16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2945)

285. mál, dvalarheimili aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þetta frv. er einvörðungu lagt fram til kynningar, og mun ég því ekki fylgja því úr hlaði með mörgum orðum. Ég fól í fyrrahaust Velferðarnefnd aldraðra að semja frv. til l. um aðstoð ríkisins við byggingu elliheimila, og þetta er árangurinn af störfum þeirrar n. Eins og menn vita, hefur skort nauðsynlega löggjöf um þetta efni, þannig að þessi afar mikilvægu félagslegu verkefni hafa fyrst og fremst lent á sveitarfálögum og svo sérstökum samtökum áhugamanna, sem hafa unnið mjög gott starf á þessu sviði. En það er tvímælalaust alveg nauðsynlegt, að um þetta atriði verði sett löggjöf, þar sem kveðið verði á um samvinnu ríkisins og annarra aðila um stofnun slíkra dvalarheimila aldraðra.

Meginefni frv. felst í 7. gr., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú byggir sveitarfélag dvalarheimili eða hefur rekstur þess samkv. lögum þessum, og skal þá ríkissjóður greiða 1/3 hluta kostnaðar við bygginguna og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar. Ef aðrir aðilar en sveitarfélög byggja eða hefja rekstur dvalarheimilis, er ríkissjóði heimilt að greiða allt að 1/3 hluta kostnaðar við byggingu og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar.“

Þarna er sem sé annars vegar um að ræða skyldu og hins vegar heimild, en í báðum tilvikunum er ætlazt til, að ríkissjóður leggi fram fjármuni til þessa mikilvæga verkefnis. Þarna er einnig skilgreint, hvað átt er við með dvalarheimilum aldraðra, en það eru heimili, sem ætluð eru öldruðu fólki, sem ekki þarfnast vistunar á sjúkrahúsi. Dvalarheimili aldraðra getur jöfnum höndum verið ætlað til dagvistunar sem fullrar vistunar. Íbúðir fyrir aldraða geta verið hluti dvalarheimilis.

Eins og ég sagði áðan, þá er þetta frv. einvörðungu lagt fram til kynningar, til þess að greiða fyrir því, að það geti fengið skjóta afgreiðslu á næsta þingi. Ef ætlunin er að miða næstu fjárl. við einhverjar fjárveitingar í þessu skyni, þá yrði nauðsynlegt, að þetta frv. yrði samþ. snemma á næsta þingi, og ég vil mælast til þess við hv. heilbr.- og félmn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, að hún sendi frv. til umsagnar áður en þessu þingi lýkur, þannig að slíkar umsagnir gætu þá legið fyrir, þegar þing kemur saman í haust.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.