13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

279. mál, dagvistunarheimili

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína yfir, að þetta frv. er komið hér inn í þingið. Ég hafði fyrr á þessu þingi flutt frv. ásamt nokkrum öðrum hv. alþm. um dagheimili eða styrk hins opinbera til byggingar dagheimila. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er víðtækara, og það er gott út af fyrir sig. Umfram það, sem var í hinu frv., tekur það sérstaklega til rekstrarins einnig. Mér sýnist varðandi sjálfan stofnkostnaðinn og þá aðila, sem geta orðið aðnjótandi að styrk hins opinbera til byggingar dagheimilanna, að því sé hagað nokkuð á sama hátt og var í hinu frv. Það er gert ráð fyrir 50%, sem er í samræmi við það, sem ríkissjóður greiðir í stofnkostnað við skólabyggingar, og það, hverjir geti verið aðnjótandi hvers styrks, fer eftir því, sem kemur hér fram í frv., að það þarf aðeins meðmæli frá viðkomandi sveitarfélagi til þess að aðrir aðilar, t, d. áhugafélög, sem algengt er að hafi komið á stofn barnaheimilum, geti fengið tilsvarandi styrk og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það eina, sem mér finnst vera hægt að finna að í þessu sambandi er það, að frv. skuli ekki koma fyrr fram en raun ber vitni, því að sýnilegt er, að enginn tími vinnst til þess að koma því í gegnum þingið að þessu sinni, og verður það því að bíða endanlegrar afgreiðslu til næsta þings.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja. Ég get tekið undir það, sem hæstv. ráðh. sagði varðandi það, hvað er orðið brýnt og aðkallandi að efla þessa starfsemi í landinu. Það hefur farið sífellt meira og meira í vöxt, að slík dagvistarheimili hafi verið starfrækt víðs vegar um landið, og er sjálfsagt hægt að rekja til fleiri en einnar ástæðu.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar að þessu sinni um frv., en ég fagna því, að það hefur komið fram, og enn fremur fagna ég því, að það er enn þá víðtækara en hitt frv., þar sem það kveður sérstaklega á um þátttöku ríkisins í rekstrinum. Allt til þessa hefur það verið þannig, að árlega hafa verið veittar á fjárl. vissar upphæðir sem rekstrarstyrkir til dagheimilanna, en síðan hefur verið af viðkomandi rn. ákveðið, hve mikinn þátt í rekstrinum skyldi taka eða á hvern hátt í rekstri dagheimilanna. Hér er gengið út frá því, að dagheimili, sem starfa vissan tíma, geti fengið styrk, allt að 30% til dagheimila og skóladagheimila, en til leikskóla allt að 20%. Hvort þetta er alveg réttur hundraðshluti, um það skal ég ekkert segja á þessu stigi málsins, en það vinnst þá betri tími til að athuga það nánar, vegna þess að sýnilegt er, að frv. verður ekki afgr. frá Alþ. fyrr en á komandi hausti.