11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

71. mál, innlent lán

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Minni manna er nú misjafnlega trútt, og því skyldu menn alltaf varlega treysta, en ég verð nú að segja það, að ég man ekki betur en sá háttur, sem hér er viðhafður, hafi verið áður á hafður. Og ég skal að vísu ekki alveg fortaka, að það hafi stundum heyrzt raddir frá stjórnarandstæðingum í þá átt, að það hefði verið skynsamlegra að hafa önnur vinnubrögð í því sambandi. En ég held, að ég muni það áreiðanlega rétt, að það hafi verið æ ofan í æ farið fram á slíkar heimildir sem þessar, án þess að framkvæmdaáætlun hafi fylgt með. Og það er kannske út af fyrir sig eðlilegt, að menn þurfi að sjá fyrst, hvernig gengur með þessa fjáröflun, áður en farið er að ráðstafa henni til ákveðinna framkvæmda. En ég held, að það geti nú ekki vafizt fyrir neinum hv. þm., að þarfirnar eru æðimargar og það eru mörg verkefni, sem þarf að fjármagna á næstunni. Hæstv. fjmrh. nefndi nokkur dæmi eins og samgöngumál, vegi, hafnir, flugvelli, eins og heilbrigðismál o.fl., o.fl. Það verður áreiðanlega erfitt að fullnægja þeim þörfum með því að afla fjár í ríkissjóð með sköttum, og ég held, að það sé sjálfsögð regla að gera ráð fyrir því að fjármagna ýmsar af þeim framkvæmdum með öflun lánsfjár. En þá skiptir meginmáli, hvernig þess lánsfjár er aflað. Þar eru tvær leiðir til. Annars vegar það að leita á útlendan lánamarkað og fá erlend lán og hins vegar að reyna að fá þau innlend lán, sem kostur er. Ég held, að á þessu sé meginmunur. Ég held, að það sé vafasöm stefna og ekki ráðlegt að leggja of mikið inn á þá braut að afla erlendra lána til ýmissa framkvæmda, sem nauðsynlegar eru hér innanlands. Við höfum dæmin fyrir okkur, að það hefur verið farið inn á þá braut. við höfum t.d. dæmi, sem líklega verður minnzt á hér á eftir í sambandi við Reykjanesbraut, þegar rætt verður um veggjald af henni, en ég held, að sú fsp. sé hér á dagskrá. Til Reykjanesbrautar var aflað erlends fjár. það var allveruleg fjárhæð í upphafi að krónutölu, en ég held þó, að það sé ekki ofmælt, að hún hafi nú tvöfaldazt eða vel það að krónutölu til, vegna þess að aflað var erlends lánsfjár.

Nei, ég held, að við ættum að geta orðið allir sammála um, að það sé sjálfsagt að nýta þá lánsmöguleika, sem eru fyrir hendi hér innanlands. Það þarf að fjármagna margar framkvæmdir. Ég álít, að það sé eðlilegt að freista þess að fjármagna þær sem mest með því að afla lánsfjár innanlands, og ég álít, að það sé skynsamleg leið einmitt nú að fara inn á, ef ég má svo segja, frjálsa sparnaðarleið, gefa mönnum kost á að leggja sitt af mörkum til þessara framkvæmda með því að fara þessa leið, sem hér er farið inn á, að leita eftir því fé, sem sparazt hefur, og menn vilja spara.

Það er hverjum manni augljóst, að það eru viss hættumerki í efnahagsástandi okkar nú. það er hér óhófleg spenna. Það er hér óhófleg eyðsla. Við þurfum að beita vissum ráðum til þess að draga úr þeirri spennu og úr þeirri eyðslu. Ég held, að heppilegasta leiðin, sem hægt er að fara í því efni til að byrja með a.m.k., sé sú að leita eftir frjálsum sparnaði.

Því skal ekki neitað, að það er á ýmsan hátt velmegun í landinu um þessar mundir, og við eigum við góðæri að búa. Það er skynsamleg regla og þótti löngum góður búskapur að eyða ekki því öllu jafnharðan, sem aflaðist í góðum árum, heldur leggja nokkuð til hliðar. Ég get því ekki séð, að það væri nein goðgá að tala um ofurlítið geymslufé í þessu sambandi, eins og mér virtist koma fram hjá einum hv. þm. áðan. Það gæti farið svo síðar meir og kannske fyrr en varir, að þörf yrði fyrir það. Ég held, að það hefði margt farið betur hér á landi, ef það hefði verið fylgt þeirri reglu á árunum 1965 og 1966 að leggja nokkuð til hliðar og geyma til þeirra mögru ára, sem á eftir komu. Ég skal að vísu játa, að það er hægara að kenna heilræðin en halda þau, en samt sem áður er það nú svo, að það er skynsamra manna háttur að læra af reynslunni.

Ég held þess vegna, að við eigum ekkert, hv. þm., að telja eftir, að farið sé inn á leið sem þessa, og ég held, að það væri engin goðgá, og ég vil á engan hátt fortaka það, að það verði leitað eftir sams konar láni á næsta ári. En hitt vil ég enn undirstrika, að ég held, að það sé ekki á neinu hátt um neina afbrigðilega aðferð að tefla um fjáröflun. Þessi leið hefur verið farin áður, og þm. þurfa ekkert að vera órólegir út af því, að það kemur auðvitað til þeirra kasta að ráóstafa þessu fé. Það verður ekki farið fram hjá þeim á neinn hátt með það.

Þetta vildi ég aðeins taka fram, og ég held, að það gæti verið ástæða fyrir hv. þm. að íhuga, hvort það sé ekki einmitt nú þannig ástandið hér, að við þurfum að gera ráð fyrir því að afla í ríkari mæli fjár til framkvæmda með þessum hætti, með þessari leið, sem hér er farið inn á, og jafnframt að vera við því búnir, einmitt með þessum hætti, að gera ráðstafanir til þess að draga úr þeirri óhóflegu spennu, sem nú er í efnahagsmálum okkar, sem getur haft hættu í för með sér, ef ekki er spyrnt við fæti í tæka tíð.