08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka aftur til máls, nema vegna þess að hv. 11. þm. Reykv. vék að mér nokkrum orðum.

En áður en ég kem að því, þá aðeins eitt orð í sambandi við síðustu ummæli síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Norðurl. v. Hann sagði, að við þyrftum ekki að búast við gengislækkun núna næstu daga eða næstu vikur. Það eru miklar upplýsingar og gott að fá þær. Hann sagði líka, að vinstri stjórn væri ekki vön að fella gengið. Hv. þm., þessi sami, sagði í dag, að vinstri stjórnin 1956–1958 hefði ekki haft tíma til þess að sinna þjóðhagsáætlunum og framkvæmdaáætlunum. Hún hafði ekki tíma. Hún hafði heldur ekki tíma til þess að fella gengið, en það var fallið, og það var fyrsta verk næstu ríkisstj. að leiðrétta gengið. Og þó að gengið verði ekki núna fellt á næstu vikum, þá er ekki þar með sagt, að það geti ekki farið svo, að líf þessarar stjórnar verði það skammvinnt, að hún hafi ekki tíma sjálf til þess að fella gengið, vegna þess að það verði komin önnur ríkisstj. til þess að leiðrétta það.

Ég sagði, að ég hefði ekki ætlað að taka til máls, nema af því að 11. þm. Reykv. vék að mér nokkrum orðum. Mér fannst ekki ástæða til þess að taka til máls út af þeim svörum, sem hæstv. forsrh. gaf við fsp. mínum hér áðan. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Þau voru skýr og greinargóð. Ég skal ekki fara að rekja hér efni þeirra. Sérstaklega þótti mér gott, að hann skyldi segja nei við einni spurningu, sem ég spurði. Það var varðandi 3. mgr. 12. gr. frv., en hún er svo orðuð, að mér þótti ástæða til þess að spyrja, hvort ætlunin væri, að Framkvæmdastofnunin gæti sagt sjóðum og bönkum fyrir um einstakar lánveitingar án tillits til ákvæða þeirra laga, sem um þessa sjóði og banka fjalla. Hæstv. forsrh. svaraði þessari spurningu neitandi. Ég er mjög ánægður með það svar, og það verður tekið eftir því, ef það svar stenzt ekki tíma reynslunnar.

Er þá aðeins að víkja nokkrum orðum að hv. 11. þm. Reykv., og hann var tilefni þess, eins og ég hef sagt áður, að ég stóð upp. Hann sagði, að ég hefði sagt, að það væri skoðun hans, að aðalatriðið væri, að pólitíkusar önnuðust framkvæmd eða gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlana. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur hjá hv. þm. Ég sagði þetta ekki, og ég verð að játa það, að ég ætla ekki þessum hv. þm. að vera svo grunnhygginn, að hann hafi sagt þetta. Það hefði ekki komið mér til hugar. En ég vék nokkrum orðum að ummælum hans og tilvitnunum í fyrrv. fjmrh., Magnús Jónsson, og Ólaf Björnsson prófessor. Hann vitnaði í ummæli þessara manna til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni eða skoðun, að það væri ekki allt fullkomið og hefði ekki verið á undanförnum árum og misserum, sem viðkemur þjóðhags- og framkvæmdaáætlunum. Ég sagði, að ég væri sammála þessu. Það hefur aldrei hvarflað að mér, að það gæti verið svo, að allt væri fullkomið í þessum efnum og það þyrfti ekkert um að bæta. En það, sem okkur greindi á um, var, að ég sagði, að það, sem hefði verið gert í þessum efnum, hefði tekizt harla vel. En þetta mál er þess eðlis, að óhjákvæmilega hlýtur að taka nokkurn tíma, að málin þróist eðlilega.

Hv. þm. sagði og býsnaðist mikið yfir því, að þó að þessir mætu menn, Magnús Jónsson og Ólafur Björnsson, teldu ýmislegt athugavert við ástandið í þessum efnum, þá, eins og hann orðaði það, vildu þeir samt lappa upp á kerfið eftir 8 ár. Ummælin, sem vitnað var í, voru önnur sögð árið 1969, og hin, að ég hygg, 1967. Hvaðan hefur hann 8 ár, þegar þetta kerfi er sett upp 1966? Svona er málflutningur þessara manna.

Þessi hv. þm. sagði: „Framkvæmdastofnuninni er ætlað að hrinda í framkvæmd stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum.“ Þetta held ég, að sé alveg rétt. En hvers vegna þarf að setja lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, til þess að ríkisstj. geti gert þetta? Hvers vegna notar hún ekki það kerfi, sem fyrir er? Hún getur notað það, ef það er rétt, sem látið er í skína af hálfu hæstv. forsrh., að þetta sé tiltölulega meinlaust frv. og það feli ekki í sér þjóðnýtingu, ekki stórlega aukin opinber afskipti. En þessi skoðun kemur ekki að öllu leyti heim við skoðanir hv. 4. þm. Norðurl. v., og því hefur verið lýst hér af öðrum, og ég skal ekki endurtaka það. En einmitt þetta, að það sé nauðsynlegt að setja þessi lög, fá þetta frv. samþ., vegna þess að kerfið, sem núna er, dugi ekki, er bezta viðurkenning á því, að það er rétt, sem við höfum haldið fram um það, að það sé varasamt að samþykkja frv. Það er raunar óhæft til þess, að það verði samþ., vegna þess að það felur í sér stórkostlega stefnubreytingu, sem er fráhvarf frá þeirri stefnu frjálsræðis og framtaks, sem viðreisnarstjórnin fylgdi með svo góðum árangri, að hagsæld og velferð þjóðarinnar hefur aldrei verið meiri en siðasta áratug. Það er fráhvarf frá þessari stefnu til stefnu opinberra afskipta og hafta, sem við þekkjum allt of vel.