03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2941)

269. mál, vátryggingarstarfsemi

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð til þess að svara þessari fsp. Það liggur náttúrulega í hlutarins eðli, að ef Alþ. setur nýja löggjöf um vátryggingarstarfsemi, þá verða öll vátryggingarfélög, sem fyrir eru í landinu, að aðlaga sig þessari lagasetningu Alþ. Það á auðvitað við um þetta ágæta bátaábyrgðarfélag í Vestmannaeyjum ekkert síður en önnur. En hins vegar hygg ég, að það félag sé bæði það gamalgróið og þrautreynt, að það mundi ekki lenda í neinum vanda í því sambandi.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði áðan í mjög skýrri og skynsamlegri ræðu, að við njótum þess, að hér eru vissulega tryggingarfyrirtæki á Íslandi, sem hafa mikla reynslu og hafa starfað af miklum myndarskap og eru hornsteinar þessarar starfsemi. Þetta vita allir. Þess njótum við. En hitt liggur í hlutarins eðli, að ef við setjum löggjöf, þá verður að tryggja það, að farið sé eftir löggjöfinni.