastéttarinnar sjálfrar, hvernig hún fer með þetta mál. Ég segi það aftur fyrir mitt leyti, að ég met ekki, hversu mikið þetta á að vera, en ég er sannfærður um, að þegar slíkir forustumenn sem hér eru að verki og þekkja svo vel til, telja nokkurs virði að fá þetta ákvæði inn, þá verði að gefa því gaum, og ég er líka sannfærður um það, að hér getur ekki orðið um misnotkun að ræða. Það er alveg eins ástatt með þessa fulltrúa bændastéttarinnar og okkur hv. alþm. Þessir menn ganga undir dóm kjósenda sinna á tveggja ára fresti. Ef þeir brytu þannig af sér, að stéttin treysti þeim ekki lengur, þá fá þeir ekki endurkjör eða traust á nýjan leik.Þess vegna er það aðhald, sem þarna er, það mikið, að ekki er hætta á að um misnotkun geti verið að ræða í þessu tilfelli.

Kvótakerfinu vék ég að í dag. Mér þykir, eins og ég þá sagði, ljóður á því, þó að ég líti svo á, að það sé skaðlaust að því leyti, að ég treysti félagssamtökum bænda til að fara með það mál þannig að meta það á réttan hátt, og það er í raun og veru ekki um annað að ræða þar en að hafa fleiri möguleika, ef út í slíka erfiðleika væri komið. Og að þeirra dómi er hér um stjórntæki að ræða, sem þeir, sem stýra þessum málum og þekkja þar bezt til, telja mikils virði að hafa í höndunum.

Þá langar mig að víkja nokkuð að 5% skattinum og vinnslustöðvunum. Hv. 1. þm. Sunnl. taldi, að það væri nú hinsegin að fara að afla fjár til þess að byggja upp þessar vinnslustöðvar. Í fyrsta lagi væri það svo, að búið væri að vinna þar mikið verk og þyrfti þess vegna ekki að fá sérstaka tekjuöflun til þess að koma því áfram. Hins vegar hélt ég nú, að hv. 1. þm. Sunnl. myndi eftir því, að mikið er ógert í sláturhúsunum enn þá, það er minna í mjólkurbúunum, en þó held ég, að Mjólkurbú Eyfirðinga sé að hefja miklar framkvæmdir til að endurnýja sitt mjólkurbú. Það hefur orðið að framlengja hér ár eftir ár, og síðast nú á þessu þingi, lög um sláturhúsin, vegna þess að þau hafa ekki verið svo búin sem lögin gerðu ráð fyrir.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að þeir, sem færu í þessar framkvæmdir, fengju lán hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins og vextina gætu þeir sett út í verðlagið. Nú er það svo, að þótt þeir fengju lán og kæmu vöxtunum þarna fyrir, þá mundi það ekki nægja, því að auðvitað verður að greiða þennan stofnkostnað niður. Svo hélt ég, að hv. 1. þm. Sunnl. ætti að muna það, að það hefur gengið æðiseint hjá sláturhúsunum að fá lán í Stofnlánadeild landbúnaðarins á undanförnum árum. Þetta hefur breytzt á síðustu árum, m. a. vegna mjög mikillar framgöngu af hálfu Stéttarsambandsins og stjórnar Stéttarsambandsins og Framleiðsluráðsins um að reyna að koma þessum málum í lag. Þeir hafa gert sér grein fyrir því, hvar skórinn kreppti að í þessu, og á s. l. hausti voru hús, sem áður höfðu útflutningsleyfi, svipt því, vegna þess að við eftirlit, sem þá var gert, var það leyfi tekið af þeim.

Ég hef hér tölur um það, hvað hefur verið lánað úr Stofnlánadeildinni á árunum 1967–1971. 1967 voru lánaðar 13.3 millj. kr., 1968 12 millj., 1969 15.6 millj., 1970 21.3 millj., en 1971 34.4 millj. kr. Þá var verulegri upphæð varið til þess að lána í sláturhúsin, miklu meira en áður hefur verið. Ég vil nefna sem dæmi sláturhús, sem ég þekki vel til, það er sláturhús Kaupfélags Borgfirðinga. 1964 var búið að verja til þeirrar byggingar 4.7 millj. kr. Það var ekki búið að fá eina einustu krónu að láni það ár. 1965 var búið að verja 12.3 milli. kr. Þá var lánið orðið 3 millj. 1966 var kostnaðurinn orðinn 21 millj. og lánsupphæðin 7.2 millj. í heild. 1967 var kostnaðurinn orðinn 34.9 millj., og það fékk ekkert lán það ár. Árið eftir var kostnaðurinn orðinn 35.9 millj. Þá fékk það 5.4 millj. kr. lán. Alls hefur verið lánað í þessa framkvæmd, sem kostar 36 millj. kr., 12.6 millj. kr. Auk þess er gengistap á þessum lánum 10.2 millj. kr., svo að kostnaður er alls 46.1 millj. kr. og lánið 12.6 millj. Ég held, að hv. 1. þm. Sunnl. átti sig á því, að nokkurt fjármagn þarf til að brúa þetta bil. Og það er ljóst, að ef á að ná þessu fjármagni aftur, sem auðvitað verður að gera, ef ekki kemur annað til, í gegnum sláturkostnaðinn og láta það fara út í verðlagið, þá mundi það þýða, að sláturkostnaðurinn væri 4–6 kr. á hvert kg kindakjöts. Og það hefur verið, þó að þá sé reiknað með, að heildarvextir og afskriftir séu ekki nema 10%. Þess vegna var það, sem Stéttarsamband bænda leitaði eftir því við þennan hv. þm. sem þáv. landbrh., að lögð yrðu sérstök framlög í sláturhúsin til þess að ekki þyrfti að setja allan þennan kostnað út í verðlagið. Og hv. þm. hafði skilning á því og löngun til þess að reyna að leysa það mál, þó að honum tækist það ekki. En það var alltaf gert ráð fyrir því, að jafnhliða því sem þetta fjármagn kæmi frá ríkinu, þá yrði einnig að koma fjármagn frá Framleiðsluráðinu eða bændasamtökunum á einn eða annan hátt. Og ástæðan til þess, að það er farið að reyna að koma því máli að hér nú, er einmitt sú, að reynt er að leysa þennan þátt. Og ég vona, að hv. 1. þm. Sunnl. átti sig á nauðsyn þess. Ég mun síðar víkja aðeins að þessu atriði í sambandi við ræðu hv. 7. þm. Reykv.

Þá var það í sambandi við 5. gr. og sjómennina. Ég skýrði frá því hér í dag, — en ég veit, að hv. 1. þm. Sunnl. var þá búinn að semja sína ræðu og þess vegna hélt hann sig við það, sem þar stóð, — að með breytingunum, sem voru gerðar á lögunum 1966, voru felldir úr viðmiðunarstéttunum verkamenn og iðnaðarmenn í ákvæðisvinnu svo og sjómenn, sem tóku kaup sitt eftir aflahlut. Í framkvæmdinni hefur það svo orðið, að sjómenn hafa verið felldir niður, enda talið, að það væri þýðingarlaust að hafa þá í þeirri viðmiðun.

Þá gerði hv. 1. þm. Sunnl. aths. við þá skipan á samningsaðilum, sem nú er gert ráð fyrir, og gerði mikið úr því, að vont væri að sleppa út úr þessu kerfi heildarsamtökum verkalýðsfélaganna í landinu. Hv. 1. þm. Sunnl. á þó að muna það, að einmitt í hans ráðherratíð var þetta kerfi brotið niður. Það var brotið niður árið 1964, þegar ekki var hægt að fá fulltrúa stéttarfélaganna til þess að taka þátt í samningagerðinni. Og það var leyst með því, að hv. 1. þm. Sunnl., þáv. landbrh., varð að gefa út brbl. og skipa sérstaka n. til þess að vinna þetta verk. Í þessari n. voru Gunnlaugur Briem ráðuneytisstjóri, Sveinn Tryggvason framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs og Torfi Ásgeirsson. Og það þarf ekki orðum að því að eyða, að fulltrúi Alþýðusambandsins hefur síðan verið skipaður af ríkisvaldinu, en ekki tekið þátt í þessu starfi, enginn fulltrúi hefur verið frá heildarsamtökum Alþýðusambandsins. Og ég verð að segja það, að ég tel eðlilegra að breyta þá um form, ekki sízt þar sem bændasamtökin höfðu óskað eftir því, heldur en að byggja á formi, sem var búið að ganga sér til húðar.

Þá hafði hv. 1. þm. Sunnl. líka athugasemd við það að gera, þar sem segir í greininni, hvernig semja skuli, að það sé hægt að semja um fleiri atriði en verðlagið eitt. Nú er það svo, að fordæmið að þessu er einmitt frá hans ráðherratíð, frá árunum 1964 og 1966. Þá var samið í sambandi við að auka afurðalán á landbúnaði um sérstakt framlag til súgþurrkunar, það var samið um sérstakt framlag í Framleiðnisjóð, það var samið um sérstakt framlag í Jarðakaupasjóð, það var samið um öll þessi atriði, en það var ekki lögum samkvæmt, að þessir aðilar, sem þarna voru, sátu að samningum, ættu um þetta að semja. Ég sé því ekki, að það sé nein hætta fólgin í því, þó að þeir geti við samningsborðið tekið upp fleiri atriði en kjaramálin beint, sem þeir telja sér til hagsbóta.

Þá var hv. 1. þm. Sunnl. alveg hissa á því, ef ætti nú að fara að breyta einhverju í sambandi við niðurgreiðslur eða hugsanlegt væri að koma að öðru formi í sambandi við niðurgreiðslur, og orðaði það á þann veg, að það væri hægt að greiða það niður, þó að engin væri framleiðslan. Nú verð ég að segja það, að um niðurgreiðslur hafa orðið miklar umr., og því er ekki að neita, að menn hafa einmitt rætt um það, hvort aðrar leiðir væru heppilegri, eins og t. d. að greiða niður á framleiðslustiginu og annað því um líkt til þess að draga úr kostnaði við framleiðsluna. Sumir hafa verið með hugmyndir um sérstaka greiðslu á býli eða greiða t. d. á mjólkina á framleiðslustigi, þegar hún kæmi að mjólkurbúi, en ekki á sölustiginu. Nú skal ég ekkert um það segja, hvort þetta reynist betur, þegar farið verður að kryfja það til mergjar. Hér er ekki heldur um neitt annað að ræða en möguleika til þess að geta gripið til þess eða farið inn á þessa leið, ef hún reynist betur að dómi þeirra, sem um fjalla. Þess vegna finnst mér, að það þurfi engin goðgá að vera, þó að menn hafi hugkvæmni til þess að setja það í lögin, að það sé hægt að nota annað form en verið hefur í framkvæmd til þessa til þess að ná sama takmarki.

Niðurstaða hv. 1. þm. Sunnl. var eins og hv. 5. þm. Austf. sagði, hún var mjög neikvæð og flest var það, sem miður fór í þessu frv., sem forustumenn bændasamtakanna höfðu þó ráðið mestu um. Hv. 1. þm. Sunnl. taldi, að frv. væri háskalegt og drægi úr dugnaði og annað því um líkt. Það er nú tízkuorð hjá þeim hv. stjórnarandstæðingum að tala um að draga úr dugnaði, og mér skilst að það sé miðað við það, að ef menn standi saman og hafi félagsleg vinnubrögð, þá hljóti það að draga úr dugnaði, en þá skortir mikið á, að þeir átti sig á félagslegri uppbyggingu, því að á þann hátt nýtast kraftar manna alltaf bezt. En ég sé nú ekki heldur, að það sé stefnt í háska eða dragi úr dugnaði eða framleiðslumöguleikum, þó að samtök bænda og aðrir vinni að því að gera áætlanir um skipulega framleiðslu í landbúnaði, þó að þeir tryggi sig með löggjöf til að ná því marki í kjarasamningum, sem að er stefnt, að betur sé að því staðið heldur en verið hefur í núgildandi lögum. Ég sé ekki heldur, að það sé nein háski fólginn í því, þó að reynt sé að dreifa og jafna kostnaði við dreifingu á framleiðslu og framleiðsluvörum landbúnaðarins og nýta markaði þar betur. Það má vel vera, að þetta sé allt að dómi hv. 1. þm. Sunnl. til þess að draga úr framleiðslugetu og dugnaði, sé háskalegt. En ég er sannfærður um, að að dómi þeirra manna, sem eru félagshyggjumenn, er það ekki og mun sýna sig í framkvæmd, að betur nýtist.

Hv. 1. þm. Sunnl. taldi, að tíðarfarið mundi stjórna framleiðslunni á Íslandi eins og það hefði gert. Það, sem er verið að vinna að, er einmitt að reyna að koma í veg fyrir, að tíðarfarið eitt stjórni framleiðslu á Íslandi. Það er takmark bændastéttarinnar og það er takmark tækniframfara og vísinda, sem unnið er að á sviði landbúnaðarins, að reyna að koma í veg fyrir, að tíðarfarið sé það, sem ræður ferðinni.

Hv. 1. þm. Sunnl. talaði um, að í sinni stjórnartíð hefði ríkt framleiðslustefna, það yrði öðruvísi nú, þegar hans fjarvera kæmi til. En hvernig er það nú? Framleiðslustefna hans er ekki meiri en það, að því er rétt til skila haldið, að við höfum nóga landbúnaðarframleiðslu á þessu ári. Framleiðslustefna hans og uppbygging í landbúnaði var ekki meiri en svo, að einum þrisvar sinnum mun hafa orðið að veita bændum sérstaka aðstoð í sambandi við skuldamál á einum áratug, og framleiðslustefna hans og stefna í landbúnaðarmálum var ekki haldbetri en það, að fast að því 200 bændur voru á barmi gjaldþrots, þegar hann fór úr ráðherrastólnum. Svo getur hv. 1. þm. Sunnl. gert sér það til dundurs að kalla sitt ágæta framleiðslustefnu, en hinna annarra stefnu í öfuga átt.

Hv. 7. þm. Reykv. flutti hér ræðu í dag um þetta frv., og ég verð nú að taka undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e., að ég vissi ekki alveg, hvert hann var að fara í fyrstu, en hann rétti sig þó af. Hann sagði, hv. 7. þm. Reykv., að það, sem skorti í frv., væri stefnumörkun. Hvernig er hægt í löggjöf að segja fyrir alveg, hvernig stefna eigi að vera í atvinnurekstri? Verður það ekki að gerast með þeim hætti, að þeir, sem í atvinnurekstrinum eru, og þeir, sem hafa það hlutverk hjá þjóðfélaginu að gera áætlanir og vinna að stefnumörkun, sitji saman og geri áætlun um þróun í atvinnugreininni í fyrst einn áratug og síðan frá ári til árs? Ég hef ekki skilning á því, að það sé hægt að koma að stefnumörkun með öðrum hætti, og það verður ekki gert með því að setja einhver ákvæði í lög, sem segja, að í þessa átt skuli stefna, en ekki hina. Það verður að sjálfsögðu að meta með þeim vinnubrögðum, sem áætlanir eru gerðar. Það er það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og ég hélt, að hv. 7. þm. Reykv. væri það vanur slíkum vinnubrögðum og kynni það góð skil á þeim, að hann sæi, að þarna væru möguleikar til æskilegrar stefnumörkunar.

Þá fór hv. 7. þm. Reykv. að tala um það, til þess að vera í takt við félaga sína, að hér væri um skyndivinnubrögð að ræða, eins og oft hefur heyrzt og ég skal ekki fara frekar út í, enda hef ég gert því atriði skil fyrr í ræðu minni. Þá taldi hv. 7. þm. Reykv., að það bæri að stefna að því, að framleiðsla á landbúnaðarvörum væri ekki meiri en það, sem innlendi markaðurinn gæti tekið við. Ég held, að það muni reynast erfitt að koma þeim málum svo fyrir, að annaðhvort sé þar ekki of eða van. Ef ekki verður um það að ræða, að það þurfi að selja eitthvað af landbúnaðarvörum umfram innlendan markað, þá hlýtur líka að verða skortur á landbúnaðarvörum. Það er alveg ljóst. Og það, sem er eitt af því, sem er kvöð á framleiðendum landbúnaðarvara, er einmitt að sjá þjóðinni fyrir nægum landbúnaðarvörum. Það hefur verið gert, og það er ætlað að gera það í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það er vegna þessa arna, að landbúnaðarframleiðslan hefur og bændurnir hafa þær skyldur á herðum að sjá þjóðinni fyrir nægum landbúnaðarvörum, að þeir fá aftur á móti þá tryggingu, að ríkisvaldið greiðir mismun á verði á þeim vörum, sem út eru fluttar, allt að 10% framleiðslunnar. Ég verð að segja, að mér finnst þetta ekki nema eðlileg trygging, og það verður með engu móti hægt að tryggja það, að landbúnaðarvörur séu nægilegar hér á markaðnum, ef ekki er einhver slík trygging. Ég vil líka segja það, og ekki sízt er það orðið verulegt atriði nú í okkar aukna iðnaði, að ýmsar landbúnaðarvörur, svo sem gærur og ull, eru mikils virði sem hráefni hjá okkur og eru verulegur þáttur í uppbyggingu ýmissa byggða hérna víðs vegar úti um landið. Það getur verið skortur á og þörf fyrir að fá meira af ull og gærum, þó að ekki sé þörf fyrir kjötið. Mér var að vísu sagt í vor, að hv. 7. þm. Reykv. hefði talað um nauðsyn þess að framleiða ull og gærur án kjöts. Ég sagði, að þetta hlyti að vera einhver misskilningur, en mér var næst að halda í dag, að þarna hefði ég farið villur vegar. En það er alveg ljóst og því vona ég, að hv. 7. þm. Reykv. átti sig á, að við höfum ekki nægjanlegt hráefni í ull og gærum, ef við höfum ekki of mikið af kjöti. Enda er það svo, að kjöt okkar er farið að seljast á erlendum mörkuðum fyrir sæmilegt verð, svo að ekki þarf þar miklu við að bæta.

Þá er það í sambandi við uppbyggingu sláturhúsanna og frystihúsanna. Þar fannst mér hv. 7. þm. Reykv. skella á skeið, svo að víxl yrði talið, því að hann virtist álíta, að hægt væri að byggja upp sláturhús, frystihús eða aðrar vinnslustöðvar, án þess að sú framleiðsla, sem færi fram í þessum stöðvum, yrði að bera það uppi í verðlaginu. Það þarf náttúrlega ekki að segja prófessor í viðskiptafræðum, nýendurhæfðum frá kóngsins Kaupmannahöfn, að það getur aldrei gerzt með öðrum hætti en að þar komi til beinir styrkir, eins og við höfum verið að ræða hér um, til þess að draga úr því, að þetta þurfi að fara í verðlagið. Að öðrum kosti verður að ná uppbyggingunni gegnum verðlagið. Það auðvitað verða frystihúsin að gera eins og aðrir, því að það er ekki hægt að byggja upp með öðrum hætti. Ég þekki það t. d. í sambandi við sláturhúsið í Borgarnesi, að það hefur orðið að taka til afskrifta af því af öðrum rekstri hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, en venjuleg uppbygging í atvinnurekstri miðast við það, að afskriftirnar geti skilað sér aftur í gegnum rekstur þess atvinnutækis, sem þar er á ferðinni. Og ég er sannfærður um það, að þegar hv. 7. þm. Reykv. virðir það mál betur fyrir sér, þá verður hann mér sammála um það, að auðvitað verður þetta að skila sér aftur í gegnum verðlagið, nema því sé mætt á annan hátt, t. d. eins og lagt er til í þessu frv., með aðstoð ríkisvaldsins, til þess á þann hátt að ná niður verðinu á kjötinu, sem að öðrum kosti yrði að koma fram í verðlaginu.

Ég vil svo enda þetta með því, sem mun hafa fallið niður hjá mér hér í dag, að óska eftir því, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari lokinni og hv. landbn.