12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2927)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki fara að lengja þessar umr. með því að endurtaka það, sem ég sagði hér í kvöld, því að ég þekki hv. 1. þm. Sunnl. það í umr., að það er erfitt að fá hann til þess að átta sig á hlutunum, þó að farið sé með þá á þann veg, að honum sé sýnt það, að hann hafi misskilið þá, því að þá er það hans háttur að endurtaka það í næstu ræðu, sem hann sagði á undan. En það er aðeins það atriði, sem ég tel máli skipta, sem ég vildi skýra hér og undirstrika, að ég sagði ekki eitt einasta orð í ræðu minni um það, að það, sem frá Hagstofu Íslands hefði komið, væri ekki rétt. Ég mótmæli því og lýsi því hér með yfir, að ég hef aldrei sagt það, að frá Hagstofu Íslands kæmu ekki réttir hlutir, og geri það ekki heldur hér. Það, sem skorti á í sambandi við það, sem hér er um að ræða, er, að hv. 1. þm. Sunnl. byggir sinn samanburð á misskilningi, eins og ég las upp í grg. þeirri, sem Guðmundur Sigþórsson sendi mér í dag og ég hygg, að hæstv. þm. hafi einnig fengið. Og það er líka alveg fjarri lagi að vera með neinar aðdróttanir í garð þess unga manns. En þar segir Guðmundur Sigþórsson, með leyfi hæstv. forseta, sem ég skal endurtaka, þó að ég læsi það í kvöld, hann segir:

„Með brúttótekjum er átt við tekjur skv. III. kafla framtalsskýrslna án nokkurs frádráttar, vaxtagreiðslna, fyrninga eða fasteignagjalda af útihúsum. Í brúttótekjum eru þannig atvinnutekjur eiginmannsins, konunnar og barna á framfæri framteljanda, hreinar tekjur af atvinnurekstri, tekjur af húsnæði, vaxtatekjur, skattskyld opinber framlög, svo sem fjölskyldubætur o. fl. Ekki er fráleitt að álíta, að aðrir liðir í brúttótekjum en tekjur af atvinnurekstri og atvinnutekjur séu svipaðir hjá bændum og viðmiðunarstéttunum, þar sem einungis er um kvænta karla að ræða í úrtakinu. Í tölum um atvinnutekjur kvæntra karla innan viðmiðunarstéttanna, sem unnar voru af Efnahagsstofnuninni, eru einungis taldar atvinnutekjur mannsins, sem í grófum dráttum hafa numið um 80% af fyrrnefndum brúttótekjum undanfarin ár.“

Það er þessi samanburður, sem hv. 1. þm. Sunnl. skortir að hafa inni í sínum tölum. Og ef hann ber þetta saman við skýrslu frá Hagstofunni, sem ég hef einnig í höndum, — og það hefur ekki áhrif á Hagstofuna, hvort tölurnar eru unnar fyrir eða eftir stjórnarskipti og ekki heldur þessar tölur í Efnahagsstofnunninni, — segir þar, að á árinu 1969 sé munurinn 74.6%, en í skýrslunni hér eru aðeins ekki notaðir um það neinir aukastafir, m. ö. o. segir þar 74.6%, en í skýrslunni er það 74%. Sjá þá allir, hvort hér er ekki um hliðstæðan samanburð að ræða, ef hv. 1. þm. Sunnl. vildi gera svo vel að reyna að átta sig á forsendunum.