08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætla mér að blanda mér mikið inn í þessar umr., enda haf þær staðið nokkuð lengi og margt verið sagt í samband við það frv., sem hér er til umr. Ég sé þó ástæðu til þess að gefnu tilefni, ýmsum tilefnum, sem hér hafa komi fram í þessum umr., að ræða málið lítillega a.m.k.

Það er engum vafa undirorpið, að ef þetta frv., sem hér er til umr., verður að lögum, þá er um gerbyltingu að ræða í sambandi við fjárfestingarmálin í landinu og skipun þeirra. Hér er verið að taka vald úr höndum ýmissa stofnana, sem hafa starfað og haft með höndum fjárfestingarmálin í landinu á undanförnum árum, og færa það í hendur lítils hóps, pólitísks hóps. Og við skulum bara gera okkur grein fyrir því, hvað hér verður um mikla breytingu og byltingu að ræða í þessum efnum og hvert er stefnt í sambandi t.d. við stjórn og ráðstöfun á fé Byggðasjóðs. Þegar Atvinnujöfnunar sjóður var stofnaður, var hlutverk hans fyrst og fremst að byggja upp atvinnulífið í hinum dreifðu byggðum og stjórn þessa sjóðs var þannig skipuð, að það voru jafnan í henni þeir menn, sem þekktu vel til þessara mála úti á landsbyggðinni. Og eftir að Lögin í sambandi við álverið í Straumsvík voru samþykkt, jukust mjög þeir fjármunir, sem eiga að fara í gegnum þessa stofnun. Og það segir sig sjálft, að þar sem um slíkt fjármagn er að ræða, sem ætlað er að verða til uppbyggingar í dreifbýlinu, þá skiptir það ekki litlu máli, að það séu þeir menn fyrst og fremst, sem gera tillögur um ráðstöfun á því fé, sem þekkja til úti í dreifbýlinu. En það er sýnt, að ef þetta frv. verður að lögum og stjórnin verður sett í hendur þriggja pólitískra starfsmanna, þá verður allt annar háttur hafður á í þessum efnum en verið hefur.

Í 4. gr. frv. er kveðið skýrt á um það, að ríkisstj. skipar þriggja manna framkvæmdaráð, er annast daglega stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Verkefni framkvæmdaráðsins er m.a. í fyrsta lagi að láta gera áætlanir á vegum stofnunarinnar og leggja þær fyrir stjórn hennar. Í öðru lagi að gera tillögur til stjórnarinnar um rekstraráætlanir og starfsáætlanir fyrir stofnunina. Í þriðja lagi að gera tillögur um árlegar heildaráætlanir fyrir Framkvæmdasjóð og Byggðasjóð, svo og um einstaka lánveitingar úr þeim. Í fjórða lagi að ráða að stofnuninni starfsfólk innan ramma fjárhagsáætlunar, sbr. þó 3. gr., 1. tölul.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, sem fram kemur í 3. tölul. 5. gr., þar sem þessari framkvæmdastjórn þessara þriggja manna er gefið það í hendurnar að gera tillögur um allar einstakar lánveitingar, sem Byggðasjóður t.d. hefur með að gera. Það sjá allir, að það liggur í augum uppi, að hér er verið að færa valdið frá hinum dreifðu byggðum, sem Byggðasjóóur á fyrst og fremst að vera til uppbyggingar fyrir, í hendur þessara þriggja pólitísku starfsmanna. Ég þekki það, af því að ég hef dálitið fylgzt með störfum atvinnujöfnunarsjóðsnefndarinnar, að á undanförnum árum hefur verið allgott samstarf milli þessara manna, sem þá stjórn hafa skipað, og það er fyrst og fremst vegna þess, að þeir hafa haldið þar á málunum, sem hafa þekkingu á málefnum fólksins. En hvernig er hægt að ætlast til þess, að slík stjórn sem hér er gert ráð fyrir, að verði sett á laggirnar, hafi sambærilega þekkingu á högum fólksins í strjálbýlinu og núv. og fyrrv. stjórnir Atvinnujöfnunarsjóðsins hafa haft?

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að enda þótt þessi sjóður hefði aðeins 5–10 millj. yfir að ráða til útdeilingar á fyrstu árunum, þá var þetta talið geysilega þýðingarmikið. Eftir því sem árin hafa liðið, hefur það fjármagn, sem gegnum þennan sjóð hefur farið, alltaf aukizt, en í sambandi við lögin um álverið í Straumsvík koma fyrst verulega auknar tekjur til ráðstöfunar í þennan sjóð, og einmitt þegar komið er að því, að þessi sjóður verður virkilega öflugur, — því að það líða ekki mörg ár, þangað til hann kemur til með að nema hundruðum millj., ef lögum hans verður ekki breytt, þá er farið að breyta til í þessum efnum og tekin stjórnin af þeim, sem hafa ráðið þessu og hafa þekkt vel til í g strjálbýlinu, og færð yfir í hendur þriggja manna pólitískrar stjórnar, sem á að gera allar tillögur til stjórnar Framkvæmdastofnunar. Þangað eiga menn fyrst og , fremst að snúa sér, til þessara þriggja manna, og það á að vera undir því komið, hvaða tillögur þeir gera til a stjórnarinnar, hvaða náð hinar einstöku lánbeiðnir í finna fyrir augum þessara manna, hvort þeir geta vænzt góðrar lausnar í sambandi við beiðnir sínar. Ég tel, að — það sé kannske þetta, sem skipti mestu máli og raski frá þeirri heillastefnu, sem haldið hefur verið í þessum í málum á undanfarandi árum í sambandi við Atvinnujöfnunarsjóð, þ.e. sú skipun, sem nú á að vera á þessum málum hér. Og enda þótt það eigi að skipa sjö manna stjórn, sem síðan á að afgreiða endanlega þessi lán, þá skiptir það vitanlega litlu máli. Aðalatriðið er sú málsmeðferð, sem umsóknirnar fá þegar í upphafi hjá þessari þriggja manna stjórn.

Það hefur margt blandazt inn í þær umr., sem hér hafa átt sér stað varðandi þá stefnu, sem hér er verið að taka upp í fjárfestingarmálunum. Og þeir stjórnarliðar, sem hér hafa talað, hafa gefið yfirlýsingar um eitt og annað, t.d. að gengisfellingar eigi ekki að eiga sér stað, eins og áður hefur átt sér stað. Þessi stjórn er nú ekki búin að sitja við völd nema 5 mánuði, svo að það er nú varla við því að búast, að hún hafi gert ráðstafanir til þess að fella gengið, þegar líka er tekið tillit til þess, hvernig ástandið var í efnahagsmálum þjóðarinnar, þegar hún tók við. Það var nú eitthvað annað, ástandið í fjárhagsmálum þjóðarinnar, þegar þessi stjórn tók við, eða þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum 1959, þegar þjóðin var komin fram á hengiflug gjaldþrots og ekkert blasti við annað en fjárhagslegt öngþveiti fyrir þjóðina. Nú var hins vegar þannig ástatt, þegar núv. stjórnarflokkar tóku við, að þeir gátu byrjað á því strax daginn eftir að veita stórar fjárupphæðir úr ríkissjóði, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs. Og ætli það sé nokkur furða, þótt þessir menn geti lýst yfir því hér úr ræðustóli, að ástandið sé þannig, að ekki þurfi að búast við því, að gengið verði fellt núna fyrir jólin. Menn muna frá árunum 1956–1958, þegar vinstri stjórnin var við völd, að það var ekki einungis, að menn fengju jólagjafir. Þessar svo kölluðu gjafir frá þeirri stjórn voru allar á þann veg, að það var verið að leggja auknar og nýjar byrðar á þjóðina. Þær áttu sér stað bæði vor og haust þennan stutta tíma, sem sú stjórn sat hér að völdum. En núna, þegar við gerum okkur grein fyrir því, að ástandið í gjaldeyrismálunum hefur aldrei verið betra en það er einmitt, þegar þessi stjórn tekur við, og ástandið í efnahagslífi þjóðarinnar er þannig yfirleitt, þá þykir þeim einhver furða að geta lýst því yfir, að þeir ætli ekki á morgun að fella gengið. Það er svo sem nokkuð til að hæla sér af, að þeir skuli vera með slíkar yfirlýsingar í sambandi við þessar umr.

Það væri betur, að þessir forsvarsmenn ríkisstj. héldu þannig á málefnum þjóðarinnar, að þeir gætu haldið áfram að gefa slíkar yfirlýsingar varðandi efnahagsmál hennar, að það þyrfti ekki að koma til þess, að gengið yrði fellt til þess að sjá atvinnulífi þjóðarinnar farborða. Því miður er það nú svo með íslenzkt atvinnulíf, að það er háð þeim sveiflum, að það geta hvenær sem er skollið yfir þær öldur í sambandi við verðlagsmál sjávarútvegsins, að grípa verði til ýmissa ráðstafana, sem við kannske sjáum ekki fram á, að þurfi að gera í dag eða á næstu vikum. Við þekkjum það af reynslunni frá fyrri árum, að það þurftu ekki að líða mörg ár stundum frá því að allt var bjart fram undan og þar til syrti í álinn og varð að gera óhjákvæmilegar ráðstafanir, ráðstafanir, sem víssulega skertu hagsmuni almennings. Við skulum vona, að þeir tímar séu ekki fram undan. En við munum enn eftir árunum 1956 og 1957, það er ekki svo langt síðan. Við munum eftir árunum 1966 og 1967. Við munum eftir góðærinu 1965, þegar allt var í toppi. Það kom oft fram í umr., þegar verið var að samþykkja hér á hv. Alþ. að koma á verðjöfnunarsjóðnum fyrir afurðirnar, að við hefðum ekki gert rétt á árunum 1964 og 1965, þegar allt var í toppi, að leggja ekki eitthvað til hliðar til þess að geta brúað bilið yfir lægðina, þegar verðhrunið kom og aflabresturinn átti sér stað hjá atvinnuvegunum.

Nú virðist ekki vera lagt mikið upp úr því að halda því kerfi við, en við skulum gera okkur grein fyrir því, að á meðan svo er og ekki er sýnilegt annað en það verði um langan tíma enn, að við verðum fyrst og fremst að byggja á afkomu sjávarútvegsins, þá geta slíkar sveiflur endurtekið sig, bæði í aflamagni og einnig hvað verðlagsmálin snertir, sem áttu sér stað á árinu 1967. Og það var einmitt eftirtektarvert á þeim árum, að saman skyldi fara hinn alvarlegi aflabrestur og verðfall afurðanna. Það er annars oft svo, að þegar aflabrestur á sér stað og minnkandi framboð verður á einhverri vöru, þá er auðveldara að fá verðið hækkað. En þessu var ekki þannig háttað 1966 og 1967. Þá fór saman minnkandi afli hjá sjávarútveginum og lækkandi verðlag á hinum erlenda markaði, sem við þurftum að sækja til og selja okkar afurðir á.

Það er vissulega ekki nóg að samþykkja lög um Framkvæmdastofnun ríkisins og setja upp stofnun til þess að deila einum og öðrum út af náð einhverra einstakra manna, sem kjörnir verða af ríkisstj. til þess að veita slíkri stofnun forstöðu. Það er ekki nóg að skapa þann ramma. Það er ábyggilega þýðingarmeira að tryggja samstöðu íslenzku þjóðarinnar um að efla þann atvinnuveg, sem við eigum mest undir, og uppbyggingu þjóðarinnar út um hinar dreifðu byggðir, til þess að fólkið haldist þar við og nýti þá hagsmuni, sem eru við strendur landsins. En það er enginn vafi á því, að með þessu frv. er stigið spor til baka í sambandi við það að byggja upp atvinnuvegi úti um hinar dreifðu byggðir. Það er ekki ætlazt til þess með þessari þriggja manna nefndar- eða forstjóraskipun, sem áformuð er, að þar geti verið um að ræða þá þekkingu, sem til þarf og sem stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs hefur haft til þess að sinna starfi sínu í sambandi við þær lánveitingar, sem Atvinnujöfnunarsjóður hefur annazt með því fjármagni, sem hann hefur haft til ráðstöfunar á undanförnum árum. Við vitum það vel, sem fylgzt höfum með atvinnulífinu í landinu, að enda þótt þeir fjármunir, sem þessi Byggðasjóður eða Atvinnujöfnunarsjóður hefur haft með höndum á undanförnum árum, hafi verið takmarkaðir, þá hefur með þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð hafa verið í þessum efnum, verið hægt að hjálpa ótrúlega mikið til að byggja upp atvinnulíf víða í hinum ýmsu byggðarlögum. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að hér er spor stigið til baka í þessum efnum frá því, sem verið hefur.

Það er sjálfsagt ýmislegt fleira, sem ástæða væri til þess að segja, en margt hefur komið hér fram, sem ég sé ekki ástæðu til áð endurtaka hér að þessu sinni. En í sambandi við þessar yfirlýsingar, sem hér hafa verið gefnar um það, að ekki vofi yfir gengisfall á næstu vikum, og eins út af öðrum yfirlýsingum varðandi starfsemi þessarar Framkvæmdastofnunar, þá fannst mér ástæða til þess að segja skoðun mína á þeim þætti þeirra mála, sem veit að hinum dreifðu byggðum í þessu landi, sem eru fyrst og fremst störf Byggðasjóðs, eða Atvinnujöfnunarsjóðs sem verið hefur, en sem nú á að skírast upp og kallast þessu nafni.