08.11.1971
Neðri deild: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (3008)

52. mál, Jafnlaunadómur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, fyrst til þess að segja frá því, sem reyndar kom fram í ræðu hv. þm., sem síðast talaði, að á sínum tíma beitti ég mér fyrir því, að komið var upp á vegum ríkisins sérstakri n. til þess að fylgjast með því, að jafnrétti kæmist á launagreiðslur til kvenna og karla í ríkiskerfinu. Þessi n. hefur starfað æðilengi, og ég vil beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að fá skýrslu um það, hvernig störf n. hafi farið fram og hvers hún hefur orðið áskynja í starfi sínu. Ég hygg, að það væri skynsamlegt að fá slíka skýrslu og grg. um það, hvernig þetta hefur orðið í framkvæmdinni og þá hvernig á því stendur, að ekki hefur miðað betur í þá átt að ná fullkomnu jafnrétti í þessum efnum en raun ber óneitanlega vitni um.

Þá vil ég lýsa stuðningi mínum við meginstefnu þessa frv.