16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

285. mál, dvalarheimili aldraðra

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er hér fram komið. Á síðasta kjörtímabili fluttum við tvívegis frv. hér í d., hv. 1. þm. Austf., hæstv. núv. sjútvrh. og ég, þess efnis, að tekinn yrði upp beinn stuðningur ríkisins við byggingu og við rekstur dvalarheimilis aldraðra. Þau frv. náðu ekki fram að ganga. Nú hefur málið verið tekið upp í nýju formi og borið hér fram sem stjfrv. Ég fagna því, að þetta er þannig á rekspöl komið, því að enginn vafi er á því, að þó að tekizt hafi að leysa mikinn vanda með víðtækum samtökum eða fyrir mikinn dugnað einstaklinga á þéttbýlustu stöðunum, þá eru enn óleyst stór vandamál á þessu sviði, sem varla hefðu orðið leyst í næstu framtíð án þess að til kæmi hreinn stuðningur ríkisvaldsins.