16.05.1972
Efri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2978)

278. mál, Fósturskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Frv., sem er lagt fyrir, er verk n., sem skipuð var 29. júní 1971. Í hana voru skipuð Sigurður Helgason fulltrúi, formaður, Kristján J. Gunnarsson skólastjóri, Valborg Sigurðardóttir skólastjóri, og síðan var 5. okt. 1971 bætt í n. þeim Ásgeiri Guðmundssyni skólastjóra og Svandísi Skúladóttur fóstru. Þessi n. hefur samið þetta frv. Erindisbréf n. var að gera till. um framtíð Fóstruskólans og tengsl hans við hið almenna fræðslukerfi. Meginstefnan í frv. er fólgin í tveim stuttum setningum í 1. gr.: „Fósturskóli Íslands er ríkisskóli með aðsetri í Reykjavík,“ segir þar, og enn fremur: „Skólinn er jafnt fyrir karla sem konur.“ Fóstruskóli hefur starfað á vegum Barnavinafélagsins Sumargjafar síðan árið 1946 og er því allmikil reynsla komin af slíku skólastarfi. En það hefur sýnt sig á síðari árum, að þörfin fyrir fólk menntað í þeim greinum uppeldisfræða, sem fósturskóli fjallar um, vex stöðugt og mjög ört, og það er ekki eðlilegt né blátt áfram mögulegt, að Sumargjöf geti, þótt félagið njóti stuðnings frá ríki og borg, axlað þær byrðar, sem í því eru fólgnar að efla þessa menntun eins og þörf krefur.

Menntun í skóla sem þessum hefur verið við það miðuð, að þar sé menntað starfsfólk, sem fjallað geti um uppeldi barna allt frá fæðingu til 7 ára aldurs, og er ekki gert ráð fyrir, að nein breyting verði þar á, þó að skólanum verði fenginn nýr starfsgrundvöllur. Sömuleiðis er ráð fyrir því gert, að skólinn veiti bæði fræðilega þekkingu og starfsþjálfun, en jafnframt er gert ráð fyrir nýju starfssviði, nýjum starfsvettvangi fyrir skólann, sem sé endurmenntun og viðbótarmenntun starfsliðs, sem fengið hefur menntun í skólanum fyrir allnokkrum árum og vill bæta við sig frekari þekkingu eða laga þekkingu sína að breyttu þekkingarstigi

Þá er ráð fyrir því gert, að sérstaklega sé hugað að tengslum Fósturskólans við Kennaraháskóla, og verður það að teljast mjög eðlilegt. Þetta er hvor tveggja skóli, sem fjallar um menntun uppeldismenntaðs fólks og kennaraliðs, þó að hvor helgi sér sitt aldursstig.

Í 10. gr. frv. er kveðið á um inntökuskilyrði í skólann, og stefnan í þeim ákvæðum er að leitast við að tryggja, að sem bezta undirbúningsmenntun eigi sér stað hjá umsækjendum, en jafnframt, að fólk, sem hefur af einhverjum ástæðum farið á mis við formlega undirbúningsmenntun, sé ekki útilokað, ef það að öðru leyti fullnægir þeim kröfum, sem skólin telur sig þurfa að gera.

Þá er í 14. gr. frv. ákvæði, heimildarákvæði, um að stofna skuli eða starfrækja í tengslum við Fósturskólann og undir yfirstjórn hans æfinga- og tilraunastofnun fyrir börn fram til 7 ára aldurs, þar sem nemendum Fósturskólans sé búin sérstök aðstaða til athugana á atferli og leik barna og á uppeldislegum starfsháttum.

Ég vil að lokum víkja örlítið að nafni þeirrar skólastofnunar, sem hér er um að ræða. Fóstruskóli Sumargjafar hefur starfað um nokkra áratugi. Hann er kallaður Fóstruskóli, vegna þess að gert er ráð fyrir því, að það séu aðeins konur, sem sæki þar nám, enda var ekki annað þekkt í þá tíð, þegar skólinn tók til starfa, en að það væru konur, sem helguðu sig þessu starfi. Nú þykir einsýnt í n. þeirri, sem undirbjó þetta frv., að ekki komi annað til greina en að heimila bæði körlum og konum aðgang að skólanum hér eftir, og var þá í n. ákveðið að breyta nafni hans í Fóstrunarskóli. Í meðförum í menntmrn. þótti mönnum það bæði stirt og í rauninni óþarft. Það sem þarna er kallað fóstrun hefur á íslenzku máli hingað til heitið fóstur, börn eru tekin í fóstur, og hefur svo heitið allt frá því fyrst eru til ritaðar heimildir um íslenzkt mál. Að veita annarra börnum á yngstu árum umönnun er að veita þeim fóstur, en ekki fóstrun, og þarflaust að mínu áliti að búa þarna til nýyrði aðeins til þess að afstýra því, að nafn skólans yrði e. t. v. haft í flimtingum hjá gárungum, vegna þess að fóstur hefur tvær merkingar, bæði að fóstra börn og sömuleiðis barnið á því lífsstigi, þegar það dvelur einn í móðurkviði. Slík viðkvæmni er að mínu viti algjörlega óþörf.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. menntmn.