16.05.1972
Efri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2980)

278. mál, Fósturskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Reykv. get ég fullvissað hann um, að ég mun gera það, sem á mínu valdi stendur, til að auðvelda, að það mál, sem hér er lagt fyrir Alþ., geti sem fyrst orðið að veruleika. Ég tek undir það, að vissulega munu allir, sem málinu eru kunnugir, óska þess, að skipulagsbreyting geti orðið fyrir næsta vetur. En þar sem hv. þm. gat þess og átaldi, að frv. væri seint fram borið, langar mig aðeins til að vekja athygli hv. d. á því, að þm. hefur áður haft tækifæri til að þoka þessu máli áfram, til að mynda þegar það var flutt á þingi 1964 sem frv. um ríkisrekinn fóstruskóla. Sama frv. var flutt enn að nýju 1966 og sömuleiðis var málið tekið upp 1971, en dagaði ævinlega uppi. (Gripið fram í.) Hv. þm. hefur haft áhrifastöðu í flokki sínum miklu lengur en hann hefur setið á þingi.