29.11.1971
Efri deild: 19. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

50. mál, almannatryggingar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég skal þegar í upphafi máls míns taka það fram, að þegar ég og hv. 3. þm. Reykn. skrifum undir nál. með fyrirvara, þá felst ekki í því, að við séum ekki samþykk efni sjálfs frv., sem hér liggur fyrir. Því veldur annað, sem ég skal síðar koma að. Ég vil bæta því við, að við munum sem sé styðja frv., og ég vil bæta því við, að við teljum, að af öllum þeim útgjöldum, sem hæstv. ríkisstj. hefur stofnað til eða gefið fyrirheit um síðan hún settist að völdum, séu útgjöld vegna þeirra brbl., sem hér eru lögð fram til staðfestingar, hvað réttmætust.

Þegar almannatryggingalögin voru til umræðu hér á hv. Alþ. í fyrra, fluttu þáv. stjórnarandstæðingar till. m. a. um það, að lögin kæmu til framkvæmda þegar á þessu ári og meira að segja þegar í stað. En lögin voru samþ. 6. apríl s. l. Var áætlað, að lögin mundu auka útgjöld trygginganna um 500 millj. kr. á ári, og hefði verið miðað við, að þau kæmu nú til framkvæmda 1. maí s. l. vor, þá hefði verið um 2/3 hluta ársins að ræða, og ef miðað er við 500 millj. kr. útgjaldaaukningu, hefði þarna komið til um 340 millj. kr. Í fjárl. yfirstandandi árs hafði ekki verið áætlað fyrir slíkum útgjöldum og sveitarfélögin, sem áttu að bera sinn hluta af hækkuninni og eiga samkv. lögum, voru að sjálfsögðu búin að afgreiða sínar fjárhagsáætlanir fyrir áramót, en í till. hv. stjórnarandstæðinga um gildistöku var ekkert að því vikið, hvernig ætti að leysa þann vanda, hvort sveitarfélögin áttu þá að taka upp sínar fjárhagsáætlanir til endurskoðunar í ljósi þess, að lögin hefðu komið til framkvæmda svo snemma á árinu.

Þegar lögin voru samþ. snemma í apríl, var ekkert hægt með vissu að segja fyrir um afkomu ríkissjóðs, þegar kæmi fram á árið. Okkur þótti mörgum satt að segja dálítið broslegt að heyra þáv. stjórnarandstæðinga, sem mjög báru sér orðið hrollvekju þá í munn og töldu, að það væru vá og ósköp fram undan, heyra þá leggja til, að þarna kæmu þegar til framkvæmda lög, sem mundu þýða mörg hundruð millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð. Það var auðvitað ekki borið við frekar en þeirra var vani, þegar þeir voru hér með sínar yfirboðstillögur, að henda á neina leið til fjáröflunar til þess að mæta útgjöldunum. Þar voru þeir varðandi þessi lög trúir sinni stefnu. Þeir hafa e. t. v. treyst þá á góða fjármálastjórn fyrrv. ríkisstj. og blómlegan hag ríkissjóðs þar af leiðandi. En það er kannske ekki að furða, þó að þá hafi ekki verið bent á leiðir til þess að mæta þessum útgjöldum. Hitt er miklu alvarlegra, að nú bólar ekki heldur á þessu eða það er vart hægt að segja, að á því bóli. Og þá á ég ekki eingöngu við þær hækkanir, sem leiðir af brbl., heldur ótalmargt annað, sem hlýtur að koma til útgjalda á næsta ári. Það er nú komið að mánaðamótum nóvember og desember. Maður hefði búizt við og það hlýtur líka að líða að því, að fjárlög verði tekin til 2. umr., en enn þá vita menn ekki hvaða tekjuleiðir hæstv. ríkisstj. hugsar sér að fara: Við höfum að vísu heyrt það sagt, ég held, að ég muni það rétt, að ég hafi m. a. lesið það í viðtali við hæstv. félmrh. í málgagni hans flokks, að það muni þurfa að gera ráðstafanir, sem verði ekki sársaukalausar, og talað hefur verið um skattahækkanir og það ofan í eitthvert hið mesta góðæri, sem íslenzka þjóðin hefur þekkt bæði í tíðarfari aflabrögðum og í verði á okkar framleiðslu. Ég veit ekki, hvort ekki er rétt þó að benda á tvennt, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert. Hún hefur hækkað verð á áfengi og tóbaki, og það var nú satt að segja heldur broslegur rökstuðningur, sem látinn var fylgja þeirri hækkun. Það var talað um, að áfengi hefði hækkað í innkaupi. Nú vita allir það, að innkaupsverð áfengis er ekki nema smábrot af útsöluverðinu, og þó að einhver hækkun yrði á innkaupsverði, ætti að hafa langtum minni hækkun á útsöluverði þar á móti. Ég held, að þeir hafi áætlað, að þetta aflaði ríkissjóði tekna um 190 millj. kr. á ársgrundvelli. Hins vegar kostar hækkunin líklega margfalt meira í vísitölugreiðslum á kaup, bæði fyrir ríkið og eins fyrir atvinnuvegina. Svo hefur hér verið keyrt í gegn með miklum hraða frv. um spariskírteinasölu. Ég hefði sagt, að það sé ekki vegna framkvæmda, sem mun verða tekin ákvörðun um á næsta ári, en ég held nú satt að segja, að það detti fáum í hug annað en það fé eigi að nota um leið og það kemst í kassann.

Ég endurtek það, herra forseti, að við, sem skrifum undir nál. með fyrirvara, erum fyllilega samþykk þessu frv. Ég vildi aðeins og við með fyrirvara vekja athygli á því, að það er ekki nóg að flytja góð mál, heldur verður að vera séð fyrir endann á því, hvernig á að komast frá því að standa undir þeim fjárhagslega.