12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2932)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er vissulega erfitt að bera fram fsp. til þeirra þm., sem hér hafa verið að ræða í kvöld, og hefði ég þó sannarlega viljað, að fyrrv. hæstv. landbrh. væri hér til staðar. Hæstv. landbrh. er hér, en það er í sambandi við þær fullyrðingar, sem hér hafa komið fram í kvöld í ræðum þeirra, þessara tveggja hv. þm., hæstv. ráðh. og fyrrv. ráðh., og þær deilur, sem orðið hafa á milli þeirra um það, hvort miða ætti við það, sem kemur fram hjá Hagstofunni, eða hvort miða ætti við þær tölur, sem maður, sem ég þekki ekki, en ber engar birgður á, að sé hinn ágætasti vísindamaður og starfsmaður á sínu sviði, Guðmundur Sigþórsson, hefur látið frá sér fara. Sú spurning hlýtur óhjákvæmilega að vakna hjá þeim, sem á undanförnum árum hafa fylgzt með viðmiðunarpólitík milli svokallaðra viðmiðunarstétta: sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna, eins og það úrtak hefur verið, og hins vegar bændastéttarinnar, hvort þarna hafi allt komið fram, sem átt hefur að koma fram. Nú virðist mér, og ég biðst strax afsökunar á því við hæstv. landbrh., ef ég hef misskilið þetta, en mér sýnist, að nú samkv. þeim tölum, sem áðurnefndur Guðmundur Sigþórsson leggur fram hér og hafa upplesnar verið af ræðumönnum hv. stjórnarflokka, sé verið að draga miklu meira fram í tekjum bænda heldur en jafnvel hafi verið gert áður í þeirri viðmiðunarpólitík, sem hér hefur verið rekin á undanförnum árum. Nú skal ég ekki fara þess á leit, enda áliðið nætur, að hæstv. fjmrh. fari að svara þessu nú, og ég bið því ekki um það nú. Auðvitað verða ræður viðkomandi þm. kynntar fyrir aðilum, sem þar eiga hagsmuna að gæta, og auðvitað verður svara krafizt um þetta atriði við 2. umr. málsins. Ég álít, að þetta sé kannske mesta málið í sambandi við þessar umr. Ef það hefur verið farið rangt að og rangt hefur verið fram talið eða tíundað, getum við frekar kallað það, í þessum samanburði á undanförnum árum, þá tel ég sjálfsagt, að núv. hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. leiðrétti það. en það getur að sjálfsögðu kallað á frekari leiðréttingar.