08.11.1971
Neðri deild: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (3012)

52. mál, Jafnlaunadómur

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Í tilefni af flutningi frv. um jafnlaunadóm hafa menn hér rifjað, upp sögu málsins sérstaklega. Hv. 8. landsk. þm. byrjaði á árinu 1960, að mig minnir, og þá var það með tillöguflutningi Alþfl.-manna. Lengra aftur man hann nú áreiðanlega í sögu Alþfl., því að ég er viss um, að hann man upphaf þessa máls, því að 1947 eða 1948, á öðru þingári mínu, mun ég hafa flutt frv. til l. um jafnrétti kvenna og karla. Ég man ósköp vel, hvernig undirtektir það mál fékk. Því var mætt með spotti og háði og harðri andstöðu í viðbót. Ég flutti málið ekki aðeins tvisvar, ekki þrisvar, heldur fjórum sinnum, fimm sinnum, og þá í seinni skiptin í því formi, að það væri frv. til l. um launajafnrétti kvenna og karla, tók þann þátt sérstaklega út úr, þó að ég væri þá og sé enn þeirrar, skoðunar, að nokkurt misrétti ríki milli kvenna og karla á öðrum sviðum einnig en launamála, þó að launamisréttið væri þá og sé enn alveg áberandi og sannanlegt með tölum sem bláköldum, staðreyndum. Ég flutti þessi frv. öll sem þm. Alþfl., og þar kom máli, að meðflm. mínir að þessu frv. urðu síðar Gylfi Þ. Gíslason, síðar menntmrh., og Eggert G. Þorsteinsson, fyrrv. ráðh., og fluttum við það frv. a. m. k. í eitt skipti og komum því ekki fram. En svo gerðist það, sem hv. 8. landsk. þm. sagði frá, að Jón Þorsteinsson, þáv. þm. Alþfl., fann miðlunarleið í málinu, í þessu margdrepna máli Alþfl.-þm., að bera fram till. um, að launajafnrétti skyldi komið á á 6–7 árum, í smáskömmtum. Það frv. flutti hann ásamt Eggert G. Þorsteinssyni, ef ég man rétt, og það komst fram. Þá lá mitt frv. einnig enn einu sinni fyrir þinginu, og þá var það, að þegar málið kom í þessa hv. d., flutti ég mitt frv. sem brtt. grein fyrir grein við þetta sjöskammtafrv. Alþfl.-mannanna og vildi þá, að það launajafnrétti hjá þessum ákveðnu starfsgreinum, sem frv. Jón Þorsteinssonar fjallaði um, kæmi þegar í stað samkv. afdráttarlausum till. grein fyrir grein í mínu frv. En þá brá svo við, að ekki aðeins Alþfl.-menn almennt á þingi, heldur einnig hinir fyrri meðflm. mínir að mínu frv., Eggert G. Þorsteinsson og Gylfi Þ. Gíslason, sem þá voru hér í deildinni, greiddu atkv. á móti því frv., sem þeir höfðu áður flutt með mér, grein fyrir grein, og þannig var það malað niður, en frv. Jóns Þorsteinssonar var samþ., — góðu heilli þó, það var þó skárra en ekkert — og svo var skipað n., jafnlaunanefnd, sem vann að framkvæmd þess í 6 ár að jafna út þann launamismun, sem var á stéttarfélagssamningum milli lauma karla og kvenna. Ég átti sæti í þeirri n. ásamt ráðuneytisstjóranum í félmrn. og fulltrúa Vinnuveitendasambandsins, Barða Friðrikssyni, og það verð ég að segja, að meðnefndarmenn mínir störfuðu af mikilli víðsýni að framkvæmd frv., og það var framkvæmt jafnrétti kvenna til móts við karla samkvæmt þessu frv. á mun víðtækari grundvelli en sjálft frv. strangt tekið gaf tilefni til. Þannig hefur þessu máli þó þokað áfram í átt til þess launajafnréttis, sem við búum nú við að því er snertir hinar ákveðnu starfsgreinar samkv. stéttarfélagasamningum innan Alþýðusambands Íslands, og er þó að mínu áliti ekki fullkomlega komið þar málum í höfn, sízt af öllu að því er snertir launakjör lágt launaðs verzlunarfólks, það verð ég að segja. Álít ég, að þar verði enn um verulegan launamismun að ræða þrátt fyrir það að það sé byggt á „kollektívum“ samningum.

Ég taldi óþarft að láta það fara fram hjá hv. þm., úr því að verið var að rekja sögu þessa máls, að geta að einu forsögunnar, þeirrar sem er þó dálítið söguleg og dálítið einkennileg, þegar menn sjálfir eru flm. að frv. og greiða svo atkv. gegn því sjálfir, grein fyrir grein. En ég játa, að þeir hafa þar sjálfsagt valið um þetta. hvort það væri þó ekki betra að fá launajafnréttið fram í áföngum en að fá það ekki. En þeir áttu annan kost. Þeir áttu þess kost að greiða atkv. með því frv., sem þeir höfðu áður verið meðflm. að og ráða þar úrslitum um málið, því að það valt á þeirra atkv.

Í framhaldi af þessu held ég, að ég þurfi varla að lýsa þeirri afstöðu minni persónulega, að ég nota sérhvert tækifæri, sem mér býðst, til þess að vera víðtækari og koma betur fram launajafnréttiskröfum kvenna á móti karlmönnum, því að ég álít engan siðferðilegan grundvöll til fyrir því að gera mismun á launum kvenna og karla út frá kynferðislegum forsendum.

Það má um það deila, hvaða form á að velja því að fá úr því skorið, hvort konur séu rangindum beittar að því er snertir launajöfnuð, í raun og veru gegn daglegum grundvelli, því að og fæ aldrei annað séð en í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna séu skýr ákvæði, sem varla sé hægt að komast fram hjá, ef fólk, sem við þau lög býr, leitar réttar síns samkvæmt dómstólum. Ég held, að það hefði þurft fyrir löngu að vera búið að fara í prófmál á grundvelli laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna um það, hvort ekki er brotinn lagalegur réttur á fólki í opinberri þjónustu. Og ég fæ ekki skilið það, að sá lagastafur sé ekki nógu skýr, þar sem stranglega er tekið fram og skýrum stöfum, að enginn launamismunur eigi að vera á körlum og konum í opinberri þjónustu við sömu störf. Og þau störf eru sum þess eðlis, að það er ekki hægt að gera mun á. Starfið er hið sama, hvort sem það er unnið af karli eða konu, segjum t. d. gjaldkerastarf í banka. Gjaldkerastörf í þjóðbankanum sjálfum eru ýmist innt af höndum at konum eða körlum og við launamismun. Ég held, að ef þær konur, sem þessi störf vinna, hefðu farið í prófmál, gætu þær ekki annað en unnið þau mál, og er þá hart ef ríkisstofnanir þurfa að láta dæma sig til slíkra hluta. Það má þess vegna vera, að það sé engin leið önnur fær til þess að ná rétti kvenna fram í þessum efnum en að setja sérstakan dómstól til þess að dæma um þessi mál, og játa ég þó, að það gæti verið líklega til þess að spilla góðu samkomulagi milli starfsfólks og atvinnurekenda, yfirmanna yfirleitt, að verða að sækja sín mál þannig fyrir dómstólum. Aðrar leiðir ættu að vera færar og eru færar að mínu áliti, og atvinnurekendur í landinu og forstöðumenn ríkisstofnana hafa átt þess nógan kost að gera það af sjálfsdáðum að framfylgja réttum lögum, a. m. k. án þess að vera dæmdir til þess. Það er, held ég, að því vikið í stjórnarsáttmálanum, að ríkisstj. núverandi vilji vinna að því að afmá misrétti milli þegnanna og milli karla og kvenna, og ber henni að sjálfsögðu að standa við það fyrirheit sem önnur.

Hv. 8. landsk. þm. beindi þeirri fsp. til mín, hvað gert hefði verið varðandi þáltill. samþ. á s. l. þingi um rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi. Þessi þál. er allvíðtæk og ekki eingöngu um launajafnréttismál, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. skorar á ríkisstj.“ — það var nú hin sálaða — „að láta framkvæma rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi. Sérstaklega skal rannsóknin beinast að því, hvernig háttað er raunverulegu jafnrétti karla og kvenna að því er varðar menntun, störf, launakjör og hvers kyns þátttöku í félagslegum verkefnum. Jafnframt skal kannað, hverjar breytingar á gerð þjóðfélagsins gætu stuðlað að því að auka jafnrétti manna. Að rannsókn lokinni skulu niðurstöður hennar birtar.“

Ég er alveg sammála hv. flm. frv., sem hér er til umr., frv. um jafnlaunadóm, að framkvæmd þessarar þál. er mun víðtækari og beinist að miklu fleiri verkefnum en frv. hennar fjallar um, og frv. kemur því á engan hátt í staðinn fyrir hina samþ. þál. frá síðasta þingi. Þar er beðið um mjög víðtæka rannsókn á mörgum sviðum varðandi menntun og hvers konar störf og starfsaðstöðu og þátttöku í félagslegum verkefnum og er áreiðanlegt, að það er engin ástæða til þess að láta afgreiðslu þessa máls um jafnlaunadóm bíða þess, að n. skili niðurstöðum um rannsókn allra þeirra jafnréttisþátta, sem fjallað er um í þál. En um þessa þál. er það að segja, að hún mun hafa verið send frá skrifstofu Alþ. tveimur rn., félmrn. og menntmrn., enda ekki óeðlilegt, og hefði jafnvel verið ástæða til að senda hana fleiri rn., þar sem henni var beint til ríkisstj. og grípur inn á svo mörg svið, sem jafnvel eru utan valdsviðs þessara tveggja rn. Ég veit ekki, hvaða tökum menntmrn. kann að hafa tekið á þessu máli, en 2. júlí var Kvenréttindafélagi Íslands skrifað og sá félagsskapur beðinn að tilnefna tvo menn í n., til þess að taka þátt í þessari rannsókn. Geri ég ráð fyrir, að það hafi verið sammæli rn., að menntmrn. tilnefndi einnig menn til rannsóknar, að því er snertir a. m. k. menntun og störf á því sviði, sem þál. tók til. Ég get lýst því einu yfir, að það skal ekki verða nein tregða á því, að félmrn. fylgi framkvæmd þessarar þál. eftir og setji þá rannsókn í gang fyrir sitt leyti og í samráði við menntmrn. eða hver önnur rn. sem ástæða þykir til að kveðja þar til. En ég tel, að það sé gefinn hlutur, að sú rannsókn verði það umfangamikil og tímafrek, að þetta frv. yrði þá að leggjast til hliðar, ef það ætti á nokkurn hátt að bíða niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Það er í raun og veru úttekt á þjóðfélagsaðstöðu þegnanna almennt, sem fjallað var um í hinni víðtæku jafnréttistillögu núv. hæstv. iðnrh.

Ég þykist geta sagt það alveg óhikað fyrir hönd míns flokks, að meginhugsunin, sem felst í frv. um jafnlaunadóm, er í samræmi við stefnu flokksins og mun njóta stuðnings þingflokksins í heild.